fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Vonin á tímum flóttamannakrísunnar

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 18. september 2016 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Navid fæddist ríkisfangslaus og réttindalítill afganskur flóttamaður í Íran. Eftir að hafa flúið við illan leik frá landinu og hrökklast um milli útlendingastofnana Evrópu fékk hann loksins hæli af mannúðarástæðum á Íslandi. Tveimur árum síðar er hann smám saman að skapa sér nýtt og betra líf með vinnu, íbúð, konu, barn og bíl. Navid bauð Kristjáni Guðjónssyni í mat á Stúdentagarðana og sagði honum frá því hvernig er að vera alinn upp í fangelsi, frá óhugnanlegum flótta, aðstæðum flóttamanna í Evrópu og nýja lífinu á Íslandi.

Þetta fólk sem sækir um hæli hérna, það flýr ekki bara til að leita betra lífs. Það hreinlega þarf að gera það! Það hefur neyðst til þess af ýmsum ástæðum.

Navid tekur fagnandi á móti blaðamanni á ganginum á Stúdentagörðunum og býður hann velkominn. Ljúfur og þykkur matarilmur fyllir vitin þegar gengið er inn í íbúðina. Hann er að elda kjúklingakássu og hrísgrjón. Við og við hleypur hann með hápressupottinn út og lætur kólna á svölunum sem eru með gott útsýni yfir Reykjavíkurflugvöll. Það er hátt til lofts og íbúðin er nokkuð rúmgóð af stúdentaíbúð að vera. Á sófanum situr konan hans, Nanna Hlín, og vaggar þriggja mánaða gömlum syni þeirra, Omid Ara.

„Hann var að fá vegabréf,“ segir Nanna, bendir á búlduleitan og skælbrosandi drenginn og sýnir blaðamanni fagurblátt vegabréf með grátbólginni mynd af syninum. „Það er ótrúlegt hvað þetta tók stuttan tíma, ein heimsókn, 40 mínútur, ljósmynd og svo var vegabréfið sent heim,“ segir Navid og ber það saman við vesenið sem fylgir því fyrir hælisþega að sækja um ferðagögn hjá Útlendingastofnun.

„Það er fyrst ein heimsókn til að sækja um, þá úthluta þeir öðrum tíma fyrir myndatöku og þriðja heimsóknin er til að sækja gögnin – en þeir geta sko ekki sent heim. Og alltaf þarf maður að bíða lengur en klukkutíma, það eru fáir starfsmenn og þetta gengur mjög hægt. Í þokkabót er afgreiðslutíminn bara frá tíu til tvö á virkum dögum svo maður þarf að taka sér þrisvar sinnum frí frá vinnu bara til að fá ferðaskilríkin! Hann gerir sér ekki grein fyrir forréttindunum sem hann býr við,“ segir Navid og brosir til sonarins.

„Ég hafði aldrei átt löglegt vegabréf fyrr en fyrir tveimur árum.“

Án ríkisfangs

Navid er rúmlega þrítugur Afgani en hefur aldrei séð þetta land forfeðra sinna. Foreldrar hans flúðu stríð í heimalandinu yfir til nágrannalandsins Íran þegar þau voru ung og settust að í norðausturhluta landsins. Navid, sem er næstelstur sjö systkina, er fæddur og uppalinn í Íran en þar erfist staða flóttamanns milli kynslóða svo hann var í raun ríkisfangslaus.

Einhvers staðar á bilinu ein til þrjár milljónir afganskra flóttamanna búa í Íran, en flestir komu þangað í lok áttunda áratugarins þegar Sovétmenn og afganskir uppreisnarmenn börðust á banaspjótum. Fyrir Afgana er Íran hins vegar langt frá því að vera draumaland.

