fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Höskuldur:„Það sem kvillinn hefur gert fyrir mig er ótalmargt“

Lítur á geðhvörfin sem gjöf

Auður Ösp
Mánudaginn 4. janúar 2016 22:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Satt best að segja þá hefði ég ekki viljað sleppa við neitt af þessu,“ segir Höskuldur Þór Höskuldsson ljósmyndari en hann hefur undanfarin níu ár lifað með geðhvörfum. Fylgja því gríðarlegar tilfinningalegar sveiflur sem hafa haft mikil áhrif á líf hans. Hann hefur hins vegar tekið þann pól í hæðina að einblína á allt það sem veikindin hafa gefið honum og segir að þar megi nefna heilmikið.

„Ég nota þá aðferð að skrifa mig frá hlutunum. Mér hefur fundist vanta annað sjónarhorn þar sem flestir tala um erfiðleikana sem fylgja þessu. En þetta er mín leið,“ segir Höskuldur í samtali við DV.is. Hann segir að þrátt fyrir að það hljómi furðulega þá hafi það ýmsa kosti í för með sér að vera með geðhvörf. „Fyrir mitt leyti, eins erfitt og þetta hefur stundum verið, þá lít ég á þennan geðkvilla sem ákveðna gjöf. Með kvillanum þá hef ég öðlast meiri sjálfsvitund, en taka skal samt fram að ég hef náð sáttinni við hann. Það sem kvillinn hefur gert fyrir mig er ótalmargt.“

Hann hefur glímt við geðhvörfin í 9 ár. „Fram að fyrsta kastinu mínu árið 2007, þá var ég hlédrægur og feiminn, ég átti í erfiðleikum með að kynnast fólki og leið illa í samskiptum. Ég fann fyrir þörfinni í að vilja fela mig, vera út í horni,“ segir hann.

„Að veikjast síðan, var ákveðið ,,wake up call” fyrir mig. Mér gafst tími til þess að kafa dýpra ofan í þá hluti sem höfðu ef til vill komið fram nokkru áður, síðan á unglingsaldri. Þó að ég hafi af mörgum verið talinn glaðlyndur fram eftir öllum aldri, og geðprúður, þá var ég mjög svo sveiflukenndur. Þetta var samt sem áður svo ýkt hegðun, og svona eftir á að hyggja þá voru þetta fyrstu merki um geðhvörf. En ég pældi ekkert í því í því samhengi. Frá svona 14 ára aldri, er ég í raun í tilfinningalegum doða,“ heldur hann áfram.

Hann segir allt hafa breyst þegar hann „brotlendi“ 22 ára gamall. „Að sjálfsögðu hefur þetta ekki verið bein braut og ég er enn að læra, þetta hefur verið frekar hlykkjótt, krefjandi, þroskandi og lærdómsríkt, þær breytingar sem hafa orðið á mér í gegnum þessi 9 ár.“ Hann tekur fram að að sáttin við geðhvörfin hafi þó ekki komið fyrr en í mars á þessu ári. Hann segir að geðhvörfin hafi í raun gert ótalmargt fyrir sig. „ Ég er opnari, ófeiminn, á auðvelt með samskipti, öruggari, gef meira af mér og er sáttari.“

Höskuldur segir algengt að fólk sýni kvillum sínum óvirðingu og það hafi hann sjálfur gert. Innlögn á geðdeild Landspítalans fékk hann til að endurskoða hlutina. „Þessi innlögn gerði það að verkum að sáttin og virðingin fyrir kvillanum kom loksins fram, sem segir mér aðeins eitt, mér er aðeins farinn að þykja vænt um mig.“

„Satt best að segja þá hefði ég ekki viljað sleppa við neitt af þessu. Ég horfi öðrum augum á lífið. Fortíðarniðurrif fer stöðugt minnkandi. Ég lifi fyrir hverja sekúndu sem líður. Framtíðin kemur síðar, það er óþarfi að pæla of mikið í henni.
Ég er betri maður í dag. En ég væri ekki kominn á þennan stað ef ekki væri fyrir ,,stóra netið” sem er í kringum mig,“ segir hann jafnframt og ítrekar að skilningur og samkennd hjá aðstandendum og vinum sé gríðarlega mikilvægur.

„Það að tilfinningar viðkomandi einstaklings sem er haldinn geðkvilla séu virtar er með því mikilvægara í þessu öllu saman.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“