Ríka og fræga fólkið glímir líka við ýmsa kvilla – Ekki er allt sem sýnist á rauða dreglinum
Fræga og ríka fólkið í Hollywood virðist yfirleitt vera gallalaust þegar við venjulega fólkið sjáum því bregða fyrir á rauða dreglinum. En það er kannski ekki endilega raunin þegar betur er að gáð. Sumar af stærstu stjörnunum hafa skrýtna líkamlega galla – ef galla má kalla – sem kunna að koma spánskt fyrir sjónir. Það kemur nefnilega sumum kannski á óvart að Hollywood-stjörnurnar eru bara venjulegt fólk eins og við. Og það eru ekki allir sem leggjast undir hnífinn til að láta lagfæra sig þótt eitthvað sé ekki alveg eins og það ætti að vera. Sumir gera jafnvel bara grín að skrýtnu líkamspörtunum.
Angelina Jolie þykir ein kynþokkafyllsta kona heims og margir eru sammála um að útlit hennar þyki nánast óaðfinnanlegt. En enginn er fullkominn, svo mikið er víst. Jolie er til dæmis með mjög útstæð hné, eða hnéskeljar. Kvillinn sést enn betur en ella vegna þess hve grönn hún er. Þrátt fyrir útstæðu hnén er Jolie þó alveg ófeimin við að ganga um berleggjuð í stuttum kjólum, enda engin ástæða til annars.
Harry Styles, fyrrverandi meðlimur hljómsveitarinnar One Direction, er ekki með tvær geirvörtur eins og flestir, heldur fjórar. „Ég hlýt upphaflega að hafa verið tvíburi. Hinn tvíburinn hefur svo horfið og skilið geirvörturnar eftir,“ sagði hann í gríni í viðtali eitt sinn. Hann segist alls ekki skammast sín fyrir aukageirvörturnar, heldur þvert á móti.
Leikarinn Vince Vaughn missti framan af öðrum þumalfingrinum í bílslysi þegar hann var sautján ára. Hann lætur það þó ekki trufla sig og gerir oft grín að fingrinum með því að kalla hann „getnaðarlim með nögl“ enda líkist fingurinn einum slíkum eftir slysið.
Gerard Butler hafði sjálfur ekki áttað sig á því að eyrun á honum væru mjög mismunandi fyrr en hann lék í kvikmyndinni Tomb Raider. Þá þurfti hann að raka af sér allt hárið og eyrun komu betur í ljós. „Þá fóru allir að tala um hvað annað eyrað á mér stæði miklu meira út en hitt,“ sagði hann eitt sinn í viðtali. Sem barn þurfti Butler að gangast undir aðgerð á eyra til að bjarga heyrn hans eftir viðvarandi suð. Hvort það breytti formi eyrans er hins vegar ekki vitað.
Matthew Perry, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Chandler í Friends, missti stóran hluta framan af löngutöng hægri handar þegar fingurinn varð á milli stafs og hurðar. Þetta er eitthvað sem fólk tekur þó líklega ekki eftir nema því verði starsýnt á hendurnar á leikaranum.
Leikkonan Kate Bosworth er með það sem kallast heterochromia iridis sem er kvilli sem veldur því að lithimnurnar eru hvor í sínum lit. Í hennar tilfelli er annað augað brúnt og hitt blátt. Bosworth notast þó yfirleitt við litaður linsur þegar hún er að leika svo þetta er ekki mjög áberandi.
Naflinn á Victoria Secret-fyrirsætunni Karolínu Kurková virðist oft mjög óskýr á myndum en raunin er sú að hann er ekki til staðar. Lýtalæknirinn Matthew Schulman hefur tjáð sig um naflaleysi fyrirsætunnar og telur að hún hafi þjáðst af kviðsliti sem barn. Það hafi annaðhvort verið lagað, og þá ekki gert nógu vel, eða ekki lagað, og hafi orðið til þess að naflasvæðið er eins og það er í dag.
Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey virðist vera með sex tær á öðrum fæti, en aukatáin er við hliðina á litlu tánni. Fótaaðgerðafræðingur, sem skoðað hefur tærnar á Winfrey, segir hins vegar að um sé að ræða einhvern kvilla sem valdi þessu, eins og útskeifu eða flatan fót, sem gerir það að verkum að beinið gengur til með þessum hætti. Og lítur út fyrir að vera sjötta táin.
Hin kynþokkafulla Megan Fox er með stuttan og breiðan þumal. Það er ákveðinn kvilli sem veldur því að fingurbeinin eru styttri og fingurinn verður því svolítið kubbslegur. Nöglin er einnig styttri og breiðari
Söngkonan Lily Allen er með aukageirvörtu og er alls ekki feimin við að flagga henni. Allen hefur sjálf lýst því yfir í viðtali að geirvartan harðni þegar hún er snert, líkt og hinar tvær geirvörturnar.
Steven Tyler, forsprakki hljómsveitarinnar Aerosmith, þjáist af frekar kvalafullum líkamlegum kvilla sem gengur undir nafninu Morton‘s neuroma. Tærnar á honum eru afmyndaðar og snúnar eftir langa sögu af kraftmikilli sviðsframkomu í alltof þröngum skóm.