Fyrir utan bág kjör, skort á tækifærum, ýmiss konar fordóma og mismun af hendi almennra borgara búa þeir við mjög takmörkuð réttindi af hendi yfirvalda. Flestir eru með stöðu flóttamanns og sem slíkir mega þeir ekki nota ýmis opinber rými, svo sem sundlaugar og almenningsgarða, þeir eru bundnir við ákveðið svæði sem þeir mega ekki fara út fyrir, þeir fá mjög takmarkaða skólagöngu, eiga erfitt með að kaupa hluti sem krefjast skilríkja – jafnvel SIM-kort í farsíma má ekki selja Afgönum.

Þá má ekki græða ný líffæri í afganska flóttamenn á írönskum sjúkrahúsum. Navid er mikið niðri fyrir þegar hann segir frá þessu atriði og bendir á frétt sem birst hafði á BBC af 12 ára stúlku, Latife Rahmani, sem lést vegna þess að hún fékk ekki grædda í sig nýja lifur – jafnvel þótt faðir hennar hafi boðið aðra lifur sína til gjafar.

Fæddur í fangelsi

Sjálfur fékk Navid aðeins nokkur ár af skólagöngu en fór um tíu ára aldurinn að vinna við ýmis störf, í kolanámu, við sölu handhægra trúartexta og svo við að sauma – en við það starfaði hann lengst af. Frá barnsaldri vissi hann þó að hann gæti ekki búið við réttindaleysið, fordómana og framtíðarskortinn sem blasti við honum í Íran.

Þegar þráin eftir því að sjá meira en þessa einu borg dró hann út fyrir borgarmörkin var hann handtekinn, sat fyrst í tvo og svo seinna þrjá mánuði í fangelsi, fyrir það eitt að vilja skoða sig um fyrir utan fæðingarborgina.

„Lögreglan tók mig og stakk mér í steininn. Hvað í andskotanum á það að þýða? Ég var fæddur í þessu landi en hef engin réttindi. Í Íran er ekkert líf fyrir afganskan flóttamann,“ segir hann og tínir kjúklingakjötið af beinunum og kastar ofan í pottinn.

„Það er engin ein aðalástæða fyrir því að ég ákvað að fara – það er bara þetta allt! Það að sjá bræður sína og systur fæðast ríkisfangslaus. Þau geta ekki gert neitt því þetta er eins og að alast upp í fangelsi – og þetta er fangelsi! Ímyndaðu þér að þú megir aldrei fara út fyrir Reykjavík, alla ævi: þú fæðist þar, býrð þar og deyrð.“

Ógnvænlegur flótti

Tuttugu og þriggja ára ákvað hann að flýja fangelsið sitt, Íran. Í samfloti við einn vin greiddi hann smyglara fyrir aðstoð við að komast til Evrópu. Þeir ferðuðust með lestum yfir landið og svo í sjö manna hóp gangandi yfir mikið fjalllendi á landamærum Írans og Tyrklands, þar sem vopnaðir landamæraverðir gættu þess að enginn færi leynilega úr íslamska lýðveldinu.

„Þetta var mjög erfið ganga upp og niður fjöll – ekkert eins og rölta upp Esjuna. Þetta var svo erfið ganga að maður hafði ekki orku í að halda á neinu aukalega, maður henti bara öllu frá sér. Þetta var erfitt landslag en maður var svo uppgefinn að maður komst ekki hjá því að grípa í kaktusa með berum höndunum þegar klifrað var upp klettana. Á einhverjum tímapunkti vorum við orðnir mjög þyrstir og fundum litla á. Við fórum niður á fjóra fætur og drukkum eins og kindur,“ segir Navid og það er augljóst að frásögnin tekur á hann.

„Á þeim tímapunkti heyrðum við nokkra skothvelli – búmm, búmm, búmm! Ég lyfti upp höfðinu og sá byssukúlu þjóta framhjá mér, beint fyrir framan nefið og ofan í ána,“ segir Navid og sýnir hvernig kúlan skaust framhjá.

