fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Sandra Sigrún dæmd í 37 ára fangelsi í Bandaríkjunum: Öskrin og gráturinn nísti inn að beini

Hlaut þyngsta dóm sem Íslendingur hefur hlotið – Í klefa með morðingja

Auður Ösp
Föstudaginn 26. ágúst 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sandra Sigrún er 24 ára gömul og rís á fætur þegar dómarinn les upp dóminn. Hún er íklædd appelsínugulum samfestingi, einkennisbúningi bandarískra gæsluvarðhaldsfanga, hlekkjuð á höndum og fótum. Sandra er ákærð vegna tveggja bankarána í Virgínuríki sem hún framdi árið 2013. Ári síðar stendur móðir Söndru, Margrét Fenton, eða Magga eins og hún er alltaf kölluð, fyrir aftan dóttur sína og bíður á milli vonar og ótta. Ekki eru mörg ár síðan dóttir hennar var ungur og efnilegur námsmaður en villtist svo af leið.

Ljóst er að Sandra mun eyða næstu áratugum í fangelsi. Hún verður rúmlega sextug þegar hún getur um frjálst höfuð strokið. Þessi unga móðir hlaut þyngsta dóm sem Íslendingur hefur hlotið. Dómarinn hefur varla sleppt orðunum þegar Sandra Sigrún hrynur niður í gólfið. Hún grætur og öskrar. Lögreglumaður sparkar í hana og skipar henni að standa á fætur. Magga hleypur að þeim og segir honum að hann sparki ekki í barnið hennar. Hann lítur á hana og segir blákalt: „She´s mine.“ Hún er fangi og þar með eign ríkisins.

„Að horfa upp á hana þarna er það það versta og ógeðslegasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað í lífinu,“ segir Margrét þegar hún lýsir einu erfiðasta augnabliki ævi sinnar.

Fjölskyldan er gríðarlega ósátt við hvernig mál Söndru var meðhöndlað fyrir dómstólum og segir Magga bandarískt réttarkerfi vera eins og völundarhús sem ómögulegt sé að átta sig á. Sandra var til að mynda dæmd fyrir vopnaburð þó svo ekkert vopn hafi verið til staðar. Vopnið var í raun fingur ofan í tösku. Þá hefur reynslulausn verið afnumin í Virginíuríki og mun Sandra því eyða bróðurparti ævi sinnar innan fangelsismúranna. Í eitt skipti varaði Sandra mömmu sína við að horfa á sjónvarpsþættina vinsælu Orange is the new black. Þar er sögusviðið bandarískt kvennafangelsi: „Mamma, ekki horfa á þessa þætti. Þetta er nákvæmlega eins hérna inni, nema bara verra,“ sagði hún.

Elskar Ísland og vill komast heim

Snemma á níunda áratugnum lágu leiðir Möggu og Bandaríkjamannsins Bill Fenton saman en Bill gegndi herþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Þau gengu í hjónaband árið 1981 og fluttust búferlum til Flórídaríkis í Bandaríkjunum tveimur árum síðar. Það var mikil gleðistund þegar þau eignuðust eldri dótturina, Kristínu Heru, árið 1984 og eftir nokkur ár lá leiðin til Íslands á ný og starfaði Bill áfram hjá varnarliðinu í Keflavík. Þar kom Sandra Sigrún í heiminn og bjó fyrstu tvö ár ævi sinnar. Árið 1992 fluttist fjölskyldan búferlum á ný, í þetta sinn til Virginia Beach, fjölmennustu borgar Virginíuríkis á austurströnd Bandaríkjanna.

Fermingin
Fermingin

Fjölskyldan hefur sterk tengsl við Ísland og hefur komið minnst einu sinni á ári til Íslands. Þá fermdist Sandra Sigrún hér á landi og lítur fyrst og fremst á sig sem Íslending. Fjölskyldan er í góðu sambandi við ættingja og vini, auk þess sem íslenskar hefðir ríkja á heimilinu. Gestir hafa séð fjölskyldunni fyrir íslenskum mat. Söndru líður hvergi betur enn á Íslandi.

