Áslaug Perla hefði orðið 37 ára í janúar hefði hún lifað
Áslaug Perla Kristjónsdóttir lést árið 2000 þegar henni var hrint niður af svölum blokkar í Engihjalla. Systir hennar, Ragnheiður M. Kristjónsdóttir, segir fjölskylduna ekki hafa jafnað sig eftir missinn. Indíana Ása Hreinsdóttir ræddi við Ragnheiði um Áslaugu Perlu, daginn örlagaríka, fyrirgefninguna, ástina og sorgina eftir því sem hefði getað orðið.
„Svona áföll eyðileggja allt. Það er ekki bara einstaklingurinn sem deyr sem hverfur heldur fer öll fjölskyldan í klessu og ég tala ekki um þegar um svona ofbeldisglæp er að ræða. Þetta eyðilagði okkar fjölskyldu. Eitt líf tengist mörgum öðrum lífum, fjölskylduhópum og vinum. Þetta hefur svo víðtæk áhrif,“ segir Ragnheiður M. Kristjónsdóttir, markaðsfulltrúi og fyrrverandi ritstjóri, en litla systir Ragnheiðar, Áslaug Perla Kristjónsdóttir, var myrt á hrottafenginn hátt föstudagskvöldið 26. maí árið 2000 þegar henni var kastað fram af svölum á tíundu hæð í blokk í Engihjalla í Kópavogi.
Áslaug Perla hefði orðið 37 ára þann 4. janúar hefði hún lifað. Það eru því 16 ár síðan hún lést. „Ég sakna svo þess sem hefði getað orðið og hugsa oft hvernig hún myndi líta út í dag, hvað við værum að bralla, hvort hún ætti börn og hvað hún starfaði við. Áslaug Perla var sjö árum yngri en ég, sem var svolítið mikið þá en hefði ekki verið neitt í dag. Ég passaði hana mikið og sótti hana á leikskólann en fór svo að vera með stæla við hana þegar ég varð unglingur. Við áttum samt okkar stundir og elskuðum að horfa saman á Santa Barbara og seinna urðu Fóstbræður okkar þættir. Við vorum alltaf að verða betri vinkonur.“
„Það tekst ekki öllum að komast í gegnum svona og mömmu minni reyndist það ofviða að missa barnið sitt.“
Ragnheiður var einstæð móðir þegar Áslaug Perla lést. „Sonur minn var tæplega þriggja ára og var í pössun hjá mömmu þegar hún fékk fréttirnar. Grey karlinn. Þetta hefur örugglega verið hrikalegt áfall. Mamma brjálaðist algjörlega. Sonur minn hefur aldrei rætt þetta og ég veit svo sem ekki hvað börn muna og ég hugsa að hann hafi lokað á þessa minningu. Hins vegar getur enginn sagt mér að þetta hafi ekki haft áhrif á hann; þegar einhver svona náinn bregst svona við.
Það er honum að þakka að mér tókst að halda áfram. Ég varð að sinna honum, halda áfram í háskólanum, borga af íbúðinni og gera það sem þurfti að gera. Fyrst á eftir var maður í einhverri leiðslu. Það tekst ekki öllum að komast í gegnum svona og mömmu reyndist það ofviða að missa barnið sitt. Mér tókst að skríða í gang en mamma hefði þurft á hjálp að halda til að halda áfram en hún fékk ekki mikla hjálp.“
Aðspurð um daginn örlagaríka segir hún fyrstu viðbrögð allra hafa verið að gera ráð fyrir að um slys hefði verið að ræða. „Pabbi hringdi í mig og sagði mér að koma. Ég yrði að koma strax. Ég átti ekki bíl en tók leigubíl. Pabbi var það alvarlegur í símann að ég vissi að það var eitthvað að en datt ekkert svona til hugar. Hugurinn fór ekki þangað. Ég bað leigubílstjórann að bíða því mig vantaði peninga til að borga honum og um leið og ég kom inn sagði pabbi mér þetta. Ég trylltist og hljóp öskrandi út í bíl til að borga leigubílinn. Leigubílstjórinn hefur haldið að ég væri eitthvað geðveik.
