Bjarni sló í gegn sem fjármálaráðherrann í Skaupinu – Stendur í skilnaði og þarf allt í einu að fara að búa einn – Átti í innri baráttu vegna kynhneigðar
Óhætt er að segja að Bjarni hafi slegið í gegn sem nafni sinn og fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, í Skaupinu. Dillaði hann sér meðal annars nautnalega á pínulítilli sundskýlu sem „graðfolinn úr Garðabænum“. En þar var verið að gera grín að því að Bjarni hefði skráð sig á framhjáhaldsvefinn Ashley Madison undir notendanafninu IceHot1, en vefurinn komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar tölvuþrjótar réðust á hann og stálu upplýsingum um 37 milljón notendur vefsins. Þar á meðal Bjarna. Í yfirlýsingu á Facebook sagði kona hans að þau hjónin hefðu farið saman inn á vefinn fyrir forvitnissakir, í algjörum hálfkæringi og af léttúð. Þau hefðu skráð sig en svo aldrei farið inn á vefinn aftur.
Þrátt fyrir að senurnar með Bjarna væru hvorki langar né margar vakti leikur hans athygli, ekki síst fyrir þær sakir að hann var að leika Bjarna í fyrsta skipti. En oft eru það sömu leikararnir sem veljast í hlutverk helstu ráðamanna aftur og aftur. Þetta var því töluverð áskorun fyrir hann sem leikara.
„Ég var kannski á skjánum í svona fimm mínútur. Ég er reyndar bara búinn að horfa á Skaupið einu sinni – þarf eiginlega að horfa á það aftur og taka tímann hvað ég er lengi í mynd,“ segir hann og skellir upp úr. „Ég birtist samt í alvöru ekki lengur en í fimm sekúndur á sundskýlunni, en þessi mynd var strax komin út um allt. Það er greinilegt hvað vekur mesta athygli, en maður gerir allt fyrir brandarann.“
Bjarni frétti svo að bæði ráðherrann og eiginkonan hefðu verið þokkalega sátt við frammistöðu hans og ekki spillti það fyrir. „Það var mjög gaman að heyra það. Það var líka mjög gaman hjá okkur Birgittu, sem lék konuna hans, að gera þessar senur. Svo er auðvitað bara mikill heiður að fá að vera með í Skaupinu, allavega einu sinni.“
Aðspurður segist hann þó ekki hafa stúderað Bjarna neitt sérstaklega fyrir hlutverkið. Honum fannst það eiginlega ekki hægt fyrir þessar senur. „Ég reyndi að gúggla hann en fann voða lítið annað en hann að tala um fjárlagafrumfrumvarpið, sem gagnaðist mér ekki mikið. Þetta voru svo prívat senur. Ég veit ekkert hvernig Bjarni Ben er í svefnherberginu eða í matarboði heima hjá sér. Ég hugsaði með mér að ég yrði að gera hlutverkið að mínu. Það var líka alveg augljóst um hvern var að ræða. Það var bara settur fæðingarblettur á vörina og ég var sendur í klippingu,“ segir Bjarni.