fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Halla:„Það er nákvæmlega ekkert að því að vera aðeins öðruvísi“

Tekur þátt í #shareyourscar herferðinni – „Vorkunn er það seinasta sem ég vil“

Auður Ösp
Mánudaginn 18. janúar 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fólk á það oft til að fara á tánum í kringum hlutina og þorir kannski ekki að spyrja mig út í þetta vegna þess það er hrætt um að segja eitthvað asnalegt eða óviðeigandi. En ég vil frekar að fólk spyrji mig. Vegna þess að fyrir mér er þetta svo sannarlega ekkert leyndarmál,“ segir Halla Þórey Victorsdóttir en hún var barnung þegar hún missti annað augað sökum krabbameins. Hún er ein þeirra fjölmörgu einstaklinga sem hafa stigið fram undanfarna daga og deilt sjálfsmynd á samfélagsmiðlum í tengslum við herferðina #shareyourscar eða Deildu örinu þínu. Um er að ræða herferð á vegum Krafts sem hefur þann tilgang að opna um umræðuna um krabbamein meðal ungs fólks.

Halla birti meðfylgjandi sjálfsmynd á facebook síðu sinni á dögunum en þar má sjá hana án gerviaugans sem hún notast við dagsdaglega. Hún var tveggja og hálfs árs gömul þegar hún greindist með svokallað sjónhimnuæxli í öðru auganu (retinoblastoma) en um afar sjaldgæfa tegund krabbameins er að ræða og kemur það einkum fram hjá ungum börnum. „Mér skilst á mömmu að hún hafi fengið grunsemdir um að það væri ekki allt í lagi þegar hún var að baða mig og vatnið speglaðist mjög skringilega í auganu á mér. Hún leitaði með mig til læknis og þar kom æxlið í ljós,“ segir Halla í samtali við blaðamann.

„Mér skilst að æxlið hafi verið orðið of stórt til þess að það hefði verið hægt að bjarga auganu með geislameðferð og því var ekki um annað að ræða en að fjarlægja það. Það var gert í aðgerð sem fór fram í London. Ég var heppin að því leytinu til að þessi tegund krabbameins kemur oft fram í báðum augum en ég fékk það bara í annað augað. Ég þurfti heldur ekki að fara í lyfjameðferð vegna þess að krabbameinið hafði ekki dreift sér.“

Halla fékk í kjölfarið gerviauga í stað þess sem var tekið. „Ég á óljósa minningu um að hafa farið eineyg í leikskólann fyrst eftir þetta þar sem að ég fékk gerviaugað ekki strax,“ segir hún og bætir við að hún hafi að lang mestu leyti sloppið við stríðni og áreiti af hálfu jafnaldra sinna. „Auðvitað fann ég fyrir athygli vegna augans. Það sést náttúrlega að augun eru ekki nákvæmlega eins, gerviaugað hreyfist til dæmis ekki eins mikið og liturinn og formið eru ekki nákvæmlega eins.“

„En ég man aldrei eftir að hafa beinlínis orðið fyrir stríðni,“ heldur hún áfram. „Fólk og þá sérstaklega krakkar eru náttúrlega bara forvitnir um það sem er öðruvísi og það er bara í fínu lagi. Það er nákvæmlega ekkert að því að vera aðeins öðruvísi. Þegar ég var unglingur og á viðkvæmum aldri komu stundum tímabil þar sem ég fann fyrir óöryggi, á tímabili reyndi ég til dæmis mikið að hylja augað með hárinu og forðaðist að láta taka myndir af mér. En það hefur alltaf liðið fljótt hjá. Ég þekki náttúrlega ekkert annað en að vera bara með eitt auga og það er bara eðlilegt fyrir mér.“

Vill ekki vorkunn

Þegar rætt er við Höllu er svo sannarlega augljóst að hún á auðvelt með að líta á björtu hliðarnar á tilverunni. Hún segir það mikilvægt að hafa húmor fyrir sjálfum sér og oftar en ekki hefur gerviaugað orðið uppsprettan af spauglegum uppátækjum. „Það hefur til dæmis reynst mjög hentugur hrekkjavökubúningur að vera bara með eitt auga,“ segir hún hlæjandi. „Eitt árið tók ég til dæmis augað úr og gekk um með gerviauga á priki og árið þar á undan var ég eineygður sjóræningi Af hverju ekki að grínast með þetta? Það er svo miklu auðveldara heldur en veltast um í einhverri eymd og volæði.“

„Fólk er oft mjög feimið við að spyrja mig út í þetta og mér finnst það leiðinlegt. Fólk heldur kanski að þetta sé rosalega viðkvæmt mál fyrir mér sem þurfi að fara varlega í kringum en það er alls ekki þannig. Mér finnst langbest þegar fólk spyr mig bara hreint út. Þetta er náttúrlega bara ég, þetta er bara eðlilegur hlutur af mér og sé ekki ástæðu til þess að skammast mín,“ segir Halla jafnframt. „Ég hef stundum fengið samúðarsvip frá fólki en vorkunn er samt það seinasta sem ég vil, enda þarf ég ekkert á henni að halda.“

Hún segist fagna herferðinni #shareyourscar og vonast til þess að sem flestir sjái sér fært um að stíga fram. „Það er svo mikilvægt að elska sjálfan sig eins og maður er. Ég er kanski heppin að því leyti að ég hef haft alla ævina til að venjast mínu öri þannig að fyrir mér er það ekkert stórmál. Ég þekki ekkert annað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað