Logi Geirs fékk nóg af sviðsljósinu – Tapaði öllum peningunum – Mamma með sjaldgæfan heilasjúkdóm
Það var varla hægt að þverfóta fyrir Loga Geirssyni fyrir nokkrum árum. Eftir mikla velgengni í handboltanum var hann einn dáðasti maður landsins og allir vildu nýta krafta hans með einhverjum hætti. Hann var bókstaflega alls staðar. Allt í öllu. Á endanum fékk hann ógeð á sjálfum sér, dró sig í hlé og fór að sinna öðrum verkefnum fjarri sviðsljósinu. Þótt hann hati ekki athyglina þá kann hann vel við að vera bara venjulegur fjölskyldumaður. Logi segist hafa átt fullkominn feril í handboltanum þótt hann hafi hætt fyrr en hann ætlaði sér vegna meiðsla. Hann fer sínar eigin leiðir í lífinu og er með þá línu húðflúraða á bakið á sér. Blaðamaður heimsótti Loga á heimili hans í Njarðvík og ræddi um lífið í atvinnumennskunni, erfiða reynslu sem breytti honum, sjálfstraustið, kaflaskilin, íslenska landsliðið og alvarleg veikindi móður sem hafa fengið mikið á hann.
Logi tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara rétt eftir hádegi og viðurkennir að vera nývaknaður. Hann er þó klæddur og búinn að setja gel í hárið. Hann er í fríi í dag því hann ætlaði að vinna í meistararitgerðinni sinni – áður en blaðamaður ákvað að trufla. Á borðstofuborðinu eru glæsilegar veitingar sem konan hans, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, á heiðurinn af að hafa komið fyrir. Bóndadagskakan er þar á sínum stað. Konan hefur forðað sér út en við njótum góðs af gestrisni hennar.
„Það var rifið aftan í mig þegar ég var í skoti og ég fann strax að það fór eitthvað. Öxlin bókstaflega rifnaði. Eftir það var enginn handbolti,“ segir Logi til að rifja upp fyrir blaðamanni af hverju hann hætti í handboltanum á sínum tíma. En ferillinn var ævintýralegur. Vægast sagt. Hann hófst með trompi hjá Lemgo í Þýskalandi fyrir framan 30 þúsund áhorfendur og lauk með með trompi – fyrsta Íslandsmeistaratitli FH í næstum 20 ár. Logi var sannkölluð þjóðhetja. Það gekk allt upp hjá honum.
Eftir að hafa gert upp atvinnumannsferil sinn í bókinni 10.10.10 sem kom út þann sama dag, hvarf Logi smám saman af sjónarsviðinu. Lítið spurðist til hans þangað til hann dúkkaði skyndilega upp með gullbindi í EM-stofunni á RÚV að ræða um Evrópumótið í handbolta. Þrátt fyrir að íslenska handboltalandsliðið hafi ekki slegið í gegn á mótinu er óhætt að segja að Logi hafi gert það, enda setti gullbindið nánast netið á hliðina um tíma. Þær gerast varla betri, endurkomurnar í sviðsljósið.
Þótt Logi væri ekki alveg hættur í handboltanum þegar hann skrifaði bókina þá vissi hann að ferlinum væri lokið. Axlarmeiðslin plöguðu hann og honum gekk illa að ná sér. Skrifin voru hans leið til að takast á við breytta tíma. „Ég vissi hve alvarleg meiðslin voru. Ég var búinn að fara í aðgerð og leita mér aðstoðar úti um allt. Búinn að fara til Bandaríkjanna, Englands og auðvitað Þýskalands og hitta alla þá bestu. Ég reyndi eitthvað aðeins að spila, en vissi að þetta var mjög líklega bara búið. Ég hugsaði þessa bók því sem hálfgert uppgjör og langaði að sýna öllum sem eru að stefna á atvinnumennsku hvernig þetta er í raun og veru. Menn halda bara að þetta snúist um að telja peninga og fagna með forsetanum. Þetta er aðeins meira en það,“ útskýrir Logi og heldur áfram: „Þessi bók var hluti af ákveðnum kaflaskilum hjá mér. Af því ég sá fyrir mér að ég væri að detta út. Ég vildi gera upp þennan tíma og halda svo áfram. Gera eitthvað nýtt.“
„Ég stóð í Hörpunni og var að kynna tónleika fyrir fullu húsi þegar það rann upp fyrir mér að þetta væri búið“
Í kjölfarið reyndi hann að draga sig meðvitað úr sviðsljósinu og hætti til að mynda að veita viðtöl. Hann þurfti að breyta um umhverfi. Hætta að vera íþróttamaðurinn Logi Geirsson. En það reyndist hægara sagt en gert.
