fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

„Skapið er hluti af mér“

Aron ætlar sér stóra hluti á EM í Póllandi – Skapið mikilvægt til að ná árangri – Rétt missti af Ólympíuleikunum 2004

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. janúar 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aron Kristjánsson tók við íslenska karlalandsliðinu í handbolta árið 2012 af Guðmundi Guðmundssyni sem þá var búinn að vera að gera góða hluti. En það var komin þreyta í mannskapinn. Aron tók strax þann pól í hæðina að auka breiddina í liðinu og hafa fleiri tilbúna leikmenn til taks. Sjálfur spilaði hann með landsliðinu um nokkurra ára skeið en varð að hætta á hátindi ferilsins vegna meiðsla. Það var mjög svekkjandi en meiðslin ýttu honum út í þjálfarastarfið þar sem hann fann sér nýjan farveg. Hann er nú kominn með landsliðið til Póllands þar sem hann ætlar sér stóra hluti á EM í handbolta. Blaðamaður settist niður með Aroni rétt áður en hann fór út og ræddi um komandi mót, ferilinn, vonbrigðin, væntingarnar og skapið.

Aron Kristjánsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, stendur nú frammi fyrir einu af sínu stærsta verkefni til þessa. EM í handbolta hefst þann 15. janúar næstkomandi og mikil pressa er á íslenska liðinu að standa sig vel, sérstaklega eftir slakt gengi á HM í Katar 2014. Það ræðst jafnframt af gengi liðsins í Póllandi hvort Íslendingar verða með á Ólympíuleikunum í Ríó á þessu ári. Aron virðist þó ekki vera neitt sérstaklega stressaður þegar blaðamaður hittir hann á kaffihúsi í Nauthólsvíkinni. Hann hefur góða tilfinningu fyrir árinu 2016 og er sannfærður um að liðið nái góðum árangri á mótinu.

Hungrar í Ríó

„Það er góður andi í liðinu og aukaneisti í mönnum því það er sæti á Ólympíuleikunum undir. Nokkrar af bestu þjóðunum eru búnar að tryggja sér sæti. En við munum berjast um sæti ásamt sterkum þjóðum eins og Svíþjóð, Noregi, Ungverjalandi, Hvíta-Rússlandi og Serbíu.“ Aron útskýrir fyrir blaðamanni að það sé ekki bara sætið sem við lendum í á EM sem skipti máli hvað Ólympíuleikana varðar, heldur líka hvernig hinum þjóðunum gangi.

„Þetta lið er búið að vera lengi saman og margir sem eru komnir á seinni hlutann á sínum ferli, þannig að þetta er síðasti séns fyrir marga að fara á Ólympíuleika. Það er aukahvatning í því. Mér finnst vera meiri stöðugleiki í liðinu eftir mótið í Katar, en við lékum mjög sveiflukennt þar. Það er meiri orka í liðinu núna, við höfum fundið okkur betur saman og það hafa verið gerðar jákvæðar breytingar. Hugarfarið hjá leikmönnunum er svo alltaf aðalatriðið. Hungrið,“ segir Aron og brosir. Sjálfan hungrar hann mikið í að komast til Ríó eftir að hafa rétt misst af tækifærinu til að spila með landsliðinu á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 vegna meiðsla.

Ekki sjálfgefið að vera á stórmótum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur spilað á stórmótum nánast samfellt í um áratug, sem þykir ansi góður árangur fyrir ekki fjölmennari þjóð. Við erum orðin vön því að okkur gangi vel og tölum stórkarlalega um strákana okkar þegar sá gállinn er á okkur. En þegar eitthvað klikkar þá leynir þjóðin ekki vonbrigðum sínum. Þá hætta strákarnir að verða okkar. Verða bara liðið eða „þeir“. Aron segist vissulega kannast við þessar sviptingar. „Svoleiðis er þetta bara. Við vitum það að þegar gengur vel þá eru allir með, en þegar gengur illa þá eru vinsældirnar ekki eins miklar,“ segir Aron og glottir. „Liðið hefur glatt þjóðina í mörg ár með góðri frammistöðu. Janúar er hálf þunglyndislegur mánuður á Íslandi, það er dimmt og svona. Þetta hefur oft verið ljósið hjá þjóðinni. Það er tilhlökkun í janúar að sjá strákana á stórmóti og þess vegna er svo mikilvægt að vera á stórmótum. Við megum samt ekki gleyma því að það er alls ekki sjálfsagt hjá svona lítilli þjóð.“

