Atriðið misheppnaðist á lokatónleikum Mötley Crüe – Trommaranum var bjargað af starfsmönnum
Tommy Lee, trommari bandarísku rokkhljómsveitarinnar Mötley Crüe, lenti í basli á síðustu tónleikum hljómsveitarinnar þegar rússíbani, sem trommusett kappans var fastur við, bilaði.
Atriðið, þar sem Lee trommar á hvolfi, er eitt af því sem einkennt hefur tónleika Mötley Crüe um áraraðir en hljómsveitin er þekkt fyrir mikla tilburði á tónleikum.
Bilun í rússíbananum varð til þess að vagninn, sem trommusettið og Lee voru á, stöðvaðist og sat Lee því fastur. Atvikið átti sér stað á áramótatónleikum hljómsveitarinnar í Los Angeles en þeir voru allra síðustu tónleikar Mötley Crüe, í bili að minnast kosti.
„Það lítur út fyrir að rússíbaninn sé bilaður,“ sagði Lee áður en hann bað um aðstoð við að losna.
Lee varð ekki meint af og fékk hann að fljótt aðstoð frá starfsmönnum sem losuðu hann úr vagninum og komu honum niður á sviðið.
„Ég trúi ekki að þetta sé að gerast, á síðasta kvöldinu. Í alvörunni?,“ sagði Lee þegar hann hékk á hvolfi.
Hér má sjá myndband af því þegar að vagninn bilar og Lee var bjargað.