Tónlistarmaðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, birti Facebook-færslu á mánudag, þar sem hann bað stjórnmálamenn í framboði fyrir alþingiskosningarnar að rökstyðja það af hverju hann eigi að gefa þeim atkvæði sitt.
Gunni, sem kýs í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði valið standa á milli Pírata, Viðreisnar eða Vinstri grænna. Þungavigtarframbjóðendur á borð við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, og Pawel Bartoszek, frambjóðanda Viðreisnar, reyndu um leið að klófesta atkvæði doktorsins. „Það er slegið að VG, Píratar og Viðreisn myndi næstu stjórn,“ sagði Gunni ánægður með viðtökurnar.