Áföllin hafa valdið Ragnheiði kvíða
„Ég gat ekki sofnað og hjartslátturinn varð æ hraðari og ég hélt að ég væri að fá heilablóðfall. Ég ákvað því að hringja í pabba og fékk hann til að sofa inni í stofu heima hjá mér svo sonur minn væri ekki einn með mér dauðri. Þar sem ég augljóslega dó ekki tókst mér að skríða til læknis um morguninn þar sem ég fékk að vita að ég væri alls ekki að fá heilablóðfall heldur væri þetta kvíðakast.
Ég hef verið alveg ofsalega dauðahrædd; fengið dauðann fullkomlega á heilann og óttast svo að deyja frá syninum. Ég sá alltaf það versta fyrir mér, var með algjöra hörmungahyggju og um tíma varð ég að taka heimasímann úr sambandi því ég fór í uppnám í hvert skipti sem hann hringdi. Þetta var orðið skilyrt. Enda hef ég farið í allt of margar jarðarfarir.“