„Hún dýrkar Ísland og vill bara vera Íslendingur. Á Íslandi líður henni vel og upplifir öryggi. Hún spurði mig oft af hverju við gætum ekki bara flutt til Íslands, en hún var viss um að þar myndi hún ekki lenda í rugli.”

Sandra kom síðast til Íslands með móður sinni í september árið 2010 og fóru þær mæðgur meðal annars á Ljósanótt í Keflavík. „Hún hágrét í flugvélinni á leiðinni heim. Hún vildi vera áfram á Íslandi. „Fólkið er gott á Íslandi, mamma, í Ameríku eru allir alltaf að rífast í manni,“ sagði hún við mig.“

Bílslys og ofbeldi breytti öllu

Sandra var um fimmtán ára, ungur og efnilegur námsmaður með bjarta framtíð þegar hún missti tökin á lífinu og sökk á kaf í fíkniefnaneyslu. Magga telur að þar hafi tvö atvik skipt sköpum. Sandra hafði þá orðið fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi af hálfu manns sem var kvæntur frænku hennar. Áfallið og vanlíðanin í kjölfar þess áttu eftir að hafa langvarandi áhrif. „Síðar þetta sama ár lenti hún í alvarlegu bílslysi, þá var keyrt á hana og hún mjaðmarbrotnaði illa. Henni var ávísað mjög sterkum verkjalyfjum og varð fljótlega háð þeim. Ég vissi áður að hún hafði verið að fikta við áfengi en þarna byrjaði vandamálið fyrir alvöru, fyrst verkjalyf og svo harðari efni. Þegar hún var komin út í kókaínneyslu bað hún mig um hjálp og óskaði eftir að ég myndi senda hana eitthvert þar sem hún gæti fengið hjálp. Hún vissi það sjálf að vandamálið væri alvarlegt. Hún fór tvisvar í meðferð þetta ár en það dugði ekki til.“

Ekki er óalgengt að ungmenni sem leiðast út í neyslu og glæpi hafi sem börn verið greind með einhvers konar þroskaraskanir, hegðunarörðugleika eða námserfiðleika. Sú var ekki raunin með Söndru.

„Það voru aldrei nein vandræði. Henni gekk alltaf mjög vel í skóla, enda er hún afskaplega vel gefin og klár. Hún var forvitin og henni fannst skemmtilegt að grúska í hlutunum og vildi vita hvernig allt virkaði. Henni fannst til dæmis óskaplega gaman að taka í sundur hluti, eins og klukkur og tölvur, og setja síðan saman aftur. Skólinn samþykkti hana í sérstakt prógramm sem komið var á fyrir krakka sem voru klárir í tölvum þar sem þeim var kennt að byggja og búa til tölvur.

Ekki varð meira úr skólagöngu hjá Söndru eftir þetta og lenti hún að sögn Möggu á hrakhólum; fékk vinnu tímabundið á hinum og þessum stöðum en gekk illa að halda sér frá dópinu. „Á sumum vinnustöðum hérna úti þarf fólk að gangast undir eiturlyfjapróf til að fá að halda vinnunni og það stóðst hún auðvitað aldrei.“

Næstu árin tóku við fjölmargar fíkniefnameðferðir sem skiluðu litlu. Sandra sökk djúpt í kókaínneyslu. Hún átti eftir að leiðast út í afbrot meðfram neyslunni og hlaut nokkra styttri dóma fyrir smávægileg brot á borð við fíkniefnavörslu, búðarhnupl og hraðakstur. „Það var alltaf verið að taka hana fyrir eitthvað, en aldrei voru þetta þó alvarleg brot, engin ofbeldisbrot eða neitt þannig. Hún fór fyrst í fangelsi 22 ára og sat þá inni í sex mánuði. Henni var síðan hleypt út á ökklabandi og á þeim tíma kynntist hún barnsföður sínum. Þá tóku við nokkrir góðir mánuðir þar sem hún var edrú.“

Sonur Söndru, Rylan, kom síðan í heiminn árið 2011. Hann hefur reynst ömmu sinni og afa mikill gleðigjafi. Á tímabili leit loksins út fyrir að allt væri að ganga vel en þegar sonurinn var tíu mánaða, í nóvember 2011, féll Sandra á ný og í þetta sinn sökk hún eins djúpt ofan í hyldýpið og hugsast gat. Hún hafði hitt manninn sem hafði nauðgað henni. Það varð henni gjörsamlega um megn.