„Ég var á þessum tíma auðvitað mjög vinsæll sem íþróttamaður. Ég og Hemmi Gunn vorum fyrstir til þess að sprengja Facebook-skalann á Íslandi – að fá 5.000 vini. Eftir Ólympíuleikana var rosaleg bylgja með öllu sem ég gerði. Allt sem ég gerði virkaði,“ segir Logi og vísar þar meðal annars til gelframleiðslu hans og Björgvins Páls Gústavssonar, markvarðar landsliðsins. En skömmu eftir Ólympíuleikana hófu þeir framleiðslu á hárgelinu Silver, sem dró nafn sitt að sjálfsögðu af Ólympíusilfrinu. „Á þessum tíma gerði ég bókstaflega allt. Það var gel, það var bók, það voru sjónvarpsþættir, það var þjálfun, svo varð ég umboðsmaður. Ég reyndi að opna allar dyr. Ég var að reyna að finna mig upp á nýtt. Það var hrikalega erfitt. Ég hugsa oft til strákanna sem eru að hætta og þurfa að fara að fóta sig í lífinu. Þetta er löng brú að fara yfir. Maður hugsar nefnilega ekkert fram í tímann sem íþróttamaður. Maður sér bara næstu Ólympíuleika eða næsta Evrópumót. Þetta er allt öðruvísi en daglegt líf. Það hefur breyst mikið hjá mér.“
Logi stendur skyndilega upp og segist ætla að lækka í útvarpinu. Blaðamaður hafði reyndar ekki tekið eftir því að það væri í gangi. En ef lagt er við hlustir heyrist ómur af því einhvers staðar innan úr húsinu. „Ég er í alvöru með svo mikið ADHD að ég heyri allt,“ segir hann hlæjandi og sest aftur niður.
„Ég fór úr því að vera „high profile“ í að vera „low profile“. Ég var bókstaflega alls staðar. Það kom ekki út Séð og heyrt-blað án þess að ég væri á forsíðunni. Ég var keyrandi um á mótorhjóli með stelpur í gæsun, var að auglýsa skartgripi, var skemmtanastjóri í veislum, hélt fyrirlestra úti um allt land undir yfirskriftinni: Það fæðist enginn atvinnumaður. Ég er reyndar mjög stoltur af því og það var gaman. En annars var það fullt starf að gera greiða hér og þar, mæta hingað og þangað. Ég hafði varla tíma til að vinna,“ segir Logi sem virðist, miðað við frásögnina, á einhvern hátt orðið fórnarlamb aðstæðna. Fórnarlamb frægðarljómans sem hann kunni svo vel að meta í fyrstu. Svo varð athyglin of mikil.
„Ég fékk bara ógeð á sjálfum mér. Það var ákveðin stund sem var kornið sem fyllti mælinn. Ég stóð í Hörpunni og var að kynna tónleika fyrir fullu húsi þegar það rann upp fyrir mér að þetta væri búið. Ég hugsaði með mér hvert ég væri kominn. Ég var kynnir á tónleikum, af hverju í ósköpunum?“ spyr Logi og baðar út höndum til að leggja áherslu á mál sitt. Þar sem hann stóð í Eldborgarsalnum áttaði hann sig á hve fáránleg sú staðreynd var. Ástandið var orðið svo súrrealískt að það var varla að haldinn væri viðburður án þess að Logi kæmi þar nálægt með einum eða öðrum hætti. „Ég var baksviðs með öllum tónlistarmönnunum eftir tónleikana, svo fór ég heim þar sem ég ákvað að segja stopp. Þetta var komið gott.“
Í kjölfarið tók hann nafnið sitt úr símaskránni og var hvergi með númerið sitt skráð. Hann hætti að svara fólki nema það væri að spyrja að einhverju sem skipti máli. Það fannst honum mjög frelsandi. Að fá að vera í friði.
„Minn ferill var fullkominn. Gjörsamlega fullkominn. Það heppnaðist allt“
Logi viðurkennir að að sjálfsögðu hafi hann notið þessara gífurlegu vinsælda, hann spilaði með og lét svo sannarlega ekki lítið fyrir sér fara. En öllu má ofgera.
Hann segist finna fyrir því um leið og hann gefur kost á sér, eins og núna í EM-stofunni, þá fer allt í gang aftur. Hann fékk til að mynda um 70 til 80 skilaboð á Facebook eftir fyrsta þáttinn. Þar voru boð um ýmislegt og beiðnir um að taka þátt í hinu og þessu.
„Ég var búinn að hugsa hvað það væri gott að vera svona „low profile“. Þetta er allt öðruvísi líf.“ Þegar blaðamaður spyr hvort honum finnist þá óþægilegt að athyglin beinist að honum aftur, brýst fram glott og hann svarar: „Ég er kannski ekkert að hata það.“
En þótt hann fíli athyglina langar hann ekki að fara aftur á þann stað að vera alltaf á milli tannanna á fólki. Enda sé hann orðinn fjölskyldumaður sem sé að sinna sínum verkefnum. Hann sinnir fjarþjálfun hjá fyrirtækinu sínu, Fjarform.is, og er að ljúka meistaranámi í forystu og stjórnun frá háskólanum á Bifröst.
Þá er Logi búinn að vera að skrifa snjallsímaforrit síðustu ár og fór meira að segja og hitti fjárfesta í Silicon Valley í Kaliforníu. „Ég ætlaði að sigra heiminn og það var mjög eftirminnilegt. Ég fór í höfuðstöðvar Google og hitti þar fjárfesta. Ég fór út um allt á mínum eigin verðleikum. Hafði engar tengingar, svipað og ég gerði í handboltanum.“ Um er að ræða smáforrit sem Logi segir að komi til með að bæta heilsu fólks í heiminum og hann hefur fulla trú á að ná langt með það. „Ég var bara með söluræðu: „Þetta er ofboðslega flott og þetta er að fara að virka, viltu kaupa þetta?“ Þetta var mjög eftirminnileg ferð sem þroskaði mig mjög mikið. Mig langar svo að færa mig yfir í þetta, að vera skapandi og búa til snjallsímaforrit. En BS-ritgerðin mín fjallaði einmitt um snjallsímaforrit.“ Logi segir allt enn í vinnslu í Kaliforníu. Það er því ekki útséð með að hann sigri heiminn. „Fólk mun sjá snjallsímaforrit frá mér á þessu ári. Ég er búinn að lofa þessu í tvö ár, en forritið kemur 100 prósent á þessu ári,“ segir hann og þar með er það skrásett.
„Að reyna að segja: Gott silfur er gulli betra, það er bara kjaftæði. Það er ekkert betra en gull.“
Það stendur ekki á svari hjá Loga þegar hann er spurður hvort hann sé sáttur með sinn feril í handboltanum. „Já, minn ferill var fullkominn. Gjörsamlega fullkominn. Það heppnaðist allt,“ segir hann dreyminn á svip og bros færist yfir andlitið. Hann er stoltur af sínu. Toppurinn var að sjálfsögðu að standa á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. „Þetta var rosalegt. Þvílíkt teymi sem við vorum. Alveg ótrúlegir karakterar.“ Hann segist þó vera svekktur yfir því að þeir hafi ekki tekið gullið. Hann er svekktur yfir því að liðið hafi aðeins sett sér markmið um verðlaunapening, en ekki hreinan og beinan sigur. Verðlaunapeningurinn var í höfn þegar úrslitaleikurinn var spilaður og því fór sem fór, að hans mati.
„Við mættum ekkert í leikinn. Þetta var ekki liðið sem var búið að vera að spila alla Ólympuleikana,“ segir Logi og skefur ekkert utan af því. Hann er jafnframt svekktur yfir því að hafa rifið sig úr að ofan eftir undanúrslitaleikinn því slíkt hafði hann bara fyrir venju þegar einhverju markmiði var náð. Hann fagnaði of snemma í Peking. „Að reyna að segja: Gott silfur er gulli betra, það er bara kjaftæði. Það er ekkert betra en gull.“
Logi viðurkennir að auðvitað hafi atvinnumennskan ekki alltaf verið dans á rósum. Það var ýmislegt sem kom upp á. Sumt alvarlegra en annað. En þegar litið er til baka nær ekkert af því að skyggja á raunverulegu gleðina sem fylgir frábærum árangri.
