fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Eliza verður forsetafrú Íslands: „Hann er vonlaus í að elda mat, en straujar til dæmis allt sem þarf að strauja“

Viðtal við Elizu Reid, eiginkonu Guðna Th. Jóhannessonar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. júní 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eliza Reid er að fara að flytja á Bessastaði. Hún er eiginkona Guðna Th. Jóhannessonar, nýkjörins forseta Íslands. Ragnheiður Eiríksdóttir skrapp í heimsókn til hjónanna að morgni sunnudagsins 26. júní, þáði ljómandi góðan kaffibolla og spjallaði við Elizu um nýja hlutverkið sem hún á í vændum. Nóttina eftir flugu hjónin til Frakklands til að horfa á leik Íslands og Englands á EM.

Á Tjarnarstígnum eru útsendingarbílar RÚV að koma sér fyrir þegar mig ber að garði. Dyrnar á húsi númer 11 standa upp á gátt og rödd nýja forsetans berst út í regnvotan sumardaginn. Ég læðist inn og hitti fyrir hina kanadísku Liz, frænku Elizu, í eldhúsinu. „Ég kom til að aðstoða þau,“ útskýrir hún fyrir mér. Guðni situr í stofunni prúðbúinn innan um blóm og er að ljúka viðtali við annað dagblað, á borðstofuborðinu er ein stærsta súkkulaðikaka sem ég hef séð og veggina prýðir fjöldi mynda af fjölskyldunni. Eliza tekur á móti mér brosandi og ég gef henni hamingjuóskaknús. Svo lagar hún fyrir mig kaffi í appelsínugulan múmínbolla og við fáum okkur sæti í stofunni. Ég byrja á að spyrja Elizu hvernig henni líður.

„Mér líður mjög vel. Þetta er svolítið eins og að fæða barn, konur skilja tilfinninguna. Maður er ofsalega glaður og þreyttur á sama tíma, og eitthvað alveg glænýtt og óþekkt er að byrja. Einhver óviss en falleg framtíð.“

Skömmu eftir að myndin var tekin fylltist garðurinn af fólki sem hyllti nýja forsetann og fjölskyldu hans.
Á svölunum Skömmu eftir að myndin var tekin fylltist garðurinn af fólki sem hyllti nýja forsetann og fjölskyldu hans.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Engar efasemdir

Fyrstu kannanir sýndu brjálæðislegt fylgi – voruð þið sigurviss allan tímann?
„Þegar við byrjuðum að skoða möguleikann á framboði vildi Guðni ekki bjóða sig fram nema eiga góða möguleika á sigri. Hann bauð sig fram til að vinna, eins og allir hinir væntanlega. Frá fyrstu skoðanakönnunum hafði hann forskot, en við bjuggumst alltaf við að þær tölur mundu lækka. Hann stóð sig vel í baráttunni, fólki líkaði tónninn hans. Ég vissi að hann gæti orðið frábær forseti, og svo kom í ljós að ansi margir voru sammála því.“

Hamingjuóskum rigndi yfir nýju forsetahjónin.
Blómin streymdu að Hamingjuóskum rigndi yfir nýju forsetahjónin.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Varstu einhvern tímann efins, læddist sú hugsun einhvern tímann að þér að ákvörðunin hefði verið röng?
„Nei, aldrei nokkurn tíma. Stundum finnur maður svo sterkt fyrir því að eitthvað sé rétt, og þetta var eitt af þeim skiptum. Við höfðum engu að tapa. Ef Guðni hefði ekki unnið hefðum við bara snúið aftur til okkar starfa og haldið lífinu áfram með skemmtilega reynslu að baki.“

Vann Guðna í happadrætti

Eliza er fædd og uppalin í Ottawa, höfuðborg Kanada, hjá foreldrum sínum með tveimur yngri bræðrum. „Reyndar ólst ég upp á bóndabæ, foreldrar mínir eru áhugabændur og eiga til dæmis íslenskar kindur, hænur og endur. Pabbi er kennari og mamma húsmóðir. Annar bróðir minn er verkfræðingur og hinn er rithöfundur. Ég er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Toronto, og þegar ég var 22 ára flutti ég til Bretlands til að fara í meistaranám við Oxford-háskóla í nútímasögu. Þar kynntist ég Guðna.“

Guðni og Eliza voru bæði í róðrarliðum skólans og höfðu hist í tengslum við það. Henni þótti Íslendingurinn spennandi og langaði að kynnast honum betur. Tækifærið fékk hún svo þegar lið Guðna skipulagði fjáröflun sem fór þannig fram að nöfn allra strákanna í liðinu voru skrifuð á bolla og svo gat hver sem er keypt miða, skrifað nafnið sitt á hann og sett í bolla þess sem vakti mesta áhugann. Svo var einn miði dreginn úr hverjum bolla, og sú heppna fékk stefnumót með róðrarpiltinum.

