Ósátt við ummæli yfirlæknis og prófessors á Barnaspítala Hringsins
„Þetta er ástæða þess að við þurfum að tryggja intersex fólki og trans fólki mannsæmandi mannréttindi,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir transkona en hún er ósátt við ummæli Ragnars G. Bjarnasonar, yfirlæknis og prófessors á Barnaspítala Hringsins sem segir intersex fólk vera með fæðingargalla. Telur hún augljóst að ummæli Ragnars endurspegla þöggun og afneitun heilbrigðiskerfisins.
Intersex, sem stundum hefur verið kallað „millikyn“, er meðfætt ástand líffræðilegs kyns og eru intersex einstaklingar líkamlega einhversstaðar á kynskalanum milli tveggja póla; karlkyns og kvenkyns. Talið er að um 1,7% fólks getið fallið undir hópskilgreininguna intersex eins og fram kemur í grein Áttavitans
Ugla skrifar opna færslu á facebook um málið en tilefnið er frétt RÚV þar sem birt er viðtal við Ragnar sem heldur fyrirlestur um málefnið á Læknadögum í Hörpu. Í frétt RÚV segir Ragnar meðal annars að „umræðan um transgender undanfarið hafi verið ruglingsleg. Talað hafi verið um meðfædda galla á kynfærum eins og um trangsgender væri að ræða. Svo sé ekki. Sum börn fæðist með meðfædda galla á kynfærum.“
Í færslu sinni segir Ugla Stefanía að sér blöskri að heilbrigðisstarfsmaður skuli koma fram og tala um að „skipta um kyn“, „fæðast í röngum líkama“ og kalla intersex fólk intersex, heldur tali hann um fólk með fæðingargalla.:
„Í fyrsta lagi, Ragnar Bjarnason og kæra facebook, þá er ég bilað reið. Það er vissulega rétt hjá þér að það er mikill munur á þeim aðgerðum sem að trans fólk þarf lífsnauðsynlega á að halda og þeim aðgerðum sem eru framkvæmdar á intersex börnum,“ segir Ugla. Þá grunar hana að Ragnar notist við þessi ummæli til að að komast hjá því að ræða um þau mannréttindabrot sem aðgerðir á kynfærum barna eru:
„Munurinn er sá að þær aðgerðir sem þið framkvæmið á intersex börnum (sem eru ekki í lífshættu) eru mannréttindabrot. Afleiðingar þeirra og þöggun og afneitun heilbrigðiskerfis á reynsluheim intersex fólks er með ólíkindum. Það að þið kallið ykkur sérfræðinga og réttlætið mannréttindabrot ykkar með úreltum og læknisfræðilegum rökum er ekki viðunandi.“
Hún segir að þessi umræða sé ástæða þess að byltingar sé þörf þegar kemur að málefnum intersex fólks. „Vegna fólks eins og Ragnars Bjarnasonar sem réttlæta og skilja ekki málaflokk sem þau teljast „sérfræðingar“ í. Ég get þetta ekki lengur. Þetta er það sem mér liggur á hjarta.“