Aðspurður hvort pressan frá þjóðinni sé öðruvísi núna en oft áður eftir slakt gengi á síðasta móti segist Aron upplifa að fólk sé raunsærra. „Fólk er kannski að átta sig á því að þetta er ekki alveg sjálfgefið. Við vorum í ellefta sæti á síðasta móti, en við viljum halda okkur í topp tíu. En nú liggur bara eitthvað í loftinu. Við erum að fara á þetta Evrópumót til að ná toppárangri með Ólympíudrauminn í huga.“

„Við erum að fara á þetta Evrópumót til að ná toppárangri með Ólympíudrauminn í huga.“

Eykur breiddina

Aron tók við íslenska landsliðinu af Guðmundi Guðmundssyni árið 2012 og viðurkennir að það hafi verið töluvert mikil áskorun, enda hafði Guðmundur náð mjög góðum árangri með liðið. „Margir af þeim leikmönnum sem eru komnir á seinni hluta ferilsins núna voru á besta aldri þá. Þeir höfðu mikla reynslu og mikinn leikskilning. Það var á þeim tíma sem þessi aggressíva 6-0 vörn þróaðist. Hún kom ný og óvænt inn í handboltann. Menn hafa lifað á því og spilað góðan og skipulagðan leik. Það er svolítið leið okkar Íslendinga í handboltanum, að spila skipulega og vera vel undirbúnir fyrir leiki. Með smáatriðin á hreinu. Þannig höfum við náð árangri,“ segir Aron og blaðamaður kinkar kolli þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað 6-0 vörn þýðir. Hann ákveður að ljóstra ekki upp fáfræði sinni fyrir framan landsliðsþjálfarann heldur punktar hjá sér í huganum að leita upplýsinga um fyrirbærið á netinu síðar. Eða spyrja sér fróðari menn.

„Það var búið að spila mikið á sömu leikmönnunum í langan tíma þegar ég tók við. Það voru svolítið einokaðar stöður í landsliðinu þannig að það voru fáir með reynslu til að spila landsleiki. Eitt af markmiðum mínum þegar ég tók við liðinu var að auka þessa breidd. Við höfum verið að gera það með ýmsum verkefnum eins og úrtakshópum, b-liðs verkefnum og afreksæfingum þannig að menn séu tilbúnir að koma inn þegar einhverjir detta út,“ útskýrir Aron og bendir á að margir leikmenn á besta aldri hafi verið að lenda í meiðslum síðustu ár og það hafi tafið þá í að geta spilað almennilega með landsliðinu. „Fyrsta mótið eftir að ég tók við var erfitt, þá vantaði marga á HM á Spáni. Síðan náðum við, þrátt fyrir mikil forföll, fimmta sæti á EM í Danmörku, sem var mjög góður árangur,“ segir hann stoltur – og má vera það.

Aron telur að íslenska landsliðið eigi góða möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í Ríó á þessu ári.
Tilbúinn í EM Aron telur að íslenska landsliðið eigi góða möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í Ríó á þessu ári.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Byrjaði að æfa 14 ára

Það kann að koma á óvart, en Aron var orðinn 14 ára gamall þegar hann byrjaði að æfa handbolta að einhverju ráði. Fyrstu ellefu ár ævinnar bjó hann í Stykkishólmi þar sem handbolti var ekki iðkaður nema í mýflugumynd. „Ég held að fram að ellefu ára aldri hafi ég einu sinni farið í handbolta í leikfimi í skólanum, í pínulitlu íþróttahúsi.“ Hann æfði hins vegar frjálsar íþróttir, körfubolta og fótbolta af kappi. Handboltinn kom ekki til sögunnar fyrr en hann flutti úr Hólminum til Hafnarfjarðar. Í fyrstu var hann aðeins aukagrein meðfram körfuboltanum og fótboltanum sem hann æfði með FH.

„Allir bekkjarfélagar mínir í Víðistaðaskóla æfðu handbolta. Bekkurinn minn var bara fjórði flokkur í Haukum í handbolta eins og hann lagði sig og ég dróst því með á handboltaæfingu. Ég byrjaði á því að spila annan hvorn leik á miðjunni og hinn í marki. Við skiptum þessu tveir á milli okkar. Síðan fór ég í hornið á yngra ári í þriðja flokki. Það var ekki fyrr en ég var kominn á eldra ár að ég sagði við þjálfarann minn að ég ætlaði ekki að vera hornamaður, heldur spila fyrir utan og síðan þá hefur ekkert annað en handbolti komist að.“

„Ég var kominn til Holstebro, búinn að gera þriggja ára samning, en meiddist í mínum öðrum leik og ferillinn var bara búinn.“

Veðjaði á handboltann

Hann fann mjög fljótlega að hann hafði metnað til að ná langt í handboltanum. Þá var hann líka búinn að átta sig á að það væru miklu meiri líkur á því að hann gæti orðið atvinnumaður í handbolta heldur en fótbolta. Og á þessum tíma voru íslenskir handboltamenn farnir að verða eftirsóttir erlendis. Ekki dró það úr eldmóðinum hjá unga handboltamanninum.

Aron viðurkennir að hafa verið ærslafullur sem barn og unglingur, en það komst lítið annað að en íþróttir, sem voru stundaðar innandyra sem utan í öllum veðrum. Honum gekk vel í skóla þótt bækurnar heilluðu hann ekki sérstaklega. „Svo er ég kennaramenntaður í dag. Það gerðist eiginlega alveg óvart. Ég bjóst aldrei við að verða kennari. En ég hreifst af því að kenna og þjálfa og hugsaði því með mér að ég gæti sameinað kennsluna og þjálfunina.“

Fúlt að komast ekki á Ólympíuleikana

Aron spilaði með landsliðinu um nokkurra ára skeið, en ferlinum lauk heldur fyrr en til stóð vegna alvarlegra meiðsla. „Ég spilaði minn fyrsta landsleik árið 1994, undir Þorbergi Aðalsteinssyni, eftir að hafa átt gott mót með undir 20 ára-landsliðinu. Svo var ég aðeins rétt fyrir utan liðið og spilaði einstaka leiki í svolítinn tíma. Datt betur inn í liðið 1999 og var kominn í mjög góða stöðu árið 2003 þegar ég meiddist í lok ársins,“ segir Aron og vonbrigðin leyna sér ekki í röddinni þótt langt sé um liðið.

„Þá var Guðmundur landsliðsþjálfari og ég leikstjórnandi og mér var farið að ganga virkilega vel í því hlutverki. Við vorum nýbúnir að tryggja okkur inn á Ólympíuleikana í Aþenu, en þá höfðu Íslendingar ekki verið með á Ólympíuleikum í tólf ár. Þannig að þetta var auðvitað mjög fúlt. Ég var nýbúinn að skipta um félag og var á leiðinni til Danmerkur á nýjan leik. Ég var kominn til Holstebro, búinn að gera þriggja ára samning, en meiddist í mínum öðrum leik og ferillinn var bara búinn.“

Um var að ræða alvarleg brjóskmeiðsli fyrir aftan hnéskelina og Aron fékk þau skilaboð frá lækninum sínum að það væru um 50 prósent líkur á því að hann gæti spilað aftur. Það var hins vegar ljóst að hann myndi ekki geta æft eins mikið og yrði líklega aldrei eins góður og hann vildi vera. Hann langaði samt mikið að reyna, þótt það væri ekki nema bara til að komast á Ólympíuleikana eins og til hafði staðið. „Gummi var í sambandi við mig langt fram á sumarið í þeirri von að ég næði mér á strik, en ég komst aldrei almennilega í gang. Það var mjög svekkjandi að missa af þessu.“