„Ég keypti 10 miða og setti átta af þeim í bollann hans Guðna, til að virka ekki eins og eltihrellir. Að sjálfsögðu voru líkurnar mér í hag, mitt nafn var dregið, og daginn eftir bauð Guðni mér út að borða á ítalskan veitingastað í þríréttaða máltíð. Mér fannst það alveg meiriháttar því flest hin stefnumótin voru á skyndibitastaði, og 22 ára háskólastúlkan var ekki beint vön svona fíneríi.

Guðni var þrítugur þarna og ég man svo vel eftir því að þegar ég hitti hann fyrst í partíi þá hugsaði ég, „Vá, þú ert þrítugur, og það er komið miðnætti og þú ert að djamma.“ Ég hélt að gamalt fólk færi hreinlega ekki í partí.“

Fyrsta stefnumótið átti sér stað 1998, en Guðni og Eliza fluttu til Íslands 2003 og hafa búið hér allar götur síðan. „Ég vann fyrsta árið hjá hugbúnaðarfyrirtæki, en stjórnarformaður þess var einmitt Halla Tómasdóttir, svo við höfum þekkst lengi. Ég man svo vel eftir því að hún var nýbúin að eignast barn og var með það á brjósti á fundum – mér fannst það ótrúlega svalt. Eftir þetta fór ég að vinna við skrif, lengst af fyrir Iceland Review og Grapevine, en síðustu árin hafa að mestu farið í Iceland Writers Retreat, sem er árleg, alþjóðleg vinnusmiðja fyrir rithöfunda, og að ritstýra blaðinu Icelandair sem dreift er í flugvélarnar. Núna þarf ég að endurskoða þetta allt, að minnsta kosti næstu fjögur árin.“

Eliza og Guðni voru við háskólanám þegar þau kynntust.
Kynntust í Bretlandi Eliza og Guðni voru við háskólanám þegar þau kynntust.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Störf og skyldur

Já, hvernig er það, eru einhver laun fyrir að vera forsetafrú og máttu halda þínu striki í vinnu?
„Mig langar mikið að halda áfram vinnunni við Iceland Writers Retreat, enda held ég að það verkefni falli vel að því sem forsetaembættið stendur fyrir. Það byggir á bókmenntaarfleifð Íslands og ég hef nú þegar haldið fjölmarga fyrirlestra um hana í Bandaríkjunum og víðar. Annað þarf ég að endurskoða. Ég held til dæmis að það sé ekki viðeigandi að forsetafrú þiggi laun frá einkareknum fyrirtækjum. Það er mikilvægt að misnota ekki stöðu sína, og þetta þarf að íhuga vandlega.“

Eliza fræðir mig um að það séu engin laun greidd til forsetafrúar. „Við munum missa aðra tekjulindina. En auðvitað þénar forseti meira en dósent við Háskóla Íslands, svo það er alls ekki áhyggjuefni. Ég er mjög spennt fyrir þeim verkefnum sem ég mun geta sinnt sem forsetafrú, til dæmis eru málefni innflytjenda mér hugleikin. Ég er sjálf innflytjandi og mín saga er lík sögu margra innflytjenda, en á sama tíma ólík sögu annarra. Annað málefni sem mig langar að sinna er sjálfboðastarf nemenda á sjúkrahúsum. Í Kanada var ég í forsvari fyrir þannig verkefni og mig langar að nota þá reynslu til að koma einhverju til leiðar hér.“

Slökun og svo skipulag

Fjölskyldan mun flytja úr krúttlega húsinu á Seltjarnarnesinu í hvítt hús með rauðu þaki á nesinu hinum megin við sjóinn. „Það verður talsverð breyting fyrir fjölskylduna, börnin byrja í nýjum skólum og svoleiðis, þannig að ég býst við því að minn tími fari að mestu í það verkefni á næstunni. Ég býst við að við leigjum húsið okkar út. Við höfum reyndar viljandi reynt að hugsa ekki lengra fram í tímann en að 25. júní. Akkúrat núna erum við í sjöunda himni og sigurvímu. Við fljúgum til Nice í nótt og förum á fótboltaleikinn, svo komum við heim og finnum tíma til að slaka á með börnunum, helst úti á landi í sumarbústað með heitum potti – en eftir það þurfum við að skipuleggja næstu skref.“

Börn Guðna og Elizu eru fjögur, Duncan Tind­ur (f. 2007), Don­ald Gunn­ar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Mar­grét (f. 2013). Að auki á Guðni dótt­ur­ina Rut (f. 1994) með fyrri eig­in­konu sinni. Yngra hollið flytur nú inn á Bessastaði. Hvernig skyldu krakkarnir hafa tekið framboðsbrölti foreldranna?