Í Þýskalandi var Logi plataður inn í fasteignaviðskipti í gegnum félaga sinn hjá liðinu. Hann fjárfesti í nokkrum íbúðum til útleigu og átti að stórgræða á viðskiptunum. Fljótlega kom hins vegar í ljós að ekki var allt með felldu. Hann og fjöldi annarra handknattleiksmanna, þar á meðal Íslendinga, höfðu verið sviknir. Logi tapaði miklum fjármunum í viðskiptunum og við tóku löng málaferli sem lauk ekki fyrr en nýlega. „Ég er búinn að ganga frá öllu mínu. Þetta er búið að vera fimm ára eyðimerkurganga en á heildina litið held ég að þetta hafi þroskað mig. Ég er sá maður sem ég er í dag út af þessu. Auðvitað hefði ég ekki viljað lenda í þessu á sínum tíma, en eftir á, þá var æðislegt að þetta gerðist. Ég sé lífið með allt öðrum augum. Ég hef ekki áhyggjur af því sem ég get ekki breytt. Eitthvað sem ég hafði áður. Ég var alltaf að hafa áhyggjur af einhverju sem skipti engu máli. Ég hugsa ekki einu sinni um þetta mál lengur.“
„Ég hef aldrei verið talinn eðlilegur“
Eins og Logi segir frá í bók sinni þá varð hann mjög seint kynþroska og það háði honum þó nokkuð. Hann hætti meira að segja að æfa handbolta um tíma og vissi ekki alveg í hvorn fótinn hann átti að stíga. En loksins þegar kynþroskinn fór að láta á sér kræla fóru hlutirnir að gerast. Hann vissi allt í einu nákvæmlega hvað hann vildi og ætlaði sér að ná markmiðum sínum. Hann vildi komast til þýska liðsins Lemgo, sem var eitt það sterkasta í Evrópu. Og þangað fór hann.
„Það er vinnusemin sem skiptir máli. Allir þessir strákar þarna úti sem eru að stefna á að verða atvinnumenn í fótbolta, þeir geta það. Sama hvort þeir koma úr brotnum fjölskyldum eða eiga ekki pening fyrir skóm. Ef maður vill eitthvað nógu mikið, þá getur maður það. Það er alveg ótrúlegt. Ég er lifandi dæmi um það. Ég fór gjörsamlega alla leið,“ segir hann sjálfsöruggur.
„Það var aldrei stefnan hjá mér að verða bestur í heimi, en ég vildi vinna allt. Það snerist allt um að vinna. Sama hvort mitt hlutverk í leiknum væri 60 mínútur eða 30. Ég vildi bara verðlaun. Ég hélt virkilega að við yrðum heimsmeistarar, að við yrðum Evrópumeistarar og Ólympíumeistarar. Ég held að ég hafi öðruvísi hugsunarhátt en margir aðrir. Ég hugsa aldrei til þess að andstæðingurinn sé með sterkt lið,“ útskýrir Logi.
„Ég er með ofsalega gott sjálfstraust og tala mig mikið upp. Konan mín hlær ennþá af því á morgnana þegar ég tala við sjálfan mig í speglinum. Ég geri þetta líka alltaf áður en ég fer í viðtöl í sjónvarpinu. Eins og fyrir EM-stofuna, þá fór ég inn á klósett og sagði: „Logi, þú ert frábær. Þú ert alveg með þetta.“ Við getum talað svona við sjálfið okkar og þetta virkar. Þetta veitir mér vellíðan.“
Eftir sex ár hjá Lemgo sneri Logi aftur heim. Þá var öxlin orðin mjög slæm og hann hafði lítið sem ekkert spilað mánuðum saman.
„Ég kom heim og vann Íslandsmeistaratitilinn með FH. Ég var búinn að segja það í viðtali nokkrum árum áður að ég ætlaði að enda ferilinn á því. Það var fullkomið. Ég lokaði þessu og sagðist vera hættur. Þetta var bara eins og í ævintýri.“ Lokamarkmiðið var í höfn og það mátti ekki seinna vera. Meiðslin voru farin að hrjá hann andlega, hann gat ekki sofið og tók mikið af verkjalyfjum til að halda sér gangandi. Verkurinn í öxlinni var stöðugur.
