Fjölmiðlamaðurinn og ritstjóri Nútímans Atli Fannar Bjarkason veitir því gjarnan athygli á samfélagsmiðlum að íslensk umræða og atburðir hér virðast endurtaka sig, með reglulegu millibili. Hann greindi frá því á Twitter um helgina að árið 2016 væri farið að líkjast árinu 2008 talsvert mikið. Má þar nefna að árið 2008 náði Ísland stórkostlegum árangri á stórmóti í íþróttum, þjóðin tók í kjölfarið á móti liðinu í 101 og svo var ísbjörn sem villtist hingað skotinn.
Atli bætir því reyndar við að Geir Haarde hafi beðið Guð að blessa Ísland í október 2008 í tengslum við íslenska efnahagshrunið, en árið er auðvitað ekki úti enn.