Svo var bara algjört ástand – einhver geðbilun – mamma alveg tryllt og henti öllum út sem vildu hjálpa, prestum og öðrum og vildi ekki tala við neinn.“
Stundum virðist sem áföllin elti sumar fjölskyldur uppi en Ragnheiður hefur misst fleiri náskylda ættingja. „Stundum verð ég reið yfir okkar hlutskipti en ég reyni að komast hjá því. Það bitnar eingöngu á manni sjálfum. Þetta er bara svo mikið. Það væri ekki hægt að skálda þetta. Mamma átti fimm systur. Elsta systirin missti son sinn þrítugan úr hvítblæði og árið 1993 dó önnur systir hennar frá fjórum börnum. Einum og hálfum mánuði seinna lést Pési frændi [Pétur Ingi Þorgilsson] en hann féll af þaki húss á Ásvallagötu. Pési var ári yngri en ég. Við vorum mjög náin í uppvextinum, vorum saman í skóla og áttum sameiginlega vini. Hann var frábær, svo hæfileikaríkur, fyndinn og öðruvísi en allir. Það er ótrúlega mikill missir að honum.“
Faðir Ragnheiðar, Kristjón Haraldsson, lést svo árið 2011 úr hjartaáfalli en hann hafði áður fengið hjartaáfall árið 2008. „Ég hafði talað við pabba í síma á föstudagskvöldinu þar sem hann óskaði mér til hamingju með nýja starfið. Kaldhæðni örlaganna höguðu því þannig að ég var ráðin ritstjóri Séð og heyrt daginn áður en pabbi dó. Á laugardeginum hringdi Agnes systir og sagði mér að pabbi svaraði ekki í símann. Þar sem ég bjó í næstu götu við hann og var með lykla fór ég að athuga með hann. Hann svaraði ekki þegar ég fór inn og kallaði en svo sá ég hann liggjandi á gólfinu. Hann var dáinn.“
Ragnheiður segir hátíðisdaga og þá sér í lagi jólin sérstaklega erfið fyrir þá sem syrgja. „Jólin eru fjölskylduhátíð sem snúast um hefðir og vana. Ég hef misst svo marga að mér hefur bara fundist þetta óþægilegur tími. Fyrstu jólin eftir að Áslaug Perla dó vorum við mamma svo ruglaðar að við gleymdum að kaupa í matinn. Þegar ég mætti í Nóatún var afgreiðslustelpan að loka en var svo almennileg að leyfa mér að komast inn. Ég hljóp um búðina og tók allt sem ég sá. Jólamaturinn samanstóð af kalkúnabringum og tikkamasala-sósu – sem var í takt við okkar líðan og ástand. Þetta voru undarleg jól. Síðan hefur þessi tími ekki verið í uppáhaldi en maður hefur reynt að setja sig í gírinn stráksins vegna. Maður reynir að búa til nýjar hefðir og skapa hamingju og það tókst. Jólin í ár voru hin huggulegustu.“
„Ég hef verið alveg ofsalega dauðahrædd; fengið dauðann fullkomlega á heilann og óttast svo að deyja frá syninum.“
Áföllin hafa valdið Ragnheiði kvíða og hún fékk heiftarlegt kvíðakast sama dag og Áslaug Perla var kistulögð. „Ég gat ekki sofnað og hjartslátturinn varð æ hraðari og ég hélt að ég væri að fá heilablóðfall. Ég ákvað því að hringja í pabba og fékk hann til að sofa inni í stofu heima hjá mér svo sonur minn væri ekki einn með mér dauðri. Þar sem ég augljóslega dó ekki tókst mér að skríða til læknis um morguninn þar sem ég fékk að vita að ég væri alls ekki að fá heilablóðfall heldur væri þetta kvíðakast. Ég hef verið alveg ofsalega dauðahrædd; fengið dauðann fullkomlega á heilann og óttast svo að deyja frá syninum. Ég sá alltaf það versta fyrir mér, var með algjöra hörmungahyggju og um tíma varð ég að taka heimasímann úr sambandi því ég fór í uppnám í hvert skipti sem hann hringdi. Þetta var orðið skilyrt. Enda hef ég farið í allt of margar jarðarfarir.“
Hún segir áfengi virka eins og eitur fyrir fólk sem er haldið kvíða. „Ef fólk langar virkilega til að þjást af kvíða þá mæli ég með því að það fái sér í glas og helst reyki með því. Hjá mér olli áfengið kvíða, þunglyndi, svefntruflunum og öðrum óþægindum. Það hentaði mér mjög illa að drekka,“ segir Ragnheiður sem setti tappann í flöskuna 2004. „Ég er hætt að drekka, hætt að reykja og hætt að borða mat sem veldur mér skaða. Ég kýs að vera ekki í því sem veldur mér vanlíðan. Sú ákvörðun að leita mér aðstoðar varðandi mataræðið var mér mjög erfið, en ég sá að ég gat ekki ráðið við þetta sjálf. Eftir margítrekaðar tilraunir varð mér ljóst að ég þurfti hjálp. Ég var alltaf annaðhvort í megrun eða einhvers slags ofáti og það gekk ekki lengur.