„Út af fasteignabraskinu þá hef ég þurft að vinna mig upp aftur, alveg frá núlli. Eiginlega úr mínus. Það fór allt“
Líkt og áður sagði er Logi þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir. Hann gerir það ekki meðvitað, heldur er það bara hans persónuleiki. „Ég hef aldrei verið talinn eðlilegur. Ég er öðruvísi. Ég geri hlutina án þess að spá í hvað fólki finnst. Eins og að mæta með gullbindi í sjónvarpið. Það setti Ísland á hliðina. Ég er búinn að fá að heyra að þetta verði fyrsta atriðið í næsta Skaupi. Svo fékk ég boð um að leika í kvikmynd með Ingvari E. Sigurðssyni,“ segir Logi hlæjandi. Hann hafnaði þó boðinu. Segist ekki hafa tíma fyrir slíkt. En allir ásælast bindið. Vilja fá að prófa eða fá það lánað í einhverjum sniðugum tilgangi.
En hvernig datt Loga í hug að kaupa sér 300 þúsund króna gullbindi? „Ég sá þetta á einhverri síðu og náði því ekki úr hausnum á mér. Hugsaði mikið um hvað þetta væri kúl. Þetta er algjörlega einstakt bindi. Það myndi líklega engum detta í hug að kaupa það, nema mér. Ég keypti það svo í einhverju hvatvísiskasti eftir miðnætti.“ Logi fór svo sjálfur út og sótti bindið en þegar heim var komið þurfti hann að sjálfsögðu að borga af því hin ýmsu gjöld og tolla, sem hann hafði ekki alveg gert ráð fyrir. „Ég hugsaði ekki alveg svo langt en mér fannst þetta sleppa, svo erfir litli guttinn þetta,“ segir hann kíminn og vísar þar til fimm ára sonar síns sem finnst pabbi sinn mjög svalur.
En þrátt fyrir að hafa leyft sér kaup á 300 þúsund króna bindi segist Logi alls ekki vera ríkur. „Ég myndi segja að á árunum 2008 og 2009 hafi ég getað sagst eiga pening. En út af fasteignabraskinu þá hef ég þurft að vinna mig upp aftur, alveg frá núlli. Eiginlega úr mínus. Það fór allt.“ Hann viðurkennir að það sé ansi súrt að sitja eftir slyppur og snauður eftir svo mikla velgengni í atvinnumennskunni. „Ég var búinn að sjá fyrir mér að ég kæmi heim með hundruð milljóna á reikningnum. Að ég ætti nokkrar íbúðir úti í Þýskalandi og væri vel stæður eftir tíu ár í viðbót í atvinnumennskunni. Sem ég sá fyrir mér að spila. En svo var þessu öllu kippt undan mér. Allt gerðist á sama tíma. Ég meiðist og íbúðavesenið byrjar.“
En fátt er svo með öllu illt að það boði ekki eitthvað gott. Þegar allt virtist vera að hrynja kom óvæntur gleðivaldur inn í líf hans. Ástin bankaði á dyrnar. Hann kynntist konunni sinni sem reyndist honum stoð og stytta í erfiðleikunum sem fram undan voru. „Við fundum hvort annað og stuttu síðar ákváðum við að ráðast í barneignir og búa til fjölskyldu. Hún er búin að standa með mér í gegnum allt saman. Þegar hún kom með mér út til Þýskalands fór ég beint í aðgerð. Ég var í raun ekki handboltamaður eftir að við kynntumst,“ segir Logi hlæjandi. „Við erum ofboðslega ólík. Eins svart og hvítt og það getur orðið. En þvílíkt jafnvægi sem það gerir. Hún er eins mikið á jörðinni og hægt er á meðan það þarf að rífa mig niður úr skýjunum.“
„Ég var búinn að sjá fyrir mér að ég kæmi heim með hundruð milljóna á reikningnum“
Logi er mikill fjölskyldumaður og hefur alltaf verið í góðu sambandi við fjölskyldu sína. Faðir hans, Geir Hallsteinsson, var fyrsti atvinnumaðurinn í handbolta á Íslandi og bæði þjálfaði soninn og hvatti til dáða. Foreldrar hans voru hans helstu klappstýrur á atvinnumannsferlinum og komu oft út til Þýskalands að heimsækja drenginn sinn. Mamma hans var sérstaklega dugleg að passa upp á hann og gefa honum heilræði. „Hún sagði mér alltaf að vera bara ég sjálfur. Og ekki láta neinn segja mér að ég gæti ekki eitthvað. Hún á örugglega stóran þátt í þessu mikla sjálfstrausti sem ég hef tileinkað mér og búið til með tímanum. Það fæðist nefnilega enginn með sjálfstraust. Það er eitthvað sem maður byggir upp, eins og viljastyrkinn. Mamma átti risastóran þátt í því að móta mig sem einstakling.“ Logi talar af mikilli hlýju um móður sína, sem var frábær listakona og teiknaði og málaði nokkrar myndanna sem prýða veggi heimilisins. Í orðum Loga má einnig greina söknuð, þrátt fyrir að móðir hans sé enn á lífi. Hún glímir hins vegar við alvarleg veikindi og er í dag aðeins skugginn af sjálfri sér.