„Þau eru voða spennt og stolt af pabba sínum. Þau yngstu átta sig kannski ekki alveg á hvað er að gerast. Við reyndum líka að ræða þetta við þau á frekar almennum nótum, en nú förum við smám saman að búa þau undir breytingarnar sem eru í vændum. Það er samt ekki eins og við séum að flytja milli landa, þau geta haldið áfram að leika við sömu vinina, og ég er viss um að þau komi til með að njóta tímans á Álftanesinu. Okkur Guðna finnst þetta líka tækifæri til að sýna heiminum að Ísland er fjölskylduvænt, og að hægt sé að verða forseti og á sama tíma uppfylla skyldur sínar sem foreldri margra barna.“

Skömmu eftir að myndin var tekin fylltist garðurinn af fólki sem hyllti nýja forsetann og fjölskyldu hans.
Á svölunum Skömmu eftir að myndin var tekin fylltist garðurinn af fólki sem hyllti nýja forsetann og fjölskyldu hans.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sannur, hugulsamur og skemmtilegur

En Eliza, hvernig eiginmaður er Guðni?
„Hann er frábær eiginmaður og pabbi. Hann er sannur og hugulsamur og skemmtilegur og með gott viðhorf til lífsins. Við erum ólík en náum góðu jafnvægi saman. Þegar ég er stressuð nær hann að róa mig, og þá sjaldan hann verður fúll og einrænn næ ég að draga hann aftur út úr skelinni. Við höfum alltaf skipt með okkur húsverkunum. Hann er vonlaus í að elda mat, en straujar til dæmis allt sem þarf að strauja. Börnin upplifðu ansi mikla breytingu á meðan kosningabaráttan stóð yfir, enda er hann vanur að vera alltaf heima milli klukkan 17.00 og háttatíma, en var það auðvitað ekki á þessu tímabili.“

Vildi gjarna hitta Trudeau

Skyldur forseta fela til að mynda í sér að fara í opinberar heimsóknir til þjóðhöfðingja víða um heim. Hvernig tilfinning ætli það sé að eiga möguleika á að fara í Hvíta húsið,?
„Auðvitað mun ég sinna verkefnum og skyldum við hlið Guðna. Ég er ekki búin að leiða hugann að Bandaríkjunum frekar en öðrum löndum. Þó hef ég á tilfinningunni að Ísland verði kannski ekki efst á boðslistanum þegar kemur að opinberum heimsóknum. Mér finnst bara ótrúlega spennandi að fá að ferðast og hitta alls konar fólk. Ég er líka mjög fegin því að pabbi kenndi mér fyrir löngu að halda rétt á hnífapörum.“

Hvenær kemur Justin Trudeau í opinbera heimsókn?
„Ég hreinlega veit það ekki. Hann er auðvitað ekki þjóðhöfðingi Kanada, heldur forsætisráðherra, þannig að það er frekar á valdi ríkisstjórnarinnar að bjóða honum í heimsókn. En ég vona svo sannarlega að ég fái að hitta hann ef hann kemur.“

Varðist árásum

Á köflum varð kosningabaráttan hörð, og þar sem Guðni hafði forystu í öllum könnunum stóðu spjótin á honum.

„Við bjuggumst alveg við að einhverjar árásir yrðu gerðar. Auðvitað er Guðni ekki pólitíkus og því ekki með reynslu af þannig samskiptum. Hann er bara með svo mikið jafnaðargeð og gekk þess vegna vel að halda ró sinni á meðan þetta gekk yfir. Hann missti ekki kúlið og svaraði af kurteisi án þess að fara niður á sama plan. Ég er mjög stolt af honum fyrir það. Það reynir auðvitað á þolrifin þegar fólk reynir að rangtúlka orð manns, eða slíta þau úr samhengi en mér fannst hann gera þetta vel. Okkur fannst líka greinilegt að íslenskir kjósendur höfðu engan áhuga á neikvæðri kosningabaráttu. Stundum er ég fegin að íslenskan mín sé ekki fullkomin. Ég les íslensku til að mynda mjög hægt, og sleppi því alveg að fylgjast með kommentakerfum. Ef ég byrja að lesa eitthvað sem lítur út fyrir að vera í neikvæðum tón get ég bara hætt, ég fer að minnsta kosti ekki að nota tíma minn í að Google-þýða neikvæð lýsingarorð.“

