Bjarni sló í gegn sem fjármálaráðherrann í Skaupinu – Stendur í skilnaði og þarf allt í einu að fara að búa einn – Átti í innri baráttu vegna kynhneigðar
Bjarni Snæbjörnsson leikari var svolítið að leita að sjálfum sér á unglingsárunum. Hann varð snemma meðvitaður um að hann væri samkynhneigður en átti í mikilli innri baráttu við tilfinningarnar sem fylgdu. „Ég upplifði aldrei neina fordóma þegar ég kom loksins út úr skápnum. Þeir voru bara í hausnum á mér. Ég held að það sé oftast málið. Þegar ég var 12 eða 13 ára þá vissi ég ekki um neinn sem var eins og ég, en þegar ég kom út úr skápnum hafði mjög mikið breyst.“
Hann var ekki tilbúinn til að takast á við þessar tilfinningar sínar strax og eignaðist meira að segja kærustu þegar hann var 17 ára, í skiptináminu. „Við erum góðir vinir í dag. Og þá vorum við eiginlega bara vinir sem fórum rosalega mikið í sleik,“ segir Bjarni og skellir upp úr. „Ómeðvitað var hún kannski yfirvaraskeggið mitt,“ bætir hann við. Blaðamaður hváir og Bjarni útskýrir hugtakið: „Í gamla daga þegar samkynhneigðir karlmenn komu með konur á ball þá var talað um þær sem yfirvaraskegg. Konan átti að vera sönnun þess að karlmaðurinn væri gagnkynhneigður.“
Hann segist finna fyrir því í starfi sínu með ungu fólki í dag að það sé enn sama krísan að koma út úr skápnum þótt landslagið sé allt annað. „Samfélagið er allt í lagi. Fordómarnir eru bara í hausnum á fólki. Maður er alltaf að búast við því versta þegar maður kemur út. Heldur að þá muni allir hata mann. En það gerðist aldrei hjá mér. Hvergi. Ég var mjög þakklátur fyrir það. Það eru líka fordómar að halda að fólk sé fordómafullt. Að gera ráð fyrir því. Það er ömurlegt að hugsa þannig. Maður á frekar að hugsa að fólk sé æðislegt þangað til annað kemur í ljós. Það er miklu skemmtilegra.“
Bjarni var orðinn 19 ára gamall þegar hann kom út úr skápnum. Þá var hann kominn með nóg af því að ljúga að fólkinu í kringum sig og lifa í blekkingu. Þá grunaði reyndar marga að svona væri í pottinn búið. „Ég vissi alveg að aðra grunaði þetta. Það þurfti bara að tala um bleika fílinn í herberginu. Það tók mig alveg tvö ár að segja öllum. Ég byrjaði á tveimur vinkonum og svo öðrum tveimur, svo fylgdu mamma og pabbi og öll fjölskyldan í kjölfarið.“
Eftir að hafa komið út úr skápnum gat hann loksins farið að vera hann sjálfur. Hann gaf sér smá tíma til að vera með sjálfum sér og finna sig. „Mér fannst ég ekki tilbúinn til að fara í nám eða neitt slíkt. Mér fannst ég þurfa að vita meira hvað ég vildi og hver ég væri.“