Lestu sprenghlægilegt bréf Venna til Arons Einars
Venni Páer, sem júdókappinn Vernharð Þorleifsson túlkaði í samnefndum sjónvarpsþáttum skrifar opið bréf til landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar vegna leiks Íslands og Frakklands í 8-liða úrslitum Evrópumótsins.
Venni birti meðfylgjandi færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer þess á leit að Aron beiti sannfæringarkrafti sínum og semji við Frakkana um 1-0 sigur íslands.
Bréfið kostulega má lesa hér að neðan:
„Enn og aftur bið ég ykkur um að koma skilaboðum áleiðis fyrir mig. Í þetta skiptið til Arons Einars Gunnarssonar.
Sæll Aron. Ég skrifa þér þar sem þú ábyrgðaraðili drengjanna í liðinu og átt sem slíkur að fá öll mikilvæg skilaboð fyrstur manna. Þar sem við erum báðir leiðtogar ættum við að skilja hvorn annan og því ætla ég ekki að flækja hlutina heldur vinda mér beint að efninu og tala hreint út án málalenginga eða útúrsnúninga sem mér hættir stundum til að gera þegar mikið liggur undir eða jafnvel þegar ekki svo mikið liggur undir og ég festist bara í einhverri langri setningu sem ég á erfitt með að koma mér útúr á eðlilegan hátt.
En hlustaðu nú Aron. Fyrir hvern leik þarf að finna réttu leiðina að sál andstæðingsins. Frakkar eru í eðli sínu samningamenn og satt best að segja ekki þeir sleipustu á svellinu. Í krafti þess að við íslendingar höfum á okkur það orðspor að við séum Víkingar (skeggið þitt hefur ekki dregið mikið úr þeirri ásýnd) legg ég til að þú sem fyrirliði bjóðir franska liðinu að leggja niður vopn og að samið verði um 1-0 sigur Íslands gegn því drengskaparheiti að þið þyrmið þeim við frekari skaða og niðurlægingu. Með þessum málalokum ættu nánast allir að geta gengið sáttir frá borði og þið strákarnir fengið nokkra auka hvíldardaga fyrir undanúrslitaleikinn. Verði það Þjóðverjar sem við mætum þar þá get ég ekki lofað því að þessi sama taktík virki því orðið uppgjöf er ekki til í þýsku, það er eitthvað annað orð sem ég man ekki.
En endilega leyfðu mér að heyra hvernig þetta leggst í Frakkana því ef þetta gengur ekki þá getum við skoðað lagalegar forsemdur þess að Ísland fái undanþágu fyrir útköstum í stað útsparka, og þar kæmir þú sterkur inn.
Kveðja Venni Páer“