Framdi óvart dyraat
„Það sem vakti athygli mína var það að þau gerðu bara ráð fyrir að ég væri að bjóða mér í heimsókn. Þetta er okkur til eftirbreytni að mörgu leyti “ segir Sigrún Jónsdóttir í samtali við DV.is en hún átti óvænta en ánægjulega stund í gærkvöldi ásamt fjölskyldu frá Sýrlandi en þau voru hluti af hópi flóttamanna sem kom til landsins á dögunum. Heimsóknin kom þó til á nokkuð óvenjulegan hátt.
Sigrún segir frá þessu skemmtilega atviki í færslu á fésbókarsíðu sinni: „Þá er ég búin að leggja mitt af mörkum við það hrekkja ný innflutta Sýrlendinga. Ég fór fram á gang í gær og ætlaði að kveikja ljósið þar en var ekki klárari en svo að ég dinglaði hjá ný innfuttri fjölskyldu.“
„Augnabliki síðar opnaðist hurðin og á móti mér stóð skælbrosandi maður, bak við hann brosandi kona og börn og auðvitað átti að bjóða mér inn,“ ritar Sigrún og bætir við að tungumálaörðugleikar hafi svo sannarlega ekki sett strik í reikninginn.
„Þar sem að við tölum ekki sama tungumálið varð þetta að svona ,,tákn með tali“ augnabliki. Það sem mér fannst í raun merkilegast var að þau gerðu einfaldlega ráð fyrir að ég, nágranni þeirra, væri að bjóða mér í heimsókn,“ segir Sigrún jafnframt en hún býst nú við að næsta skref sé að baka köku fyrir nýju nágrannanna til að bæta upp fyrir „dyraatið.“
Í samtali við DV.is segir Sigrún að hún sé enn að brosa yfir þessu skemmtilega atviki, sem hún vonar að vekji fólk til umhugsunar enda séu því miður fordómar til staðar í þjóðfélaginu gagnvart flóttafólki. Hún hyggst svo sannarlega eiga í áframhaldandi samskiptum við hina nýju nágranna.