Kom hingað sem flóttamaður í janúar
Ungur sýrlenskur drengur sem kom hingað til lands sem flóttamaður í janúar á þessu ári vakti mikla hrifningu á Borgarbókasafninu í gær. Myndband sem sýnir drenginn syngja á lýtalausri íslensku hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum.
Í frétt RÚV kom fram að drengurinn hafi verið einn margra gesta á vegum Café Lingua á Borgarbókasafninu, en þar hittist fólk frá öllum heimshornum til að tala saman. Í gær opnuðu Sýrlendingar á Íslandi dyrnar að tungumáli og menningu Sýrlands og gafst gestum og gangandi tækifæri til að setjast niður og spjalla við Sýrlendinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Viðburðurinn í gær var samstarf Borgarbókasafnsins við Sýrlendinga á Íslandi, Rauða krossinn á Íslandi og Mímir símenntun. Eitt af markmiðum Café Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands með fólki hvaðanæva að og auðgað mannlíf og menningu ásamt því að vekja forvitni borgarbúa á heiminum í kringum okkur.
Myndbandið af drengnum má sjá hér að neðan en á því má heyra hann syngja lagið um litina á lýtalausri íslensku.