Var strítt fyrir að eiga stelpu sem vin í grunnskóla – „Tökum þessi eineltismál föstum tökum og fræðum börnin okkar“
„Ef ég hugsa til þessa máls í dag þá velti ég oft fyrir hvað ég hefði getað gert og hvort ég hefði getað gert eitthvað í þessu,“ segir Heimir Örn Hólmarsson en í einlægri færslu á Facebook rifjar hann upp atvik úr grunnskóla sem hann segir að hafi æ síðan fengið hann til að velta vöngum yfir einelti og þeim úrræðum sem standa til boða.
Heimir birti frásögn sína í facebook hópnum Búum til betri heim en hann stendur sjálfur á bak við hópinn ásamt eiginkonu sinni, Karólínu Pétursdóttur. Að sögn þeirra er tilgangur hópsins að efla samfélagsvitund og koma upp á yfirborðið því sem gott er í samfélaginu og einnig því sem betur mætti fara.
„Þegar ég var lítill strákur, 5 ára að verða 6 ára, nýfluttur í nýtt hverfi í Reykjavík átti ég enga vini í hverfinu. Einn daginn kallar mamma á mig og segir að það séu tvær stelpur að leika sér á gangstéttinni fyrir framan húsið okkar. Við horfðum á þær leika sér í dágóða stund og mamma hvatti mig til að fara út að leika við þær. Ég man ennþá eftir hræðslunni sem greip um mig. Ég þorði ekki út að tala við þær,“ ritar Heimir og bætir við að loksins hafi móðir hans sannfært hann um að fara út og tala við stelpurnar.
„Ég fór út og gekk til þeirra og stóð álengdar og þorði ekki að tala við þær. Eftir smá stund buðu þær mér að vera með í snú-snú. Ég þáði boðið og upp úr því vannst góður vinskapur með mér og annarri stelpunni sem var jafnaldri minn. Hin stelpan reyndist vera eldri systir hennar.“
Úr varð að Heimir og vinkona hans gengu í sama skóla. „Við vorum í sitthvorum bekknum en lékum okkur oft saman í frímínútum og utan skólans. Það var svo einn daginn, þegar við vorum í 2. bekk að mig minnir að hún kom til mín og sagðist ekki geta lengur haldið uppi þessum vinskap vegna þess að okkur var strítt svo mikið á að vera vinir. Ég hafði sjálfur orðið fyrir stríðni á að hafa þennan stelpuvin en í einfeldni minni hafði ég ekki áttað mig á því að þessi stríðni hafði veruleg áhrif á hana en á sama tíma lét ég þessa stríðni ekki á mig fá. Ég sagði henni bara að hundsa þessa stríðni og sagði henni að hlusta ekki á þetta,“ segir Heimir jafnframt en segir að því miður hafi honum ekki tekist að telja vinkonu sinni hughvarf og því slitnaði upp úr vinskapnum.
Hann segist hafa hugsað til þessa dags æ síðan. „Þetta var vinskapur sem ég hef ávallt hugsað til. Það sem hófst eftir þennan dag var atburðarás sem ég missti tökin á og stóð hjá að mörgu leyti. Þessi vinkona mín lenti í einelti (veit reyndar ekkert hvernig hún upplifði það en ég veit með vissu í dag að þetta var einelti.) Þegar ég heyrði eitthvað sagt um hana svo hún heyrði ekki til reyndi ég oft að leiðrétta það sem krakkarnir voru að segja. Það var reyndar oft erfitt að gera það því þá fékk ég bara skítinn yfir mig og ekki vildi ég sjálfur lenda í einelti. Það voru reyndar margar tilraunir gerðar til að leggja mann í einelti en ég var einhvern veginn þannig gerður að krökkunum reyndist það erfitt.“
Hann segist oft velta fyrir sér hvað hann hefði getað gert í þessum aðstæðum, og hvort hann hefði átt að gera eitthvað.
„Ég held í fullri hreinskilni við sjálfan mig og aðra að ég hafi gert eins mikið og ég gat á þeim tíma. Það sem vantaði til að ég hefði getað náð betri árangri í að hjálpa fyrrverandi vinkonu minni var eitthvert stuðningsnet sem ég hefði getað leitað til. Það voru tveir starfsmenn í skólanum sem ég treysti og það voru gangavörður og íþróttakennari en ég leitaði reyndar ekki til þeirra með þetta mál enda er ég ekki viss hvort þeir hefðu getað leyst það.“
Hann segir mikilvægt að foreldrar ræði um þessi mál við börn sín og brýni fyrir þeim að láta fullorðna fólkið vita ef þau verða vitni að einelti. „En þá kemur upp annar vandi. Ég er sjálfur foreldri barns í grunnskóla og ef barnið mitt kemur og segir mér frá svona máli veit ég ekki hvern ég á að tala við. Það er ekkert kerfi sem tekur á þessu svo ég viti til. Ég hef til dæmis ekki fundið neitt form sem ég get fyllt út á vegum skóla barnsins mín (kannski er það bara vel falið). Eftir að hafa leitað á efni á netinu fann ég reyndar tilkynningarhnapp á vef fagráðs vegna eineltismála í grunnskólum. Ég hef persónulega ekkert heyrt af þessari nefnd fyrr og hver árangur hennar er af þessum málum en ég vona innilega og treysti því að þau standi sig vel.“
„Tökum þessi eineltismál föstum tökum og fræðum börnin okkar. Það að standa og horfa á er í raun ekkert skárra en að vera gerandinn. Það geta því allir orðið gerendur og fórnarlömb í eineltismálum að mínu mati. Með fræðslu og samstöðu getum við gert samfélagið okkar betra,“ riat Heimir Örn að lokum.