Kanadískir fjölmiðlar hafa margir hverjir greint frá forsetakosningunum hér á landi í gær, enda er Eliza Reid verðandi forsetafrú fædd í höfuðborginni Ottawa í Ontario-fylki þar í landi.
Eliza fæddist árið 1976 í Ottawa. Faðir hennar, J. Hugh Campbell Reid, er aðjúnkt í ensku við Carleton University. Móðir hennar, Allison Jean Reid, er menntuð í sálfræði og félagsfræði og hefur starfað sem leikskólakennari og jafnframt verið heimavinnandi. Eliza ólst upp á sveitabýli skammt frá Ottawa. Þetta kemur fram áframboðssíðu Guðna.
Á vef kanadíska Huffington Post kemur fram að hin norræna þjóð hafi gert kanadíska konu að forsetafrú sinni. Á vef CBC News og á vef CTV News kemur fram að Guðni sé sagnfræðiprófessor með enga reynslu af stjórnmálum en sé engu að síður sérfræðingur í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Hann hafi tryggt sér næg atkvæði til að verða þjóðhöfðingi hinnar fámennu norðurlandaþjóðar.
Þá er jafnframt vitnað í viðtal Elizu við The Canadian Press frá því fyrr í mánuðinum þar sem hún segir íslensk samfélag hafa tekið sér afar vel og að það yrði geysilegur heiður að verða forsetafrú.
Segir Eliza þar jafnframt að kanadískur uppruni hennar komi til með að hjálpa Guðna í kosningabaráttuni þar sem hún komi ávallt til dyra eins og hún er klædd. Kandadískar rætur hennar gera það að verkum að hún væri meira niðri á jörinni og reyndi ekki að vera neitt annað en hún er; eitthvað sem kjósendur kunni vel að meta.