Bauðst strax þjálfarastaða

En eins og oft er sagt, þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar, og það var einmitt það sem gerðist hjá Aroni á þessum tímapunkti. Skömmu eftir að hann meiddist fékk hann tilboð frá danska félaginu Skjern, sem hann hafði sjálfur spilað með um árabil, um að gerast þjálfari. „Ég var nýkominn úr aðgerð og það var nýkomið í ljós hve alvarleg meiðslin voru. Ég lá bara með fætur upp í loft þegar formaður Skjern hringdi í mig og bauð með þjálfarastöðuna. Þá var ég eiginlega ekki búinn að ákveða mig hvort ég ætlaði að reyna að halda áfram að spila eða ekki en sagðist samt tilbúinn að ræða við þá. Svo kom að því að ég þurfti að ákveða mig hvort ég ætlaði að hefja nýjan feril þarna, sem þjálfari hjá góðu félagi í Danmörku, eða að reyna að berjast sem leikmaður sem gat varla spilað. Ég ákvað því á endanum að taka tilboðinu.“

Þá hafði Aroni einnig boðist að gerast þjálfari hjá Holstebro en hjartað sló með gamla félaginu hans, Skjern. Þar hafði hann náð mjög góðum árangri sem leikmaður, orðið með þeim bæði danskur meistari og bikarmeistari. „Það voru tilfinningarnar sem réðu þar og ég sé ekki eftir því, þótt ég hefði auðvitað viljað spila lengur sjálfur.“

Gamli þjálfarinn hans hjá Skjern hafði verið gerður að íþróttastjóra liðsins en var Aroni til halds og trausts á bekknum fyrst um sinn og varð hans lærifaðir. „Ég átti góð ár þar og öðlaðist mikla og góða reynslu. Það má segja að ég hafi tekið stökk strax á þjálfaraferlinum bara með því að byrja sem atvinnuþjálfari þarna, í staðinn fyrir að byrja hérna heima og vinna þá aðra vinnu með.“

„Ég heilsaði bara upp á hana í íþróttahúsinu. Ég held að hún hafi verið að fara á æfingu og ég að koma af æfingu.“

Öskubuskuævintýri í Danmörku

Atvinnumannaferill Arons í spilamennsku einskorðaðist við Danmörku, þótt litlu hefði mátt muna að hann færi til Þýslalands eða Spánar. Það var einhvern veginn eins og örlögin ætluðu honum til Danmerkur. Konan hans, Hulda Bjarnadóttir, hafði spilað í Danmörku og þekkti því land og þjóð. Þá var hún einnig dönskukennari. Þeim hugnaðist því ágætlega að dvelja í Danmörku um tíma.

„Hugsunin var eiginlega að búa í Danmörku á leiðinni til baka. Fara fyrst til Þýskalands og koma þar við á leiðinni heim. En svo var hringt í mig frá Skjern og ég ákvað að láta slag standa. Ég sé ekki eftir því, enda var þetta algjört Öskubuskuævintýri. Liðið var nýkomið upp og var spáð að það yrði í erfiðleikum með að halda sér í deildinni en við enduðum sem Danmerkurmeistarar og árið eftir urðum við bikarmeistarar. Ég átti þarna frábær þrjú ár sem leikmaður, en lenti að vísu í vandræðum með hnéð á mér sem varð svo til þess að ég tók ákvörðun um að koma aftur heim til Íslands, í Hauka.“

Vildi ekki að synirnir yrðu Danir

Aron gerði tveggja ára samning við Hauka þegar heim var komið og ákvað að hafna boði frá spænsku liði þegar ár var liðið af samningnum. Hann vildi standa við sitt gagnvart Haukum. Hann þyrsti hins vegar að fara aftur út í atvinnumennskuna og að tveimur árum loknum varð því úr að fjölskyldan hélt aftur til Danmerkur, þar sem Aron fékk samning hjá Holstebro. Samningurinn var spennandi og hljóðaði upp á að hann yrði spilandi aðstoðarþjálfari seinni hluta samningsins og tæki svo jafnvel við liðinu síðar meir. „Ég gekk með þjálfarann í maganum, sem hafði sitt að segja þegar við ákváðum að stökkva á þetta. En þá átti ég í viðræðum bæði við lið á Spáni og Þýskalandi. Við gátum líka hugsað okkur að búa lengi í Danmörku og þess vegna var það ofan á, en ég hef lært það að plana ekki of langt fram í tímann í lífinu,“ segir Aron og vísar þar til meiðslanna sem settu fljótlega strik í reikninginn.

