Þjóðhátíð þungarokkarans, Eistnaflug, fer nú fram á Neskaupsstað í tólfta sinn. Hátíðin hefur verið haldin aðra helgina í júlí frá árinu 2004. Hátíðin í ár hefur aldrei verið jafn glæsileg og er ein stærsta tónlistarhátíð sem haldin hefur verið hérlendis. Hátíðin stendur yfir frá 6 til 9 júlí.
Stærstu hljómsveitirnar í ár eru Meshuggah og Opeth frá Svíþjóð. Stærstu íslensku böndin er sveitir á borð við Sólstafi, Dimmu, Agent Fresco, HAM, Ensími, The Vintage Caravan og Misþyrmingu.
Í dag stíga helstu rokksveitirnar á svið. Kontinuum, Sólstafir, Dimma og The Vintage Caravan eru meðal þeirra sveita sem rokka fyrir gesti í dag og í kvöld.
Stefán Magnússon framkvæmdastjóri og stofnandi Eistnaflugs var í viðtali við DV á dögunum og greindi frá því að í fyrsta sinn væru börn einnig velkomin á hátíðina í fylgd með fullorðnum. En yngri rokkunnendur hafa áður þurft frá að hverfa út af ströngum reglum, en í ár er breyting á.
„Við erum svo ofboðslega ánægð með að tilkynna að börn eru innilega velkomin á flottustu rokkhátíð Íslands í fylgd með forráðamönnum! 12 ára og yngri fá frítt inn. Ungir sem aldnir eru velkomnir á Eistnaflug. Þetta verður óendanlega fallegt!“
Stefán kveðst í skýjunum með hátíðina og segir á Facebook:
„Fyrir ykkur sem viljið þyngri pakka þá spila hljómsveitirnar Belphegor, Sails Of Deceit, Defeated, Bootlegs, Celestine (Iceland) Mannveira at Eistnaflug 2016 Grit Teeth allar líka á föstudeginum,“ segir Stefán og bendir á að einnig sé hægt að fá dagspassa á hátíðina. „Rúsínan í pylsuendanum er kl. 2:25 í Egilsbúð en þá spilar Perturbator sem er rosalegt electró partý og það verður ekkert lítið dansað þar. Sjáumst hress og kát og skemmtið ykkur fallega!“