„Við höfðum enga hugmynd um hvað væri að gerast eða hvaðan væri verið að skjóta. Smyglarinn hrópaði á okkur að hlaupa bak við stóran stein. Mér tókst að gera það, en þá sá ég að vinur minn hafði verið skotinn – beint í hálsinn.“

„Við þurftum bara að halda áfram,“ segir Navid og drúpir höfði. „Þetta voru mistök smyglarans, það var ekki nógu mikið myrkur, við hefðum bara átt að ferðast í algjöru myrkri.“

Fit Hostel var eins og geðveikrahæli

Áfram flúði Navid ásamt hópnum í gegnum Tyrkland, þar sem þeim var ýmist hrúgað í skott farþegabíla og vörurými flutningabíla og brunað um fáfarna fjallavegi.

Í bæ við tyrknesku ströndina þurftu þau að bíða í nokkrar vikur eftir bát sem myndi ferja þau til Grikklands. Daginn sem Navid átti loksins að sigla var hann beðinn um að gefa farið frá sér til hjóna með ung börn, enda var veðrið gott svo áhættusöm bátsferðin átti að heita öruggari en aðra daga.

Bátnum hvolfdi hins vegar og Navid er viss um að þau hafi öll látist í hafinu. Nokkrum dögum síðar fór hann sjálfur um borð í sams konar bát í umtalsvert verra veðri. Aftur hvolfdi bátnum, en sem betur fer var það í námunda við land svo farþegunum tókst að synda í öruggt skjól.

„Við lifðum af, en allar þessar fjölskyldur drukknuðu að ástæðulausu,“ segir Navid og lítur á Omid Ara sem sefur vært í stofunni.

Eftir ólýsanlega erfiðan flótta, jafnt andlega sem líkamlega, var Navid guðslifandi feginn að vera loksins kominn til fyrirheitna landsins, Evrópu, heimsálfu frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Á hrakhólum í Evrópu

„Það var í raun enginn ákveðinn staður sem ég stefndi á í Evrópu, það skipti mig ekki máli, enda löndin meira og minna svipuð,“ segir Navid þegar hann er spurður um áfangastaðinn.

Hann flaug til Sviss á skilríkjum sem smyglarinn hafði útvegað honum og ætlaði að sækja um hæli þar. „En þeir hentu mér bara út af lögreglustöðinni á flugvellinum,“ segir Navid.

Hann keypti sér far til Hollands fyrir síðustu aurana sína og sótti þar um hæli. Eftir eitt viðtal vegna umsóknar hans var svarið afdráttarlaust: „Nei! Þú verður sendur aftur.“ Írönsk stjórnvöld álitu hins vegar að þeim bæri engin skylda til að taka við vegabréfslausum Afgana – og því var afráðið að hann skyldi sendur til Afganistans.

Þar sem hann var smeykur við að vera sendur til þessa „heimalands“ sem hann hafði aldrei séð og átti ekkert bakland í flúði hann yfir til Frakklands og reyndi að sækja um hæli þar. Frakkarnir vísuðu hins vegar til Dyflinnarreglugerðarinnar og sendu hann til baka til Hollands án þess að taka mál hans til efnislegrar meðferðar.

„Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði um Dublin,“ segir Navid. En hann átti eftir að heyra ítrekað um þessa írsku höfuðborg og umdeildu reglugerðina sem er kennd við hana. Dyflinnarreglugerðin svokallaða segir að lönd megi senda hælisleitanda aftur til þess Evrópulands þar sem hann sótti fyrst um hæli.

„Ég var í tuttugu mánuði í Hollandi þegar ég fékk loksins endanlegt neikvætt svar. Þá flúði ég í gegnum Þýskaland og Danmörku, Skandinavíu og komst til Finnlands. Þar sótti ég um hæli en aftur neituðu stjórnvöld að taka málið til efnislegrar meðferðar vegna Dyflinnarreglugerðarinnar.“

Þá kviknaði hugmyndin að fara til Íslands. Navid vissi hvar landið var á landakortinu en ekkert annað. Þegar starfsmaður útlendingastofnunarinnar í Finnlandi spurði hann hvort hann hefði sótt um hæli í Skandinavíu eða á Íslandi rann upp fyrir honum að hér byggi fólk – og eflaust dytti fáum flóttamönnum í hug að leggja leið sína út á mitt Atlantshaf svo þar ætti hann kannski meiri möguleika á mannúðlegum móttökum.

