The Voice USA bregst ekki nú, frekar en fyrri daginn. Reyndar hefði Skjár Símans mátt vera duglegri við að auglýsa að þættirnir væru komnir á dagskrá því það fór framhjá mér og ég missti af fyrstu þremur þáttunum. Það tók mig, einlægan aðdáanda þáttanna, smá tíma að jafna mig á þeirri staðreynd, en maður verður víst að þola mótlæti í þessu lífi án þess að emja ógurlega og mér tókst það svona nokkurn veginn.
Það hefur orðið endurnýjun í þjálfaraliðinu í The Voice. Söngkonurnar Miley Cyrus og Alicia Keys mæta þar sem nýliðar og virðast kunna ákaflega vel við sig. Þær eru mjög ólíkir karakterar. Cyrus hefur gríðarlega ánægju af að tala og á erfitt með að stoppa. Hún er á stöðugu iði og mikil ákafamanneskja. Keys er hins vegar róleg og yfirveguð og afar fagleg. Hún hefur einstaklega greindarlegt yfirbragð. Sennilega er hún skörpust allra þeirra þjálfara sem komið hafa fram í The Voice.
Adam Levine og Blake Shelton hafa verið þjálfarar frá upphafi og eru blessunarlega ennþá á sínum stað. Þeir eru eins og fæddir fyrir þátt eins og þennan. Blake Shelton er afskaplega afslappaður náungi og sérlega fyndinn og óhemju stríðinn. Það er eiginlega ómögulegt að ímynda sér The Voice án hans. Levine er örari og á til að verða stressaður og skammar jafnvel áhorfendur ef honum finnst þeir ekki bregðast rétt við. Samspilið milli þjálfaranna hefur alltaf verið eitt það skemmtilegasta við The Voice og þannig er ennþá.
Söngvararnir sem þarna eru komnir til að syngja í blindprufum fyrir þjálfarana eiga sumir merkilega fjölskyldusögu. Í síðasta þætti mætti til leiks ungur maður sem Blake Sheldon valdi í sitt lið. Baksviðs beið faðir hins unga söngvara, Tommy Allsup, sem var gítarleikari hjá Buddy Holly og hafði verið að skemmta ásamt honum og Ritchie Valens áður en farið var í flugferð sem reyndist verða hinsta förin. Þar sem fá sæti voru í flugvélinni köstuðu Allsup og Valens upp á það hvor skyldi fá flugvélasæti. Allsup tapaði. Buddy Holly og Ritchie Valens létu lífið þegar vélin hrapaði. Í þættinum var stutt viðtal við Allsup og þar sagðist hann hugsa til þessa atviks á hverjum degi. Sannarlega viðtal sem snerti mann.