Af þessu þrennu, að hætta að reykja, drekka eða taka til í matnum er maturinn langerfiðastur. Ég gekk í gegnum helvíti til að hætta að reykja og hélt að ég myndi aldrei geta hætt að nota nikótíntyggjó en maturinn er langerfiðastur þó svo að það fylgi því líka mikið frelsi að sleppa þeim matartegundum sem vekja hjá mér fíkn. Maður þarf að borða á hverjum degi og við lifum í þjóðfélagi þar sem mataráreitið er stanslaust, sykur og gúmelaði. Það eru alltaf tveir mánuðir í páska eða tveir mánuðir í jól og Nói frændi er alls staðar, nánast að troða upp í þig súkkulaðinu.“
Hún játar því brosandi að það sé óréttlát hlutskipti að geta ekki huggað sig á erfiðum stundum með smá konfekti eða rauðvínsglasi. „Mér finnst það mjög ósanngjarnt en sjálfsvorkunn er mikill óvinur minn enda hefur hún aldrei gert neitt fyrir mig nema komið mér í vandræði. Ég hef fallið í mataræðinu í sjálfsvorkunn. Hef kannski verið ótrúlega dugleg en samt þyngst, orðið brjáluð og fallið.“
Hún segir móður sína aldrei hafa jafnað sig á dótturmissinum og að málið hafi haft mikil áhrif á þeirra samband. „Rannsókn málsins hefur valdið mömmu mjög miklu hugarangri og sjálfri finnst mér ótrúlega ósmekklegt að hægt sé að afgreiða málið með nokkrum dómsorðum þar sem vitnað er í morðingjann. Ég er mjög ósátt við það. Morðinginn var einn til frásagnar og neitaði að útskýra en tókst að ropa úr sér nokkrum orðum sem voru notuð í dómsorð. Það er margt við þetta mál sem hefði mátt fara betur en ég er hætt að velta mér upp úr því. Hann myrti hana og sat inni fyrir það.“
„Ég hata engan en hann kemst kannski næst því.“
Aðspurð segist hún ekkert vita um afdrif mannsins sem varð systur hennar að bana. „Ég hef einu sinni séð hann en það var við dómsuppkvaðninguna. Sem betur fer hef ég aldrei rekist á hann aftur. Einu sinni hélt ég að ég hefði séð hann og það var eins og ég væri kýld í magann. Það hafði mikil líkamleg áhrif á mig. Mér finnst hræðilega vont að sjá myndir af honum. Einhverra hluta vegna komst ég að því einn daginn að hann væri með Facebook-síðu, sem mér fannst heldur undarlegt, og hringdi í Fangelsismálastofnun og komst þá að því að það væri búið að sleppa honum. Hann hafði setið inni í átta ár, að mig minnir. Mér brá mikið við þær fréttir. Það er náttúrlega algjörlega galið að maður, sem fær 16 ára dóm fyrir morð, geti gengið út eftir nokkur ár. Það er ekki eins og það hafi verið einhver vafi eða að þetta hafi verið manndráp af gáleysi. Ég reyni bara að hugsa sem minnst um þennan mann því þá líður mér illa, verð reið og bitur og sorgmædd. Ég hef ekki fyrirgefið honum og held að ég muni aldrei geta það. Ég hata engan en hann kemst kannski næst því. Ég hef aðallega andstyggð á honum.“
Ragnheiður starfaði í blaðamennsku í átta ár en hefur nú sagt skilið við fagið. „Ég sakna þess ekki og er svo ánægð í vinnunni minni í dag. Ég var ritstjóri á Séð og heyrt í átta mánuði en það starf gat aldrei blessast. Fyrstu dagarnir í starfinu fóru í að skipuleggja jarðarför pabba. Ég hafði enga stjórn á neinu og skil ekki hvernig ég komst í gegnum þetta. Maður var leiddur einhvern veginn áfram en eftir átta mánuði var ég komin með upp í kok og sagði upp án þess að vita hvað ég væri að fara gera. Ég hef nokkrum sinnum tekið slíkar ákvarðanir og það hefur alltaf blessast. Ég er bara ótrúlega lukkuleg með það hvar ég er í lífinu, með barnið mitt, vinnuna og kærastann.“
Ragnheiður hefur fundið ástina og er í sambúð með Gunnari Johnson. „Þrátt fyrir allt sem gerst hefur er ég ansi hamingjusöm. Ég á frábærar vinkonur sem hafa alltaf staðið þétt við bakið á mér, ótrúlega hæfileikaríkan son og er komin í mitt fyrsta alvöru samband og það á gamals aldri,“ segir hún brosandi en þau Gunnar keyptu sér íbúð saman fyrir tæpu ári. „Auðvelda leiðin væri að líta alltaf á það neikvæða en þá er maður fljótur að missa móðinn. Það er ekki í boði hjá mér,“ segir hún og bætir við að hún vilji heiðra minningu systur sinnar. „Þegar eitthvað svona hrikalegt gerist eru viðkomandi skilgreindir sem fórnarlömb en ég vil að fólk muni eftir Áslaugu Perlu sem stúlku sem átti framtíðina fyrir sér. Hún var ekki bara stelpan sem var myrt heldur líka þessi frábæra, fyndna og granna stelpa sem borðaði hratt og hélt að hún væri svo góður dansari. Þessi klaufi sem var algjör písl en tókst þó að brjóta sófann minn þótt hún væri helmingi léttari en ég. Ég vil ekki bara einblína á það hræðilega og ræða bara um „málið“ þegar minnst er á Áslaugu Perlu.
Áslaug Perla leyndi á sér, hún var feimin en fannst gaman að fíflast og hafði mjög sérstakan húmor. Hún var ofsalega klár og listræn og var ung farin að pæla í hlutum, þýddi til dæmis bók og var með tímarit í vinnslu. Hún var svo mikill baukari og teiknaði mikið. Ég sé fyrir mér að hún hefði farið út í einhverja hönnun. Það er líka gott að geta talað um allar skemmtilegu minningarnar.“