„Ofan á allt saman, þegar ljóst var að ferillinn væri búinn, og ég kominn heim, þá veiktist mamma. Fyrst fékk hún krabbamein og svo fékk hún sjaldgæfan heilasjúkdóm sem gerir það að verkum að hún lamast öll smám saman. Það eru mjög fáir með þennan sjúkdóm. Þetta er hrörnunarsjúkdómur – eiginlega systursjúkdómur Alzheimers. Hún er komin í hjólastól, getur ekki talað eða tjáð sig með neinum hætti. Hún er bara þarna í stól og getur ekkert gert. Það er ótrúlega erfitt að horfa upp á það. Maður veit ekki alveg hvernig maður á að vera í svona aðstæðum. Þetta er svo skrýtið. Ég veit ekki einu sinni hvort hún skilur mig,“ segir Logi einlægur.
„Það breytir manni að lenda í svona áföllum á lífsleiðinni. En maður getur svolítið valið hvort það eigi að breyta manni til hins betra eða hvort maður sökkvi sér í neikvæðni.“
Faðir Loga er hins vegar stálhress og sinnir konunni sinni af mikilli alúð. „Þú ættir að sjá hann með mömmu. Þvílíkt hjartalag. Hann setur hana ekki einu sinni á hjúkrunarheimili. Kallinn er sjötugur. Hann er búinn að breyta öllu húsinu, stækka hurðirnar og flytja inn sjúkrarúm. Hann dröslar henni út um allt, gefur henni að borða og það er engin eftirgjöf. Það eru allir búnir að segja við hann að þetta sé algjör vitleysa, en hann er alveg staðfastur með það að hafa hana heima.“
„Hún er bara þarna í stól og getur ekkert gert. Það er ótrúlega erfitt að horfa upp á það“
Þrátt fyrir að Logi hafi kúplað sig út úr handboltanum hefur hann ennþá sínar skoðanir, eins og sést hefur í EM-stofunni. Það er því ekki úr vegi að lokum að spyrja aðeins út í slakt gengi íslenska liðsins á mótinu og hvað hann telji að gerist núna innan HSÍ. „Það hefur verið ofboðslega lítil endurnýjun í þessu landsliði og Aroni Kristjánssyni bara mistókst sem þjálfara. Ég held að það þurfi einhvern nagla í þetta núna. Einhvern sem borin er mikil virðing fyrir. Besti kosturinn væri auðvitað gaur eins og Dagur Sigurðsson, en það er fullt af körlum sem geta komið og tekið við þessu. Ég hef meiri áhyggjur af því sem er fram undan, við erum svo langt á eftir í yngingu liðsins. Við fórum með besta liðið sem við gátum teflt fram á EM og þetta var lélegt. Punktur. Þegar menn bregðast svona þá verða þeir að stíga til hliðar, eins og Aron gerði. Ég myndi ekki einu sinni treysta mér í að tengjast þessu landsliði í dag. En ég held að þessi lélegi árangur á þessu móti sé það besta sem gat komið fyrir okkur. Nú verður allt stokkað upp. Það fer allt í naflaskoðun. Það er löngu kominn tími á það.“