Áhugi kanadískra fjölmiðla á Elizu og Guðna hefur verið mikill síðan kosningabaráttan hófst. „Þeir hafa fylgst vel með okkur, rétt eins og íslenskir miðlar mundu gera ef Íslendingur væri í sömu stöðu erlendis. Vinir mínir og fjölskylda í Kanada eru auðvitað búin að vera mjög spennt líka. Foreldrar mínir eru staddir hér núna og hafa hjálpað til með börnin, frænka mín kom líka til að styðja okkur, og þau eru öll mjög stolt og spennt fyrir þessu.“

Hamingjuóskum rigndi yfir nýju forsetahjónin.
Blómin streymdu að Hamingjuóskum rigndi yfir nýju forsetahjónin.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Já, það er óvenjulegt fyrir alþýðlegt háskólafólk að vera í þeirri stöðu sem Eliza og Guðni eru í þennan morguninn. Hvað skyldi hafa verið óvenjulegast?
„Hingað streymir fólk með blómvendi, það er skrýtið. Svo er garðurinn minn fullur af sjónvarpsfólki að setja upp vélar, það er vægast sagt óvenjulegt. Það var fleira sem kom mér á óvart í kosningabaráttunni, eins og að við vorum látin sitja fremst í þeim flugvélum sem við ferðuðumst með, og fólk var alltaf að færa okkur gjafir. Óvenjulegt en skemmtilegt á sama tíma.“

Forsetahúsgögn?

Flutningur á Bessastaði liggur fyrir fjölskyldunni. Ég spyr Elizu hvort þau þurfi að nota sérstök forsetahúsgögn eða hvort búslóðin fylgi þeim.
„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef nokkrum sinnum komið í húsið þar sem móttökur eru haldnar, en aldrei í forsetabústaðinn, svo ég veit ekki hvort húsið er fullt af húsgögnum sem eru óhentug fyrir börn, eða hvort við Guðni erum að fara að taka með okkur 15 ára gömlu Ikea-húsgögnin. Sófann sem þú situr í keyptum við til að mynda fyrir 15 þúsund krónur á Facebook.“

Glamúrinn fer kannski að flæða í auknum mæli inn í líf þeirra hjóna núna. „Þó að við berum virðingu fyrir embættinu erum við Guðni bæði mjög jarðbundin og viljum alls ekki að aðstæður barnanna okkar verði óeðlilegar eða að þau alist upp í að finnast þau eiga meiri rétt en aðrir. Ég mun kannski ekki setja gamla sófann í herbergi þar sem tekið er á móti gestum embættisins, en mun glöð nota hann á stað þar sem fjölskyldan getur hangið saman og haft það kósí.“

Femínistinn í farþegasætinu

Eliza er sjálfstæð, menntuð og drífandi kona, skyldi hún ekki hafa blendnar tilfinningar að einhverju leyti gagnvart hlutverkinu og því að horfa fram á næstu árin í farþegasæti forsetans. „Ekki gleyma að segja að ég sé femínisti, ég vil endilega að það komi fram. En jú, auðvitað hef ég leitt hugann að því. Ég hef til dæmis aldrei verið jafnmikið í sviðsljósi fjölmiðla og núna, ég hef reyndar talsverða reynslu af viðtölum, en þau hafa snúist um mig og mín verkefni. Núna snýst allt um eiginmann minn og ég er aukaleikari. En ég er bara óskaplega stolt af honum og ánægð með að hann sé í sviðsljósinu. Ég veit að hann verður frábær forseti. Það eru mikil forréttindi fyrir okkur bæði að fá þetta tækifæri. Við tökum þennan heiður mjög alvarlega. Ég mun gera mitt besta til að nota mitt hlutverk til góðs og styðja Guðna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

HM-stemning hjá Íslensku Klíníkinni – Fríður hópur lagður af stað til Zagreb

HM-stemning hjá Íslensku Klíníkinni – Fríður hópur lagður af stað til Zagreb
Fókus
Fyrir 3 dögum

Karlmaður sem tók þátt í kynlífsmaraþoni Bonnie Blue stígur fram – Myndefni vekur óhug

Karlmaður sem tók þátt í kynlífsmaraþoni Bonnie Blue stígur fram – Myndefni vekur óhug