Langar að finna bjargvættinn
„Ég mun taka þig til fyrirmyndar og ég vona að við allar gerum það,“ ritar Christel Líf Ottósdóttir í bréfi til konu sem kom ömmu hennar óvænt til hjálpar á dögunum og það algjörlega óumbeðin. Christel segist nánast hafa farið að gráta af þakklæti þegar hún heyrði af góðverkinu og vill nú gjarnan freista þess að hafa upp á konunni.
Christel birti fyrirspurn inni á facebook hópnum Góða systir á dögunum sem hún veitti DV.is leyfi til að birta. Fyrirspurn hennar er á þessa leið:
„Mig langar að koma á framfæri þakklæti til konunnar sem aðstoðaði ömmu mína í dag. Ég veit ekki hvað hún heitir en ég er að vona að hún sé partur af þessum hóp. Amma mín býr í Grafarholti og í dag labbaði hún niður holtið og fór í búðina og síðan í apítekið það rétt hjá. Hún ætlaði sér síðan að taka strætó til baka og sleppa því við að labba upp brekkurnar í vindi og hálku.“
„Þegar hún kemur að strætó skýlinu sér hún að strætóinn kemur bara á klukkutíma fresti og sé eiginlega ný farinn þannig hún ákveður að labba bara af stað heim,“ heldur Christel áfram en bætir síðan við að skyndilega hafi henni borist hjálp úr óvæntri átt.
„Eftir smá tíma heyrir hún einhvern kalla og sér þá konuna sem var í apótekinu í röðinni á eftir henni, hún hafði stoppað bílinn sinn og labbaði til ömmu. Þessi yndislega kona sem hafði aðeins séð hana elsku ömmu mína einu sinni í apótekinu bauðst til þess að keyra hana heim og amma þáði það með miklum þökkum,“ ritar hún og hún kveðst vitanlega vera djúpt snortin yfir góðmennsku hinnar bláókunnugu konu.
„Elsku yndislega systir sem hjálpaðir ömmu í dag: þakka þér kærlega fyrir. Þú eflaust hefur séð hversu grönn og völt hún var en það að þú stoppaðir og hjálpaðir henni fékk mig næstum til að gráta af þakklæti þar sem ég var ekki fær að keyra hana í dag útaf biluðum bíl hjá mér.“
„Ég mun taka þig til fyrirmyndar og ég vona að við allar gerum það. Enn og aftur hjartans þakkir til þín.“