Þrátt fyrir að fjölskyldunni liði vel í Danmörku þá togaði Ísland eftir þriggja ára þjálfaraferil hjá Skjern. Það má eiginlega segja að táknrænt atvik hafi gert það að verkum að Aron ákvað að nóg væri komið. „Við sátum fjölskyldan og horfðum á landsleik í fótbolta, Ísland – Danmörk, og miðjustrákurinn minn hélt með Danmörku allan tímann. Ég var alveg að verða brjálaður á honum. Hann var að verða Dani. Þá sagði ég við konuna mína: „Nú förum við heim“,“ segir Aron og hlær dátt. „Ég vildi ekki missa þá í að verða Danir,“ bætir hann kíminn við.

„Ég vildi ekki missa þá í að verða Danir“

Vann alla titla með Kolding

En Aron hafði þó ekki alveg sagt skilið við Danmörku því snemma árs 2014 bauðst honum að taka við úrvalsdeildarliðinu Kolding í Kaupmannahöfn út keppnistímabilið og fékk hann leyfi hjá HSÍ til að sinna því meðfram landsliðsþjálfarastarfinu. Aron og fjölskylda hans tóku þó ákvörðun um að þau fylgdu honum ekki út, allavega ekki strax. Þau ætluðu að sjá hvað yrði úr þessu.

„Það voru mikil vandamál hjá Kolding þegar ég kom þangað. Aðalþjálfarinn hafði verið í veikindaleyfi um tíma og aðstoðarþjálfarinn var með liðið og það var mikið um meiðsli. En mér gekk engu að síður vel með liðið og við unnum alla titla sem við gátum unnið í Danmörku. Það voru líka mikil fjárhagsvandræði hjá félaginu og það var ein af ástæðunum fyrir því að ég fór ekki að rífa fjölskylduna með mér, ef ske kynni að félagið yrði svo fljótlega gjaldþrota.“
Um áramótin 2014–2015 var staða félagsins orðin það slæm að ljóst var að þeir hefðu ekki efni á því að halda Aroni sem þjálfara. Það var þó ekki gert opinbert strax, enda reynt til þrautar að rétta fjárhag félagsins við svo hægt væri að halda Aroni, enda mikil ánægja með hans störf. Það tókst hins vegar ekki og hann sagði skilið við félagið.

Byrjuðu saman á milli æfinga

Aron viðurkennir að hann hugsi stundum um hvernig hefði farið ef hann hefði tekið tilboðum frá þýskum eða spænskum liðum sem sóttust eftir honum. „En lífið sem við áttum í Danmörku var samt mjög gott og gaf lífsfyllingu, bæði fyrir okkur sem fjölskyldu og mig sem leikmann. Maður verður að standa og falla með sínum ákvörðunum. Ég og konan mín eigum þrjá frábæra drengi sem standa sig vel bæði í skóla og íþróttum,“ segir Aron.

Hann og Hulda, konan hans, eru búin að vera saman í rúm 20 ár. „Við hittumst fyrst á Þjóðhátíð í Eyjum. Kynntumst þar en byrjuðum ekki saman fyrr en þremur eða fjórum árum seinna. Fyrst þegar við kynntumst var ég í pásu í öðru sambandi og byrjaði aftur með þeirri konu. Fljótlega eftir að við hættum saman kom Hulda í Hauka, hún var þá nýkomin frá Danmörku ásamt vinkonu sinni og við bara smullum saman,“ segir Aron sposkur á svip. Hann vill lítið fara út í smáatriðin sem mörkuðu upphaf sambands þeirra hjóna. En laumar þessu feimnislega út úr sér: „Ég heilsaði bara upp á hana í íþróttahúsinu. Ég held að hún hafi verið að fara á æfingu og ég að koma af æfingu.“

