„Við könnumst öll við hneykslunarpósta á samfélagsmiðlum með myndum af glataðri æsku okkar daga, a.k.a. niðursokknum börnum með nefið ofan í snjallsíma við hliðina á myndum af rjóðum barnahópi úti að leika í „gömlu góðu dagana“,“ segir Lára Björg Björnsdóttir í pistli á Kjarnanum. Þar deilir Lára Björg á neikvæðni gagnvart nútímalifnaði og tækninýjum í daglega lífinu sem hafa létt okkar störf.
Pistlar og greinar þar sem deilt er á tækninýjungar og að æska nútímans sé ofvernduð hafa oft vakið athygli. Ekki er langt síðan að Óttar Guðmundsson skrifaði slíkan pistil í Stundina sem fór með himinskautum og margir sem deildu í kommentakerfum þar á hina ómögulegu æsku dagsins í dag og hvað allt var betra í gamla daga. Tekur Lára Björg þetta meðal annars fyrir í pistli sínum og er afar ósammála Óttari. Þar segist hún lífið í gamla daga hafa verið rugl og lofar daginn sem Guð á himnum fann upp snjallsímann.
„Í alvörunni? Var allt svona fullkomið í gamla daga? Voru allir svo fróðir að lesa bækur í stað þess að glápa á youtube? Var alltaf gott veður og allir úti allan daginn? Svo mikið frjálsræði og allt svo miklu betra þá, annað en í dag? Einmitt það. Þessa nostalgíuáróðursvitleysu verður að stöðva.“
Lára segir að án aðgangs að internetinu hafi ýmis konar misskilningur átt sér stað og börn alist upp innan um misvitlaust fólk. Eina vonin var að hitta gáfaða frænku eða frænda í fermingarveislu og svo síðar í stúdentaveislu. Þess á milli hafi hún villst í óupplýstri þoku fáfræðinnar.
„Og öryggið? Frjálsræðið og sakleysið í gömlu góðu dagana? Skemmtilegu leikirnir úti í götu fram á kvöld? Eigum við ekki að taka smá real talk hérna og kalla þetta það sem þetta var: „Miðaldir“. Allir í bekknum mínum áttu heimasmíðuð vopn og maður minn, þau voru notuð. Krakkar gengu um með grjót í vösum, snjóboltar voru bleyttir og frystir, naglar negldir í spýtur, táragasi var sprautað inn í kennslustofur og baunabyssur voru hlaðnar fyrir venjulegan handavinnutíma á miðvikudagsmorgni,“ segir Lára og bætir við:
„Á meðan býsnast er yfir bardagatölvuleikjunum í dag gleymist að á miðöldum tókum við þátt í einum slíkum í raunheimum frá því við vorum fjögurra ára og upp í fimmtán ára. Leiksvæði okkar voru steyptir húsagrunnar og hopp ofan af annarri hæð ofan í snjóskafla og steypustyrktarjárn. Ég lá beinbrotin í heilan dag eftir frímínútur í sjö ára bekk vegna þess að ekki náðist í foreldrana. Og var látin ganga heim af spítalanum með volgt gifsið í rigningu. Og myrkri.“
Þá spyr Lára:
„Annað: Ef heimur fer svona mikið versnandi hví mælist þá miklu minni drykkja og reykingar hjá unglingum í dag? Þeir sem halda því fram að í gamla daga hafi börn bara hlaupið beint út í skóg að leika allan daginn eiga að come clean hérna: Það var farið út í skóg að fokking reykja og drekka spíra á sunnudagseftirmiðdegi. Búmm.“
Lára segir að börn sem séu niðursokkin í síma séu oftar enn ekki að gúggla hluti. Þau séu ekki endilega að leggja börn í einelti. Börn í dag standi foreldrum sínum langtum framar:
„Við fullorðna fólkið sjáum um meirihlutann af því með virkum í athugasemdum og þegar pistlar á borð við þennan eru dissaðir. Börnin okkar aftur á móti eru að lesa allskonar fróðleik á netinu. Ekki að horfa á kattamyndbönd eins og við vegna þess að heilar okkar eru skemmdir eftir of mikla landadrykkju, límsniff og vosbúð í æsku.“
Hér má lesa pistil Láru á Kjaranum í heild sinni