Páll Magnússon íhugar að bjóða sig fram til þings í næstu kosningum. Þetta kemur fram í viðtali sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók við hann. Í viðtalinu er víða komið við, rætt um viðskilnað hans við RÚV, heimildamyndagerð, ný verkefni hans í útvarpi og einnig um pólitík og andrúmsloftið í íslensku samfélagi.
Páll varð útvarpsstjóri RÚV árið 2005 en í desember 2013, eftir erfiðar niðurskurðaraðgerðir, lét hann af störfum. Hann gaf þá ástæðu að hann nyti ekki lengur nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins til að gegna stöðunni áfram með árangursríkum hætti á erfiðum tímum.
Hann er spurður um þennan tíma og segir: „Nú er talsvert um liðið og ég eyði ekki mikilli orku í að hugsa um þessa hluti. Þetta er eins og annað, þetta var verkefni og því lauk. Það er ekkert harmsefni heldur bara ágætt því ég hef síðan þá getað einbeitt mér að því sem mér finnst skemmtilegt. Hins vegar fannst mér leiðinlegt að þessu skeiði skyldi þurfa að ljúka með þeim ómerkilegheitum og undirmálum sem lágu þarna að baki. En ég er ekkert að ergja mig á því lengur.“
Hvaða ómerkilegheit voru þetta?
„Þau fólust fyrst og fremst í því að meirihluti stjórnarinnar ákvað, reyndar með menntamálaráðherrann í fararbroddi, að flýja frá eigin ákvörðunum og skilja aðra eftir með þær í fanginu. Alþingi ákvað að skera útgjöld RÚV niður um 600 milljónir og af því leiddi auðvitað talsverð fækkun starfsmanna því stærstur hlutinn af breytilegum kostnaði við rekstur RÚV eru vinnulaun. Stjórnin tók endanlega ákvörðun um hvernig þetta yrði gert og útvarpsstjóranum auðvitað falið að sjá um framkvæmdina. Farið var í þessar erfiðu aðgerðir en við fyrsta andstreymi brast flesta stjórnarmenn kjarkur. Þeir lögðu á harðaflótta frá eigin ákvörðunum og fyrst sá undir iljarnar á menntamálaráðherranum.“
Hefurðu einhvern tíma rætt við þetta fólk um þessa framkomu?
„Nei, og ég ætla ekki að gera það. Svona fór þetta bara og ég er löngu hættur að láta þetta bögglast fyrir mér. Þegar þetta gerðist fannst mér ómerkilegheitin og hugleysið ná út yfir allan þjófabálk en núna er þetta bara eins og hvert annað atvik í lífinu og ekki í flokki með þeim merkilegri.“