Hann flúði enn einu sinni frá yfirvofandi „heimför,“ kom sér til Íslands og sótti um hæli.

Á Fit Hostel

Eftir tíu mánaða bið á Íslandi fékk hann enn og aftur þær fréttir að mál hans yrði ekki skoðað nánar heldur myndu yfirvöld beita Dyflinnarreglugerðinni og senda hann aftur til Hollands.

„Hér á Íslandi tekur þetta mjög langan tíma, miklu lengri tíma en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Það eru kostir og gallar við það. Það er gott því að eftir svona langan tíma fer manni að líða eins og maður fái að vera hér … en það slæma er að það er sjaldnast satt,“ segir Navid og hlær.

„Þeir hika ekki við að henda fólki úr landi eftir fjögur eða fimm ár – bara beint upp í flugvél! Að mínu mati ætti þetta aldrei að taka meira en sex mánuði, þeir ættu ekki að láta fólk bíða lengur en það,“ segir Navid og Nanna rifjar upp nokkur nýleg fréttamál þar sem flóttamenn hafa verið búnir að festa rætur á þeim millibilstíma sem þeir hafa beðið eftir endanlegu svari – en hafa engu að síður verið sendir til baka.

Fyrstu mánuðina var Navid á Fit Hostel, „gistiheimili“ flóttamanna í Reykjanesbæ. „Fit Hostel var eins og geðveikrahæli,“ segir Navid og lýsir því hvernig menn voru í raun brotnir niður kerfisbundið. Þeir voru látnir bíða aðgerðalausir í marga mánuði og jafnvel ár, fengu ekki að vinna og höfðu ekki fjárráð til að gera sér nokkuð til dundurs. Á hverri nóttu gátu þeir átt von á að lögregla sótti þá og flutti nauðuga úr landi – án þess að ná að kveðja vini og kunningja. „Maður gat lítið sofið og um leið og bláu ljósin fóru að blikka fyrir utan varð maður stressaður. Það vissi enginn hver var næstur.“

Grimmúðlegt kerfi

Navid talar vel um sjálfboðaliða frá grasrótarhópnum No Borders sem hann segir að hafi hjálpað flóttamönnum með ýmis praktísk málefni og stytt þeim stundir, en annars hafi dagarnir liðið áfram einsleitir og tilbreytingarlausir. „Þau voru mjög hjálpleg!“ segir Navid og rifjar meðal annars upp hvernig meðlimir samtakanna hafi hjálpað flóttamönnunum við að sækja um tímabundin atvinnuleyfi – sem er hægara sagt en gert.

„Maður þarf fyrst að fá boð um vinnu einhvers staðar, fá undirskrift frá vinnuveitandanum, sem maður fer með upp í Útlendingastofnun. Svo þarf maður að bíða í tvo til sex mánuði á meðan umsóknin er skoðuð. Á meðan má maður ekki vinna! Þetta er fáránlegt. Hvaða vinnuveitandi ræður mann og er svo til í að bíða í hálft ár? Það voru að ég held þrjú atvinnutilboð sem fóru framhjá mér út af þessu. Í þokkabót kostar 10 þúsund krónur að sækja um leyfið – sem er erfiðara en að segja það þegar þú færð bara 2500 krónur á viku til að lifa á,“ segir Navid.

Smyglarinn hrópaði á okkur að hlaupa bak við stóran stein. Mér tókst að gera það, en þá sá ég að vinur minn hafði verið skotinn

Hann segir að sumir hælisleitendur endi því á því að finna sér svarta vinnu á meðan þeir bíði. Dæmi séu um að þeir þurfi að sofa á götunni um miðjan vetur vegna þess að vinnan er í Reykjavík en samgöngur svo dýrar milli Keflavíkur og höfuðborgarinnar að þeir geti ekki farið heim á hverju kvöldi.