„Það er tilhlökkun í janúar að sjá strákana á stórmóti og þess vegna er svo mikilvægt að vera á stórmótum.“

Hefur lært að stýra skapinu

Blaðamaður fékk veður af því að Aron væri ansi skapstór og hann hlær þegar það er borið undir hann. „Ég er þessi týpa sem vill vinna. Ég get verið tapsár en ég ræð ágætlega við mig í íþróttum. Ég hef sjálfur svolítið verið að vinna með persónuleikagreiningar í þjálfun. Það er svo mikilvægt að þekkja veikleika og styrkleika til að vita hvernig best er að vinna með einstaklinga. Til þess að geta þróað veikleikana og dýpkað styrkleikana. Og ég held ég hafi náð að gera það með sjálfan mig. Þegar ég var ungur var ég með stuttan kveikiþráð. Var mikill keppnismaður og vildi alltaf vinna. En ég hef þroskast með árunum. Ég vil samt alltaf vinna. Ég vil ná árangri og nota tæki og tól til þess.“ Aron segir skapið geta verið mikilvægt til að ná árangri. „Já, ég tel það. Skapið er hluti af mér,“ segir hann hreinskilinn. Aron telur skapið þó aldrei hafa háð sér neitt sérstaklega. „Þegar ég var að byrja að þjálfa gat ég alveg misst mig gagnvart dómurum. Allavega meira en ég geri í dag. Ég hef aðeins lært að stýra því.“

Aron segist hafa lært að stýra skapinu með aldrinum en það sé þó nauðsynlegt að hafa smá skap til að ná árangri.
Stýrir skapinu Aron segist hafa lært að stýra skapinu með aldrinum en það sé þó nauðsynlegt að hafa smá skap til að ná árangri.

Sviðsljósið venst

Aðspurður hvernig hann kunni við athyglina og sviðsljósið sem óhjákvæmilega fylgir því að þjálfa landsliðið segir hann það venjast. „Ég læri að lifa með því, en það getur verið óþægilegt fyrir fjölskylduna. Fólk hefur skoðanir á mér. Það er kannski verið að tala um mig og barnið heyrir til. Þegar landsliðið er að spila eru 320 þúsund landsliðsþjálfarar,“ segir Aron og vísar þar til sterkra skoðana Íslendinga á liðinu og frammistöðu þess. „En það er bara þannig að ég hef það hlutverk að ákveða hvað á að gera í samráði við mitt starfsteymi. Sem er alveg frábært. Það er góð ára í kringum liðið og við erum með mjög alþjóðlega sterkt sjúkrateymi sem skiptir miklu máli. Við höfum stundum lent í vandræðum með leikmenn erlendis varðandi sjúkraþjálfun, greiningar, aðgerðir og fleira og oft hafa okkar læknar reddað hlutunum. Stundum er það reyndar of seint. Heildarteymi þarf að virka vel á stórmótum. Við vitum að allir leikirnir á Evrópumótinu verða erfiðir. Þetta er sterkasta mótið sem hægt er að fara á. Ólympíuleikarnir eru skemmtilegasta mótið en á heimsmeistaramóti eru fleiri slakari þjóðir en á Evrópumóti. Samkeppnin er gríðarleg en við förum jákvæðir og einbeittir af stað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Alexandra Helga opnar sig um krefjandi ófrjósemisbaráttu – „Þetta var svo stór partur af mér“

Alexandra Helga opnar sig um krefjandi ófrjósemisbaráttu – „Þetta var svo stór partur af mér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Davíð Goði byrjaði að fá bletti fyrir annað augað: „Ég hélt að ég myndi fá einhverja augndropa og labba út“ – Við tók mánaðardvöl á spítala og mikil óvissa

Davíð Goði byrjaði að fá bletti fyrir annað augað: „Ég hélt að ég myndi fá einhverja augndropa og labba út“ – Við tók mánaðardvöl á spítala og mikil óvissa