„Það hefur ekki verið sýnt fram á að eingöngu markþjálfun eða sálfræðimeðferð gefi marktækan árangur“
„Lyfin eru fyrsta og aðal meðferðin við ADHD. Áhrifastærð lyfjameðferðar er alveg óumdeilanlega mjög há bæði fyrir börn og fullorðna. Það þýðir að mjög stórt hlutfall þeirra sem taka lyfin fá af þeim hjálp við sínum kvilla. Það hefur ekki verið sýnt fram á það enn sem komið er að eingöngu sálfræðimeðferð eða markþjálfun ein og sér gefi marktækan árangur,“ segir Þórgunnur Ársælsdóttir, formaður Geðlæknafélags Íslands og svarar þannig ummælum heilbrigðisráðherra sem vill draga úr notkun ADHD lyfja og notast í auknum mæli við sálfræðimeðferð. Þetta kom fram í frétt RÚV á dögunum en þar kom einnig fram að þrefalt fleiri nota ADHD-lyf hér á landi en í nágrannalöndunum og þámisnotkun á þeim er einnig tíðari.
Þórgunnur var gestur í Speglinum á Rás 2 ásamt Þresti Emilsson, framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna. Þar bendir Þröstur á að ef notast eigi við úrræði á borð við hugræna atferlismeðferð þá skapi það óneitanlega álag á þá sálfræðinga sem fyrir eru þar sem að HAM meðferð gæti krafist þess að einstaklingur þurfti að leita til sálfræðings vikulega. „Sálfræðimeðferðin tekur á einkennum en hún breytir ekki þeirri starfsemi og þeirri röskun sem er í heilanum. Þá er gripið til lyfjanna,“ segir hann.
Þórgunnur bendir á að ADHD lyd séu ekki eini lyfjaflokkurinn sem hægt er að misnota. „Þegar við sjáum tölur um það að aukning er á notkun lyfja þá er mikilvægt að átta sig á því að það er ekki sjálfkrafa neikvætt eða endilega dýrara fyrir þjóðfélagið þegar uppi er staðið. Það eru margir fylgikvillar hjá fólki sem er með ómeðhöndlað ADHD.“
„Það er aukin tíðni á umferðarslysum, það nær síður að mennta sig og halda starfi og það er fleira og fleira sem að veldur því að það er bæði fyrir einstaklinginn persónulega og fyrir þjóðfélagið í heild er hagkvæmt að greina og meðhöndla fullorðna,“ segir hún jafnframt og bætir við að hún telji þörfin fyrir lyfin muni síst af öllu fara minnkandi heldur þvert á móti. „Það er búið að sýna fram á með óyggjandi hætti að þau virki. Svona umræða kemur alltaf upp reglulega. Það er alltaf hægt að leika sér með tölur eða benda á að einhver rannsókn sé ekki fullkomin.“
Þórgunnur bendir janframt á að meirihluti þeirra sem kemur og greinist með ADHD hjá ADHD teymi Lamdspítalans búi við verulega skert lífsgæði vegna röskunarinnar. „Það er mjög hamlað af sínum vanda og meirihluti er einnig með fylgikvilla eins og þunglyndi og kvíða. Þannig að þetta er hópur sem á í miklum erfiðleikum og þarfnast aðstoðar.“