Didda skáldkona hefur gert dyraat hjá dauðanum – Lenti í alvarlegu slysi á barnsaldri – Fékk rangar greiningar og lyfjaeitrun – Pönkari, nektarmódel og verðlaunaleikkona
Sigurlaug Didda Jónsdóttir er þúsundþjalasmiður: Eddu-verðlaunaleikkona, menntuð töskugerðarkona, fyrrverandi ruslakona, nektarmódel, starfsmaður á Grund og uppvaskari – en umfram allt skáld. Undanfarin ár hefur Didda glímt við erfið veikindi, að hluta til vegna rangra greininga og alvarlegrar lyfjaeitrunar. Hún segist þó telja rót veikindanna liggja mun dýpra, í slysi sem hún lenti í á barnsaldri en var aldrei tekist á við. Hér fyrir neðan birtist brot úr viðtali Kristjáns Guðjónssonar við Diddu.
Það rifnaði hér magi, árið 2010, bara eins og garðslanga.
„Undanfarin sex ár hef ég verið ofsalega upptekin af því að drepast ekki. Það er náttúrlega ákveðið námskeið,“ segir Didda og hlær.
„Það rifnaði hér magi, árið 2010, bara eins og garðslanga,“ segir hún blátt áfram.
„Þarna hófst í rauninni niðurlægingarferill sem hefur staðið yfir síðustu sex ár. Ég lenti á götunni og ég hefði í raun ekki lifað þetta af ef ég hefði ekki verið svo heppin að hitta hverja mannperluna á fætur annarri sem hjálpaði mér,“ segir hún.
Veikindin hafa orðið þrálát meðal annars vegna ólíkra og fjölbreyttra greininga og alvarlegrar lyfjaeitrunar sem Didda fékk vegna gigtarlyfja, sem hún var látin taka að óþörfu að eigin sögn. „Húðin harðnaði öll. Ég fór í algjöra vöðvaspennutruflun, fékk krampa og fleira. En mér leið svolítið eins og þeir hefðu ekki lesið bókina,“ segir Didda um læknana.
Hún hætti samstundis á lyfjunum og hægt en örugglega tók hún að braggast. Í kjölfarið fór hún að taka sjálfa sig í gegn, kynna sér virkni líkamans og vera sinn eigin læknir.
Eftir ítarlega sjálfsskoðun komst hún að þeirri niðurstöðu að hún hefði alla ævi verið að takast á við afleiðingar slyss sem hún lenti í á barnsaldri – og nú finnst henni svo margt í fari sínu skýrast af meiðslunum sem hún hlaut þá.