„Og ef maður er staðinn að því að vinna svart er maður í vondum málum, þá túlka þeir það sem svo að maður sé ekki að leita að pólitísku hæli heldur sé bara efnahagslegur flóttamaður. Skilgreiningin á pólitískum flóttamanni er mjög þröng – hann verður að vera í lífshættu. Þannig að ef maður kemur með föður sínum, bróður eða kærustu og aðeins annar aðilinn er álitinn vera í lífshættu þá fær sá hæli en hinn er sendur heim. Þetta er grimmúðlegt kerfi að svo mörgu leyti,“ segir Navid og segir að það sé margt sem mætti laga í því hvernig íslensk og önnur evrópsk ríki taki á móti flóttamönnum. „Þú ert hreinlega ekki álitin manneskja fyrr en þú ert kominn með landvistarleyfi.“

Eftir átakanlega reynslu, margra ára flakk um álfuna og ómannúðlega biðstöðu var virkilega farið að sjá á heilsu Navids og loks var reynt á hvort hann gæti fengið hæli af mannúðarástæðum.

„Ég var alveg í ruglinu andlega, vegna þessara geðrænu veikinda ákváðu þeir að minnsta kosti að opna málið mitt. Þá var samt auðvitað ekki ljóst hvort þeir myndu bjóða mér hæli. En þetta þýddi að ég var boðaður í viðtal.“

JÁ!

Þetta var einungis annað opinbera viðtalið um mögulegt hæli sem hann fékk á þeim sex árum sem hann hafði verið að veltast um í evrópska kerfinu – viðtal upp á líf og dauða.

„Sem flóttamaður fær maður bara eitt viðtal, eitt tækifæri. Það er aðeins í fyrsta landinu sem þú kemur til sem þú færð viðtal, eitt tækifæri til að tryggja þér búsetu í Evrópu. Þetta er ótrúlegt. Ef sá sem tekur viðtalið er skíthæll missir þú þitt eina tækifæri til að fá hæli. Hann eða hún getur sagt nei af engri sérstakri ástæðu, bara sagt þér að fara til fjandans,“ segir Navid. „Þetta kerfi brýtur fólk algjörlega niður,“ skýtur Nanna inn í.

En Navid var einn af þeim heppnu. Í apríl 2014 fékk hann loksins jákvætt svar, hann fengi hæli af mannúðarástæðum á Íslandi. „Ég svaf ekkert nóttina áður en úrskurðurinn var kynntur. Ég var mjög stressaður og kastaði morgunmatnum mínum upp fyrir utan Útlendingastofnun. Ég fór með lögfræðingnum mínum og túlki til að heyra úrskurðinn. Á meðan konan frá Útlendingastofnun las upp á íslensku sá ég að lögfræðingurinn byrjaði að brosa og gefa mér tvo þumla upp. Ég trúði þessu ekki, Guð, ég var svo himinlifandi að ég faðmaði alla á staðnum – túlkinn, lögfræðinginn og konuna frá Útlendingastofnun!“

Var þá mikið partí um kvöldið?

„Nei, það minnir mig ekki … um helgina bauð ég nokkrum vinum yfir og eldaði – en það var ekkert partí.“

Hvað hefðir þú gert ef þú hefðir ekki fengið hæli hér?

„Ég veit það ekki. Ég hafði ekkert annað. Ég hefði barist hérna áfram, ég hefði gert hvað sem er til að fá að vera hér. Það hefði auðvitað getað gerst að ég hefði fengið nei, en ég hefði ekki gert þeim það auðvelt.“

Að lifa drauminnn

Sex árum eftir að hann flúði heimaborg sína og tveimur og hálfu ári eftir að hann lenti í Keflavík var Navid loksins kominn með varanlegt hæli í Evrópu.

