fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

„Fjölbreytileiki, ekki afbrigðileiki“

Íva Marín ætlar í druslugönguna – Fatlaðir stunda líka kynlíf

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. júlí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íva Marín Adrichem er ein kvennanna í Tabú sem berjast fyrir réttindum fatlaðra kvenna. Ég hitti Ívu heima hjá Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, þar sem undirbúningsfundur fyrir druslugönguna var í þann mund að hefjast.

„Þetta er fyrsta viðtalið sem ég fer í og foreldrar mínir þurfa ekki að samþykkja, ég varð átján ára í gær,“ segir Íva þegar við fáum okkur sæti við borðstofuborðið hennar Emblu. Á því er kaffikanna og alls konar kræsingar, og heilmikið af barmmerkjum sem til stendur að dreifa í druslugöngunni á laugardaginn.

Þegar Freyja Haraldsdóttir og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir stofnuðu Tabú fyrir tveimur árum, þekkti Íva þær lítillega í gegnum MPA-miðstöðina. „Ég heyrði um Tabú í gegnum netið og varð mjög fljótlega virk í starfinu.“

Fatlaðar konur jaðarsettar

Íva er í MH á félagsfræðibraut og tónlistarbraut, hún ætlar líklegast að útskrifast um jólin. Ég spyr hana hvort hún komi úr mikilli tónlistarfjölskyldu. „Foreldrar mínir eru miklir tónlistarunnendur og við fjölskyldan höfum alltaf verið dugleg að kynna alls konar tónlist hvert fyrir öðru. Þó má segja að minn klassíski tónlistarsmekkur sé sjálfsprottinn.“

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Íva verið virk í femínískum pælingum og aktívisma um nokkurra ára skeið. Hún hefur sömuleiðis kynnt sér það sem á undan er gengið. „Ég hef reynt að taka áfanga í skólanum sem tengjast femínisma. Til dæmis kynjafræðiáfanga, sem reyndar bara stelpur sátu, og svo ætla ég að taka femínískan bókmenntaáfanga í haust.

Í kynjafræðinni horfðum við til dæmis á myndina Konur á rauðum sokkum, sem fjallar um jafnréttisbyltinguna í kringum 1970. Mér finnst við vera komin miklu lengra núna, því núna er fókusinn ekki bara á hvítar, ófatlaðar, gagnkynhneigðar ciskonur sem tilheyra millistétt, heldur er pláss fyrir fleiri. Gott dæmi eru fatlaðar konur, sem hafa verið sérstaklega jaðarsettar í umræðu um bæði réttindi og ofbeldi.“

Fórnarlambsvæðingin neikvæð

Íva segist ekki alin upp í grjóthörðum femínisma, en að foreldrar hennar séu jafnréttissinnaðir. „Mamma talar oft um fórnarlambsvæðinguna sem neikvæða hlið réttindabaráttunnar. Það þarf svo lítið til nú til dags, og margir komast upp með ýmislegt vegna aumingjagæsku annarra. Ég er sammála mömmu að miklu leyti. Í skólanum mínum, MH, er til dæmis hægt að mæta með ákveðna tegund af vottorði og fá helming fjarvista felldan niður. Mér finnst fólk oft ansi gjarnt á að nota svona lausnir í stað þess að hunskast til að læra og gera það sem á að gera í skólanum. Það eru gefnir endalausir sénsar og fólk nær ekki að tengja orsök og afleiðingu.“

Íva hefur verið virk í réttindabaráttu fatlaðra um nokkurt skeið þrátt fyrir að vera nýorðin 18 ára.
Baráttukona Íva hefur verið virk í réttindabaráttu fatlaðra um nokkurt skeið þrátt fyrir að vera nýorðin 18 ára.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Saklausa, blinda stúlkan

Íva var heppin með kynfræðsluna sem hún fékk í grunnskóla. „Það er samt ákveðin tregða við að líta á fatlaða einstaklinga sem fullgildar manneskjur. Ég man eftir því að í 6. eða 7. bekk átti ég vin, og við lékum okkur að því að kyssast í frímínútum til að ögra umhverfinu. Kennarinn okkar kom allri ábyrgðinni á hann – en ég var algjörlega jafnábyrg. Blinda, góða stúlkan gat auðvitað ekki verið annað en blásaklaus. Ég held að svona viðhorf valdi því oft að fatlaðir krakkar fara að stunda áhættuhegðun til að gera uppreisn.“

Fatlaðir eru kynverur

Á laugardaginn munu Tabúkonur ganga í druslugöngunni til að vekja athygli á þeirri staðreynd að fatlaðar konur eru mjög útsettar fyrir ofbeldi. „Við þurfum að vera sýnilegar, skrifa greinar, taka þátt í umfjöllun. Aðeins með því móti fáum við samfélagið til að opna augun fyrir vandanum. Þrjár af hverjum fjórum fötluðum konum verða fyrir kynferðisofbeldi einhvern tíma um ævina. Það er fáránlega há prósenta. Við erum því miður ekki enn á þeim stað að það sé viðurkennt að tala um þessa staðreynd. Það er eins og mörgum þyki óþægilegt að horfast í augu við þá staðreynd að fatlaðir eru líka kynverur. Ég hef bara enga þolinmæði fyrir þannig afsökunum. Ef maður getur talað um sitt kynlíf á fullu, er ekkert sem afsakar að hann loki augunum fyrir kynlífi fatlaðra.

Við sáum að áður en umræða opnaðist um kynferðisofbeldi þurfti samfélagið fyrst að opna umræðu um kynlíf almennt. Ég held að það sama gildi um kynlíf fatlaðra – fyrst þurfum við að fá samfélagið til að viðurkenna að fatlaðir séu kynverur og stundi kynlíf, svo verður það reiðubúið að horfast í augu við staðreyndir um ofbeldi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona geturðu skoðað Reykjavík í þrívídd