Hefur fundið fyrir fordómum vegna titilsins
„Málið er að ef það er markaður fyrir svona, stúlkur sem vilja taka þátt, styrktaraðilar sem vilja koma að þessu og fólk sem hefur áhuga á að horfa á þetta, þá skilur maður alveg að til séu aðilar sem vilji halda keppnina,“ segir Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi Ungfrú Ísland og Ungfrú Alheimur en hún segist hafa vonast til að keppnin um Ungfrú Ísland legðist af þegar hún féll niður árið 2014. Hún viðurkennir að hún líti svo á að fegurðarsamkeppnir séu barn síns tíma og að sjálf hún þurft að finna fyrir fordómum sem fylgja titlinum.
Rúm tíu ár eru liðin frá því Unnur Birna var krýnd Ungfrú heimur og sinnti hún störfum sem handhafi titilsins í rúmt ár. Í samtali við Fréttablaðið segir hún að Ungfrú Heimur snúist ekki um að finna fallegustu stúlkuna í hópnum. „Málið er að eins og í keppninni úti, þá snýst þetta alls ekki um að finna stelpuna sem er fallegust af þessum hundrað og tuttugu sem eru á sviðinu. Þar er bara verið að hugsa um stúlku sem þeir vita að þeir þurfa að vinna með í eitt ár. Hún þarf að hafa vit í kollinum og geta tekist á við það sem þurfti að gera til að rúlla þessu fyrirtæki næsta árið,“ segir Unnur. „Maður þarf að vera tilbúinn í ákveðið samstarf og vera sveigjanlegur, og jú, vissulega passa í einhver form, og þannig er búin til ákveðin ímynd um þessa drottningu. Á hana er sett kóróna, hún klædd í fínan kjól og þannig á þetta að ganga allt upp.“
Hún segir jafnframt að nafnið hennar hafi verið viðloðandi keppnina síðan hún tók þátt. „Það er alltaf verið að minna fólk á mig þegar fjallað er um keppnina, mér finnst óþarfi að það sé alltaf verið að draga mig inn í þetta. Þetta er reyndar nákvæmlega það sem Linda Pé sagði við okkur mömmu þegar ég vann: „Nú geta þeir hætt að tala um mig og fara að tala um þig.“
Hún segist þó gera sér grein fyrir að enn sé markaður fyrir keppninni Ungfrú Ísland. „Ég græði svo sem ekkert á að tala fegurðarsamkeppnir niður og það mun ég ekki gera þó ég telji þær barn síns tíma,“ segir hún. „Eins og Bjössi og Dísa hugsa þetta núna, þá er það mjög eðlilegt. Þó ég sé komin yfir þetta, þá þýðir það ekki að aðrir séu á sama máli.“
Þá viðurkennir hún að hafa fundið fyrir fordómum sem tengjast fegurðardrottningartitlinum og það hafi haft áhrif á hana. „Að maður sé bara fegurðardrottning og að ekki geti maður verið með mikið vit í kollinum, verandi í þessu hlutverki. En það var einmitt það sem þetta var, hlutverk sem ég bara lék,“ segir Unnur og bætir við að oft hafi hún komið fólki á óvart með þeim málefnum sem hún talaði um. „En fólk fer út í hin ýmsu hlutverk og störf af mismunandi ástæðum, það er ekki hægt að setja fólk alltaf í sama flokk hvað það varðar. Ég sakna þess ekki að hafa þetta hangandi yfir mér en þrátt fyrir það hefði ég aldrei viljað fara á mis við þá lífsreynslu sem fylgdi því að vinna þessa keppni.“