„Það bara fór með hana, það opnaðist fyrir einhverja gátt og það blossuðu upp allar gömlu og ljótu minningarnar. Hún réði einfaldlega ekki við þetta. Þarna leiddist hún út í þennan mikla viðbjóð sem heróín er, og það er eins og sagt er: það eru bara tvær leiðir út úr heróíni. Fangelsi eða dauði.“

Hún líkir því að eiga barn í neyslu við að ganga um á sprengjusvæði. „Á tímabili, þegar ástandið var hvað verst, vissum við aldrei hvenær næsta högg myndi koma. Því það var alltaf eitthvað að koma upp. Ég svaf varla á nóttunni og fór að verða hrædd við allt, ekki bara við að síminn myndi hringja og einhver færði manni hræðilegar fréttir, heldur við öll hljóð. Það var að vissu leyti fangelsi í sjálfu sér. Eins skelfilega illa og það hljómar þá er það að sumu leyti léttir að vita af henni í fangelsi, þar er að minnsta kosti fylgst með henni.

Magga segir það aldrei hafa hvarflað að sér að gefast upp á dóttur sinni. Hún tekur undir að aðeins þeir foreldrar sem raunverulega hafa þurft að horfa upp á börn sín í neyslu geti samsvarað sig við þessar tilfinningar. Aðrir eigi erfitt með að skilja hvernig hægt sé að halda út slíka þrautagöngu. „Þú vilt ekki gefast upp vegna þess að þú heldur alltaf að þú sért loksins komin með réttu lausnina sem mun bjarga barninu þínu. Það er bara þannig.“

Tvö rán á einum degi

Bandarískir fréttamiðlar greindu frá því þann 13. ágúst 2013 að ung kona hefði gengið inn í útibú banka í hafnarborginni Norfolk í Virginíu, krafið gjaldkerann um peninga og gefið í skyn að hún væri með vopn. Hún hafi flúið út með peningana þar sem 33 ára karlmaður beið fyrir utan á flóttabíl. Þau hefðu síðan keyrt yfir til Chesapeake-borgar og rænt þar annan banka á sama hátt. Umrædd kona var Sandra Sigrún. Bílstjórinn var heróínsalinn hennar, maður að nafni Duane P Goodson.

Síðla parts þennan sama dag hringdi eldri dóttur Möggu í hana og sagði henni að kveikja á sjónvarpinu. Þar blöstu við upptökur úr öryggismyndavélum bankans í Norfolk. Það var ekki um að villast hver var þar á ferð.

„Ég vissi þá hvar Sandra var því þennan dag átti hún bókaðan tíma hjá skilorðsfulltrúa í dómshúsi borgarinnar og pabbi hennar og strákurinn hennar voru þar með henni. Ég hringdi á lögregluna og sagði þeim einfaldlega: „Þetta er dóttir mín sem þið eruð að lýsa eftir. Þið verið að fara núna og ná henni áður en hún sleppur.“

Sandra hefur ætíð haldið því fram að pilturinn hafi þvingað hana til verknaðarins. Ekki er við annað að styðjast en hennar frásögn og segir Magga enga ástæðu til að draga það í efa. Hann hafði sem fyrr segir séð um að útvega Söndru heróín og segir Magga hann hafa haldið Söndru í heljargreipum, líkt og alkunna er með dópsala og langt leidda fíkla. „Hann var með það sem hún vildi fá og auðvitað notaði hann það óspart til að fá hana til að gera hitt og þetta.

Eftir því sem ég veit þá hringir hann í hana þennan dag og segir henni að hann þurfi á henni að halda í leiðangur og hún eigi að koma með honum. Hún var alltaf hrædd við hann og treysti honum ekki en lét þó undan. Þegar hún kemur út í bíl leggur hann byssu upp að eyranu á henni og segir við hana að ef hún geri ekki það sem hann segi þá muni hann drepa okkur og strákinn hennar.“

Magga hefur aldrei fengið að vita hversu há ránsupphæðin var. „Ég veit bara að hann tók allan peninginn og henti síðan í hana einhverjum 20 dollurum. Þegar lögreglan náði henni var hún ekki með neitt á sér. Hann náðist hins vegar annars staðar með allan peninginn og tvær byssur að auki.

Margir ákæruliðir

Mál Söndru og Goodson voru aðskilin fyrir dómi. Þau voru dæmd hvort í sínu lagi, án þess að aðild þeirra beggja kæmi við sögu. Var Sandra ákærð fyrir rán, samráð um að fremja rán, notkun skotvopns í glæpsamlegum tilgangi og skotvopnaeign í ólöglegum tilgangi – þó svo að hún hefði hvergi notast við skotvopn eða verið með það á sér. Ekki var dæmt í máli Goodson fyrr en eftir að dómur hafði fallið í málum Söndru. Þar játaði hann á sig allan verknaðinn; að hafa skipulagt ránið og keyrt bílinn. Það breytti engu fyrir mál Söndru sem var sakfelld fyrir alla ákæruliðina.
„Okkur var bara tjáð hvað eftir annað að hans mál hefði ekkert með hennar mál að gera af því að það hafði ekki verið dæmt í hans máli. Það hefði breytt heilmiklu ef það hefði verið gert. En hann var „innocent until proven quilty“.

Magga segir skipaðan verjanda Söndru hafa sýnt málinu lítinn áhuga og augljóslega talið málið tapað frá upphafi. Hún telur almennt viðhorf til eiturlyfjaneytenda í Bandaríkjunum hiklaust hafa spilað inn í meðferðina á máli Söndru. Þar séu fíklar óspart sviptir réttindum sínum.

„Það var eins og allt væri álitið lygi sem kom upp úr henni og hún fékk í raun aldrei neitt tækifæri á að verja sig, bæði vegna þess að hún var dópisti, og líka af því að hún var fangi. Þeir aðilar hafa engin réttindi. Það var augljóst að hann vildi bara ljúka þessu af sem fyrst. Okkur fannst hann ekki einu sinni reyna að halda uppi vörnum, heldur sagði hann bara að frásögn Söndru væri „bullshit“ sem enginn dómari myndi hlusta á. Það væri því tímaeyðsla að fara að halda því fram.

Seinna sagði starfsmaður annars bankans mér það að hann hefði aldrei verið hræddur við Söndru því hann trúði því aldrei að hún væri með vopn.“

37 ár – öskur og grátur

Sandra Sigrún í Bláa lóninu
Sandra Sigrún í Bláa lóninu

Þar sem um var að ræða tvö rán hvort í sinni sýslunni kom ekki annað til greina en að Sandra fengi tvo dóma, einn fyrir ránið í Norfolk og einn fyrir ránið í Chesapeake. Fyrir ránið í Norfolk var hún dæmd í 18,7 ára fangelsi.

„Þegar kom síðan að því að dæma fyrir ránið í Chesapeake nokkrum mánuðum síðar þá fékk hún annan verjanda sem var þó aðeins skárri en sá fyrri, hann reyndi þó allavega að vinna vinnuna sína. Hann reyndi að sannfæra dómara um að leyfa Söndru að sitja af sér báða dómana á sama tíma en það var ekki tekið í mál. Staðan var þannig að þarna voru tvær sýslur sem hvorug vildi gefa sig. „Hún skuldar okkur í Chesapeake alveg jafn mikið og ykkur í Norfolk“ var svarið sem við fengum,“ segir Magga því næst.

Hún segir að þegar fyrri dómurinn féll hafi áfallið að sjálfsögðu verið rosalegt en þau hafi að sumu leyti verið undir það búin. „Við bjuggumst allan tímann við því að hún fengi að afplána fyrir bæði ránin á þessum sautján árum þannig að við hugsuðum bara: „Ókei, við getum höndlað þetta.“ Og byrjuðum að sætta okkur við að hún myndi vera í burtu næstu sautján ár.“

Dómur féll að lokum í Chesapeake: önnur 18,7 ár í fangelsi. „Við þorðum auðvitað aldrei að vera bjartsýn. En okkur datt aldrei í hug að þetta yrði svona svakalega þungur dómur. Einstaklingar hafa fengið styttri dóma fyrir morð.“

Eftir að Sandra hafði verið dregin í burtu gátum við enn heyrt öskrin og grátinn í henni fyrir utan dómsalinn. Þetta voru þvílík skaðræðisöskur að það nísti inn að beini. Og maður var algjörlega vanmáttugur, við gátum ekkert gert. Við gengum út í leiðslu og mér fannst eins og ég væri frosin manneskja, algjörlega dofin. Ég grét ekki einu sinni. Fyrir utan hlupu fréttamenn upp að okkur en auðvitað gat ég ekki hugsað mér að segja neitt við þá.“

Í fangelsi með morðingjum og dópsölum

Elskar landið sitt
Elskar landið sitt

Síðan dómur féll hefur Sandra setið inni í Fluvanna Correctional Center for Women – ríkisreknu kvennafangelsi sem staðsett er í Troy, rúmlega 90 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Richmond. Þar eru hýstir á bilinu 3.500 til 5.000 kvenfangar sem hlotið hafa langtímadóma, sumar fyrir hrottalega glæpi á borð við morð og líkamsárásir. Á tímabili deildi Sandra klefa með ungri konu sem drap yfirmann sinn, skar líkið í búta og kveikti í. Fyrir þann verknað, sem hún framdi ásamt kærasta sínum, hlaut hún 17 ára dóm.

„Það eru tvær manneskjur í hverjum klefa, sem er læstur klukkan tíu á hverju kvöldi. Á daginn hafast þær við í dagstofu þar sem þær horfa á sjónvarpið og geta svo stundað einhverja vinnu. Sandra fékk starf við að þrífa klefana fyrir 30 sent á tímann. Hún hefur líka verið að stunda nám í rafvirkjun.“

Fangelsið rukkar fanga um leigu fyrir vistina, 30 dollara á mánuði, og þá þurfa fangarnir að greiða aukalega ef þeir vilja auka nærföt eða undirföt innan undir fangabúninginn. Allar nauðsynjavörur á borð við sápu og tannkrem þurfa fangarnir að greiða sjálfir dýru verði. Vinna í fangelsinu er af skornum skammti og þannig fékk Sandra aðeins 30 sent á tímann fyrir þrif á klefum. Hún þarf því að reiða sig á fjárstuðning utan frá.

Minna er um eiturlyfjaneyslu heldur en gengur og gerist almennt í fangelsum enda eftirlitið gífurlegt. Reglulega eru gerðar rassíur þar sem klefum er snúið við og leitað á öllum föngum. Sömuleiðis er föngum gert að berhátta sig eftir hverja heimsókn sem þeir fá og leitað á líkömum þeirra. Niðurlægingin er mikil.

Foreldrar Söndru reyna hvað þeir geta til að gera daga hennar í fangelsinu bærilega, enda lítil afþreying í boði önnur en sjónvarpsgláp. En þar inni kostar allt peninga „ Sandra er að eðlisfari afskaplega glettin og skemmtileg og hefur gaman af svo mörgu. Hún hefur unun af að teikna og mála þannig að við höfum sent henni peninga svo hún geti keypt tréliti og málningu og hún hefur teiknað mjög skemmtilegar myndir. Hún teiknar mikið á vasaklúta, þar sem hún fær ekki pappír.“

Magga segir fangaverðina misjafna í framkomu sinni við fangana, á meðan sumir komi fram við þá af virðingu séu aðrir sem leggi sig fram um að gera þeim lífið leitt. Hún segir viðhorf og framkomu fangavarðanna til fanganna að mestu leyti afar ómannúðlega. Þeir hiki ekki við að láta reiði sína og gremju bitna á föngunum. Sömuleiðis nýti þeir óspart tækifærið til að flagga valdi sínu.

„Þeir nýta það óspart að taka ýmiss konar réttindi af föngunum þegar þeir fá tækifæri til þess. Í nokkur skipti sem ég hef hringt og kvartað þá hefur það umsvifalaust verið látið bitna á henni.“

Niðurlægjandi heimsóknir

Hún segir fangaverði engu að síðar fara ljúfum orðum um Söndru, enda hafi hún reynst þægileg í samskiptum og lítið farið fyrir henni.

„Þeim finnst ótrúlegt að hún sitji inni fyrir þetta alvarlegt brot. Þeim finnst hún svo blíð og ljúf,“ segir hún og bætir við að þeir eiginleikar Söndru séu ef til vill nauðsynlegir þegar kemur að þeirri miklu stéttaskiptingu sem ríki meðal fanganna. Þar eru margar óskráðar reglur. „Það er alveg augljóst hverjir það eru sem ráða. Það er ekki svo mikið um líkamlegt ofbeldi af því að það kemst yfirleitt alltaf upp. En þeir sem ráða beita andlegri kúgun mjög óspart.

Sandra á rétt á því að fá þrjár manneskjur í heimsókn einu sinni í viku þar sem gestir og fangar sitja saman í nokkurs konar matsal og fangarnir klæðast sérstökum heimsóknarbúning, gallabuxum og skyrtu. Það er þó ekki hlaupið að því að heimsækja hana í fangelsið og kallar það á þriggja tíma keyrslu og heilmikið umstang, það er löng bið auk þess sem leitað er á öllum heimsóknargestum. Á leiðinni út tekur það sama við.

„Þetta er viss niðurlæging. Maður reynir að bera höfuðið hátt og gefa til kynna að maður skammist sín ekki fyrir að vera í þessum aðstæðum.“

Magga segir heimsóknirnar verða auðveldari með tímanum, þó svo að aðstæðurnar séu auðvitað alltaf jafn ömurlegar og niðurdrepandi. Þá sé viðhorf starfsmanna fangelsisins til aðstandenda oft á tíðum mjög niðrandi.

„Fólkið sem vinnur þarna lítur svakalega niður á mann. Þú getur séð það í andlitinu á þeim þegar það horfir á þig að það hugsar: „Hvernig barn ólst þú eiginlega upp?“ Þú ert bara skítur í þeirra augum.“

Kemur með að heimsækja mömmu

Rylan, fimm ára sonur Söndru, hefur búið hjá ömmu sinni og afa frá fæðingu. Hann kemur með að heimsækja mömmu sína í fangelsið og leikur sér þá á meðan. Fyrir honum eru heimsóknirnar skemmtilegar. Sandra hefur úr litlu að moða og í eitt skipti gaf Sandra syni sínum mynd sem hún teiknaði á servíettu.

„Hann þekkir auðvitað ekkert annað en að búa hjá ömmu og afa. Við höfum farið mjög lauslega í að útskýra fyrir honum af hverju mamma hans er þarna. Við höfum sagt honum að hún hafi gert hluti sem hún mátti ekki gera. Annars hefur hann í rauninni lítið spurt. Hann sér þetta bara þannig að mamma er þarna og hann býr hjá ömmu og afa. Í leikskólanum hans kalla krakkarnir mig mömmu hans og hann er ekkert að leiðrétta þau. Þau hafa aldrei spurt hann út í mömmu hans,“ segir Magga jafnframt en viðurkennir að vissulega kvíði hún því þegar Rylan verður eldri og fer að heyra sögur af mömmu sinni frá fólki úti í bæ, enda geti dómharka og fordómar fólks verið hreint viðurstyggileg.

„Við erum með svör ef hann spyr. En við ætlum ekki að setjast niður með honum að fyrra bragði og útskýra þetta fyrir honum.“

Sveiflukennd líðan

Magga segir andlega líðan Söndru í fangelsinu hafa verið afar sveiflukennda á þeim tíma sem hún hefur dvalið þar. Sama gildi um líkamlega líðan, enda líkami hennar illa farin eftir mörg ár af neyslu og sjálfsvígstilraunum. Þannig fái hún oft hjartabilun og veikindi í lungun. Ekki sé hlaupið að því að komast til læknis og oft taki marga mánuði að fá niðurstöður úr einföldum rannsóknum. Tvisvar sinnum hefur Sandra verið sett í einangrun eftir að hafa tjáð sig um sjálfsvígshugsanir. Þar eru fangarnir látnir klæðast engu öðru en þunnum pappírsslopp og mega ekki breiða annað yfir sig en pappír.

„Í annað skiptið var hún þar í tvær vikur, liggjandi á bekk í ísköldu herbergi á meðan manneskja góndi á hana allan daginn. Hún sagði við mig að þetta eitt og sér hefði verið nóg til þess að hana langaði að fremja sjálfsmorð.“

Henni líður þó ágætlega eins og er. En hún segist óska þess að hún væri dáin. Hún myndi segja það á hverjum degi, ég bara leyfi henni það ekki. Hún segir að ef hún hefði ekki lifað þá væri lífið auðveldara hjá okkur öllum.“

Fangelsismál á glapstigum

Skiljanlega verður Möggu mikið niðri fyrir þegar talið berst að bandaríska fangelsiskerfinu, sem þekkt er fyrir refsihörku og metfjölda afplánunarfanga. Hún segir bandarísk fangelsi ekki betrunarvist og ómögulegt sé að skilja hvað liggi að baki þeirri hugsun að loka einstaklinga inni í fjölda ára, niðurlægja þá og brjóta niður í stað þess að gera þá að nýtum þjóðfélagsþegnum.

„Fangelsin hérna úti eru í dag troðfull af fólki sem þarf fyrst og fremst hjálp og aðstoð. Það er fullt af fólki að deyja, ekki bara vegna sjálfsvíga heldur líka af því að læknisþjónustan er hörmuleg. Þetta eru veikir einstaklingar. Það getur ekki verið lausnin að loka fólk inni út ævina,“ segir hún og bætir við að óneitanlega hafi hún leitt hugann að því hvernig hlutirnir hefðu farið ef öðruvísi hefði verið tekið á málum Söndru, hún hefði fengið léttari dóm eða tækifæri til að gera eitthvað við líf sitt, enda eldklár og vel gefin. „En svona er fíknin sterk.“

Miskunnarlausir fordómar

Dómharka og fordómar fólks er eitthvað sem Magga og fjölskyldan hafa fengið að upplifa. Það hefur reynst þeim afar erfitt og segir Magga það sárt að sitja undir ásökunum fólks sem veit ekki baksögu Söndru. „Það hefur verið virkilega erfitt að hlusta á hvernig fólk talar um dóttur okkar og okkur fjölskylduna. En oft veit þetta fólk ekki hvað það er að tala um.“

Hún er meðvituð um álit annarra og veit að dóttir hennar framdi refsiverðan glæp. En fólk sem fer af beinu brautinni á samt sem áður rétt á grundvallarmannréttindum.

Mörg ár eftir – hrædd um son sinn

Nýlega kom í ljós að maðurinn sem var handtekinn ásamt Söndru í tengslum við ránin tvö hafði framið morð árið 2007. Þau vonast til þess að þær upplýsingar geti hugsanlega ýtt undir endurupptöku á máli Söndru og leitt til þess að þáttur Goodson í málinu verði tekinn til greina.

„Hún sagði það sjálf frá byrjun að hún hefði ekki þorað annað en að hlýða honum þar sem hann hefði verið hættulegur og hún óttaðist að hann myndi hreinlega drepa hana. Þannig að þessar upplýsingar gefa okkur smá von,“ segir Magga. Næsta skrefið er að finna lögfræðing, en þeir kosta sitt í Bandaríkjunum. Reynslulausn var afnumin í Virginíuríki árið 1995 og eiga fangar því ekki möguleika á að losna fyrr út vegna góðrar hegðunar. Það eru því ekki líkur á öðru en að Sandra muni sitja inni þar til hún er komin á sjötugsaldur.

„Hún er óskaplega hrædd við framtíðina. Hún er hrædd við að koma út aftur eftir mörg ár og þá verðum við ekki lengur hér og hvað verði þá orðið um strákinn hennar. Hún veit ekkert hverjir munu verða eftir sem hún getur leitað til, hvað þá að hún muni fá vinnu. Þegar hún losnar verður hún of fullorðin til þess að nokkuð verði hægt að gera fyrir hana. Þannig að þetta mun aldrei verða góður endir.“

Hvað er það erfiðasta við að eiga dóttur í fangelsi?

„Að hafa hana ekki dagsdaglega í lífi mínu. Að geta ekki varið hana þegar eitthvað kemur fyrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“