Aðeins viku eftir að hann fékk svarið var hann kominn í fasta vinnu og síðan þá hefur hann unnið sleitulaust, þrifið á hóteli, unnið lagervinnu og svo saumað og prjónað, en það er einmitt það sem hann hafði unnið við lengst af sem barn og unglingur í Íran. Framtíðardraumurinn er svo að stofna eigið klæðskerafyrirtæki, er saumavélin í horni betri stofunnar kannski fyrsti vísirinn að því.

Við lifðum af, en allar þessar fjölskyldur drukknuðu að ástæðulausu

En þó að draumarnir séu smám saman að rætast – eða að minnsta kosti verða raunhæfari – er Navid enn með hugann við Íran og þá sem eftir sitja. Á sama tíma og hann býr sér til heimili og skapar sér nýtt líf vill hann aðstoða fjölskylduna. Hann hefur því þurft að vinna meira en fulla vinnu meðfram því að sinna nýfæddum syninum – barnsmóðurinni finnst augljóslega alveg nóg um. „Ég er alltaf að segja honum að slaka örlítið á og passa upp á stressið. Hann er að öðlast öryggisnet hérna, byrðin er ekki aðeins hans, það eru fleiri sem vilja standa með honum,“ segir Nanna.

„Þið skiljið þetta ekki því þið hafið ekki þurft að glíma við svona efnahagslegan skort. Vandamál fjölskyldunnar minnar í Íran er líka mitt vandamál.“ Eftir ár hafði hann strax náð að vinna og spara nóg til að heimsækja fjölskylduna í fyrsta skipti í sjö ár og kaupa lítið hús handa þeim: „Það er nú hvorki stórt né fínt, en það er eitthvað,“ segir Navid af hógværð.

Vonin á tímum flóttamannakrísunnar

Þegar hann er spurður um Ísland og móttökur Íslendinga svarar hann: „Ísland sendi mér ekkert boðskort um að koma hingað … ég mætti bara. Í dag er ég mjög ánægður að vera hérna – og að mér hafi ekki verið sparkað út. Það er augljóst!“

„Íslendingar sem ég hitti eru allir vinalegir – nema kannski þeir í Útlendingastofnun. En þeir eru auðvitað líka gott fólk. Þeir fá bara skipanir að ofan: „Þið megið bara gefa X mörgum hæli í ár.“ Þeir verða því að vera svona, ef þeir gefa öllum hæli verða þeir bara sjálfir reknir.“

Ég trúði þessu ekki, Guð, ég var svo himinlifandi að ég faðmaði alla á staðnum – túlkinn, lögfræðinginn og konuna frá Útlendingastofnun!

Hann segir þó augljóst að fæstir Íslendingar geri sér nokkra grein fyrir alvarleika aðstæðnanna sem hafa knúið fólk frá heimkynnum sínum. „Þetta fólk sem sækir um hæli hérna, það flýr ekki bara til að leita betra lífs. Það hreinlega þarf að gera það! Það hefur neyðst til þess af ýmsum ástæðum. Menn halda oft að fólk komi hingað til að lifa á bótakerfinu sem heimamenn hafa borgað fyrir með skattgreiðslum sínum, en það er alls ekki þannig. Allir Afganirnir sem ég þekki hér á landi vinna, hver einn og einasti, og þeir vinna nánast allir tvöfalda vinnu, dagvinnu og kvöldvinnu. Þeir vinna miklu meira en Íslendingar, í rauninni allt of mikið,“ segir Navid.

Hann veifar til Omid Ara sem brosir og babblar í átt að pabba sínum. Omid þýðir „von“ á persnesku, en Navid segir ekki leggja sérstaka merkingu í nafnið. „Við völdum það fyrst og fremst af því að það er ekki trúarlegt en það er líka bara svo fallegt.“

„Mér finnst það hafa merkingu,“ skýtur Nanna inn í. „Á tímum þessarar flóttamannakrísu finnst mér fallegt að við höfum hist og þetta litla barn hafi orðið til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið