fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Hugarró í háloftunum

Líður best í kollsteypu á 300 km hraða – Myndi ekki vilja búa með sjálfri sér – Smíðar listflugvél í frístundum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. júní 2016 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir var fastagestur á sjónvarpsskjáum landsmanna í áratug á meðan hún starfaði við dagskrárgerð á Stöð 2. Svo var hún rekin og breyttist í flugvélanörd. Ragnheiður Eiríksdóttir hitti Siggu í spjalli um háloftin, drauminn um að verða geimfari, strögglið við að haga sér eins og fullorðin manneskja og ýmislegt fleira.

Við Sigga setjumst niður með kók og croissant og ákveðum að byrja bara í núinu. „Ég er slæpingi og geri nánast ekki neitt,“ segir hún hlæjandi. „En sjáum nú til, eitthvað hlýt ég nú að nota dagana í. Eginlega sit ég mest úti á flugvelli, horfi til himins og bíð eftir flugveðri. Svipað og ég hef heyrt að módelstörf séu, nema maður er ekki alveg jafnsætur á meðan beðið er. Ég er nú ekki búin að leggja mig fram við að passa upp á lúkkið síðustu mánuði. Hef vanrækt skvísuhlutverkið stórkostlega, verið í jogginggalla eða kuldagalla með epoxý í hárinu í nokkra mánuði. Tíminn minn fer sem sagt þessa dagana í að njóta þess að vera til og gera bara það sem mér finnst skemmtilegt.“

Uppsögn og frægt fótbrot

Sigga var ein þeirra sem misstu vinnuna í einni af nokkrum hópuppsögnum 365 miðla síðustu misserin. Henn var sagt upp 30. október í fyrra, en til stóð að hún ynni þriggja mánaða uppsagnarfrest. „Móðir mín bjargaði mér með því að fótbrjóta mig skömmu eftir uppsögnina.“ Þarna vísar Sigga í eitt frægasta fótbrot á Íslandi, en fjölmiðlar sögðu frá því í desember að henni hefði með undraverðum hætti tekist að fótbrotna við smákökubakstur.

„Við mamma vorum að baka sýrlenskar döðlusmákökur. Ég sýndi mikinn metnað í því að mauka döðlurnar í fyllinguna og dró fram gamaldags handknúna hakkavél til verksins. Svona málmklump sem vigtar á við meðalmann. Þar sem uppvask er ekki mín sterka hlið fékk mamma að sjá um frágang, sem gekk ekki betur en svo að hún missti snigilinn úr hakkavélinni beint ofan á ristina á mér. Þetta var reyndar vel miðað hjá henni, mjói endinn fór á undan og ég leit út eins og ég hefði verið krossfest á öðrum fæti. Ég man næstum eftir þessu í hægri endursýningu. Ég stóð þarna heillengi að reyna að átta mig á þeirri fáránlegu staðreynd að ég hefði líklega verið að fótbrjóta mig í fyrsta sinn í fjandans smákökubakstri!“

Mér finnst mjög líklegt að ég sé eina manneskjan á Íslandi sem hef lent í þessu, og ég er nokkuð viss um að starfsfólkið á slysó hafi hlegið að mér, þau sjá þetta víst ekki oft. Í raun fannst mér þetta mjög gott á fólkið sem er stöðugt að gagnrýna mig fyrir að vera með hættuleg áhugamál og segja að ég sé áhættufíkill. Flestir slasast nefnilega við heimilisstörf! Eftir að ég staulaðist út í Melabúð og tókst að slasa mig enn frekar, ákvað ég að halda mig í örygginu úti á flugvelli. Í alvöru talað, ég snapaði mér þyrluflugtúr, tróð gipsinu í þurrbúning í stærð XXL og gat loksins slakað á.“

Sigga er nefnilega búin að vera að hjálpa Sigga vini sínum að smíða Pitts-listflugvél og ver þess vegna öllum frítíma sínum í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Eða næstum öllum, því dálítill tími fer jú í að fljúga um loftin blá, helst sem mest á hvolfi. „Þarna kom nú forsjónin því þannig fyrir að allt í einu hafði ég allan tíma í heiminum til að sinna ástríðunni minni. Siggi vinur var byrjaður að smíða vængi á vélina sína og ég hafði fram að þessu verið að skjótast til hans af og til og langaði svo að vera með, en þegar þarna var komið var útbúin vinnuaðstaða fyrir fótbrotnu konuna – hreyfihamlaða og atvinnulausa. Þar festist ég eiginlega og uppsagnarfresturinn leið, svo ákvað ég að taka frí sem ég átti inni í beinu framhaldi. Reyndar er tíminn liðinn núna svo það getur verið að ég þurfi að fá mér svokallaða alvöru fullorðinsvinnu fljótlega.“

Timbur og eðalsteinar

Hún situr þó ekki auðum höndum, það er ljóst. Verkefnin eru sum æði ævintýraleg. „Mér finnst frekar fáránlegt að segja það en ég er að leggja lokahönd á teikningar fyrir skartgripalínu sem ég er að hanna í samstarfi við spænskan gimsteinafræðing og gullsmið í Cordoba. Ég er gjörn á að koma mér í aðstæður sem koma sjálfri mér talsvert á óvart. Þetta byrjaði til dæmis með öllum ferðunum sem ég þurfti að fara í Efnissöluna í Kópavogi, þar sem hægt er að fá alls konar „gúrmei“ timbur. Flugvélin sem við erum að smíða er nefnilega með vængi úr timbri og í þannig verkefni notar maður ekkert mótatimburdrasl. Ég er með rosalega dellu fyrir timbri og tók einn vetur í smíði í Iðnskólanum. Ég er líka með svæsna steinadellu og elska gimsteina og fræðin í kringum þá. Mig langaði á tímabili að verða gimsteinafræðingur og gimsteinasali. Svo allt í einu kynnir frændi minn okkur fyrir verðandi konu sinni, Alexöndru Martini, sem flutti hingað frá Madrid í vetur, og heldurðu að hún sé ekki bara gimsteinafræðingur með brjálaðan áhuga á timbri og óvenjulegum efnum. Til að gera langa sögu stutta erum við að leggja lokahönd á skartgripalínu úr timbri, eðalmálmum og steinum og gullsmiðurinn í Cordoba situr núna og bíður eftir teikningunum. Stundum er eins og örlögin ætli manni að lenda einhvers staðar.“

Reiðistigið var skemmtilegast

Þó svo að vinnumissirinn hafi verið ákveðið áfall segir Sigga það hafa opnað á alls kyns nýjar leiðir og hugmyndir sem hún sá ekki áður. „Ég vann á Stöð 2 heilan áratug og dvaldi meira í vinnunni heldur en heima hjá mér. Samt gat maður ekki tekið því sem vísu að halda vinnunni, þannig er bara fjölmiðlaumhverfið. Ég sá fólk hverfa frá störfum í uppsögnum, en mitt plan-B var alltaf að finna mér hlýjan frönskumælandi stað og dvelja þar í einhvern tíma. Mamma eyðilagði það plan auðvitað með fótbrotinu. Í staðinn lenti ég á Reykjavíkurflugvelli, sem er nú ekki eins hlýr, en dásamlegur staður samt.“

Nóttina eftir uppsögnina flaug Sigga til Þýskalands í tökur fyrir síðasta þáttinn sem hún vann á Stöð 2. „Þetta var alveg glatað. Þarna stóð ég með uppsagnarbréfið í höndunum og þurfti að drífa mig heim til barnsins míns sem var með 40 stiga hita og engin barnapía í landhelginni. Ég gekk með hana um gólf þar til tvö um nóttina þegar maðurinn minn kom heim úr vinnuferð. Eftir tveggja tíma svefn vaknaði ég grátbólgin, komin með útbrot undir augun og fór út á flugvöll. Það er óhætt að segja að þarna hafi ég náð ákveðinni lægð í mínu lífi. Við tók einhvers konar sorgarferli. Ég var langhrifnust af reiðistiginu, það var skemmtilegast, en þetta var mikill tilfinningarússíbani.“

Hún ber fyrirtækinu þó vel söguna. „Þrátt fyrir að hópuppsagnir hafi riðið yfir reglulega var gott að vinna þarna og mórallinn yfirleitt góður. Umhverfið var lifandi og skemmtilegt og fólkið frábært. Mér fannst þess vegna ekki eins og ég væri að missa vinnuna, heldur líka að það væri verið að reka mig úr fjölskyldunni. Svo áttaði ég mig á að maður þarf ekki að vinna með fólki til að eiga í góðum samböndum. Það kom mér mest á óvart hvað ég var sjúklega sátt við að sleppa. Mér leið líka svo unaðslega vel í drullugallanum eftir tímann sem ég var uppstríluð fyrir framan myndavélina, enginn að segja manni að greiða hárið eða eitthvað. Reyndar varð þetta fullmikið þegar ég var farin að segja brandara um skrúfutegundir á mannamótum, og sagði mömmu í mjög löngu máli frá ótrúlega mögnuðu trikki til að þykktarhefla spýtur. Þá fattaði ég að fólk hefði kannski ekki jafnmikinn áhuga á þessu og ég.“

Höfnun og tækifæri

„Þrátt fyrr að það sé brjálæðisleg höfnun fólgin í því að vera rekin er ég í raun þakklát núna. Ég frétti til dæmis utan að mér þegar dóttir mín sagði sína fyrstu heilu setningu, hún var „mamma ekki hér, mamma vinna“. Ég var ekkert sérstaklega stolt af því. Við festumst svo gjarnan í vinnunni okkar, hún fyllir dagana og býr til daglega rútínu. Þegar þetta er tekið af okkur fer allt á hvolf. Ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti af mér að gera til að byrja með. Svo fór hausinn á milljón og það urðu til hugmyndir og pælingar sem hefðu aldrei fengið pláss ef ég hefði haldið áfram í vinnunni. Núna er ég ákveðin í því að koma mér aldrei aftur í þá stöðu að vinnan sé alfa og ómega í lífinu.“

Lærir kannski að lenda

En hvað skyldi hin kraftmikla og skapandi Sigga geta hugsað sér að gera í framtíðinni? „Mig langar í alvörunni mjög mikið til að verða geimfari, en geri mér grein fyrir að sá draumur muni líklega ekki rætast. Til að byrja með var ég alveg sjúk í að verða flugvélasmiður, en það var sama hvernig ég reiknaði dæmið út, þá var ekki nokkur möguleiki til þess að hafa lifibrauð af því. Ég held að launin við að prjóna lopapeysur hljóti að vera betri.“

Vitaskuld er flugsjúka konan að vinna í því að verða sér úti um einkaflugmannspróf. „Ég er örugglega að fara að taka vandaðasta og best undirbúna einkaflugmannspróf sem sögur fara af. Bóklega hlutann tók ég 2012 og svo varð dálítið endasleppt hjá mér að klára flugtímana. Ég varð ólétt og ýmislegt í lífinu tafði mig. Ég er samt búin að gera ýmislegt í flugi, eins og að fljúga lítilli rellu til Frakklands, og fyrsti flugtíminn minn eftir fjögurra ára hlé fór í að læra að fljúga á hvolfi. Ég hef aldrei verið góð í að gera hluti eins og á að gera þá, í réttri röð. Svo er ég mjög léleg í að forgangsraða. Þegar ég verð búin að fullkomna þessar helstu listflugsæfingar læri ég kannski að lenda. Siggi vinur minn átti ansi gott svar við vangaveltum mínum um akkúrat þetta, hvort ég væri að fara ranga leið í flugnáminu. Hann sagði „þetta lendir alltaf einhvern veginn á endanum“. Svo jú, ég gæti sannarlega hugsað mér að vinna við flug í framtíðinni. “

Flug frá frumbernsku

Það er bersýnilegt að flugið er Siggu hjartfólgið. Það sést á henni og heyrist þegar hún talar um það. En hvaðan kemur þessi mikla ástríða? „Eiginlega úr frumbernsku. Pabbi var hobbýflugmaður og við flugum mikið þegar ég var krakki. Allar helgar voru undirlagðar í ísflugtúra til Vestmannaeyja eða eitthvað álíka. Pabbi kenndi okkur krökkunum mikið, enda eru flugvélarnar með tvö stýri – svo við lærðum.

Á unglingsárunum tók ég pásu, enda fór ég í smá uppreisn og nennti ekki að flugplebbast eitthvað með pabba um helgar. Svo var það einhverju sinni að ég þurfti að vinna innslag fyrir Ísland í dag þar sem ég talaði við þyrluflugmann hjá Landhelgisgæslunni sem notar allan frítíma sinn í listflug. Þá blossaði þetta upp af fullum krafti. Þetta er reyndar hann Siggi sem ég er að smíða flugvélina með núna. Svo hitti ég alls konar karla sem ég kannast við frá því í gamla daga. Eins og Magga Nordal sem fór með mig í fyrsta listflugið mitt þegar ég var 10 ára. Flugið er eins og veira, sem blundar bara í manni og blossar upp af krafti við réttu aðstæðurnar.“ Já, svona eins og herpes, segir hjúkrunarfræðingurinn/blaðakonan. „Einmitt, frunsa. Samt agalegt að líkja einhverju svona fallegu við slíkan hrylling. Listflugsnillingurinn Benni Thoroddsen sagði að í raun væri flugbakterían ólæknanleg. Það er ekki hægt að losna við hana og „sjúkdómurinn“ bara versnar og versnar með tímanum. Ég held að hann hafi lög að mæla.“

Hin öra Sigríður

Eins og, hér um bil, alþjóð veit, er Sigga greind með ofvirkni og athyglisbrest, ADHD. Hún tók þátt í rómuðum sjónvarpsþáttum Lóu Pind, Örir Íslendingar, þar sem nokkrum fullorðnum einstaklingum með sjúkdóminn var fylgt eftir. Þættirnir fóru í loftið í vikunni áður en Sigga var rekin. Hún segist þó ekki hafa haft miklar áhyggjur af tímasetningunni. „Ég hef einhvern veginn aldrei gert ráð fyrir að neinn horfi á sjónvarp. Eins og þegar ég vinn mína þætti líður mér yfirleitt eins og ég sé bara að gera þá fyrir mig. Þegar þessir þættir voru sýndir fann ég þó heldur betur fyrir því að áhorfið var heilmikið, því allt í einu fór bláókunnugt fólk að hafa samband við mig og senda mér falleg og hughreystandi orð. Ég ætti kannski að nota tækifærið til að þakka öllum, því ég er svo sjúklega léleg í að svara tölvupósti.“

Við höldum áfram að spjalla um ADHD-greininguna hennar Siggu. „Mig langaði að prófa að fara á lyf, þess vegna ákvað ég á gamals aldri að fara í formlega greiningu. Ég var uppátækjasöm sem krakki, dálítið uppi um alla veggi. Ég var aldrei send í greiningu því mér gekk mjög vel í skóla og námið lá vel fyrir mér. Ég fann dagbók um daginn með umsögn kennarans míns frá því í sjö ára bekk. Þar segir að ég sé mjög hugmyndarík en mætti gera meira af því að klára verkefnin. Svona hef ég alltaf verið. Alltaf drasl og kaos í kringum mig. Ég var auðvitað búin að vera að grínast með þennan kvilla í mörg ár áður en ég var greind. Það getur verið erfitt að vera fullorðin manneskja sem getur ekki hagað sér eins og fullorðin manneskja. Fólk gerir ráð fyrir að manneskja á mínu reki opni póst og svari í síma og vaski upp.“

Þeytispjaldið í höfðinu

Sigga fór á lyf og er á þeim núna. Þau hjálpa til, en stóðu kannski ekki alveg undir væntingum. „Já og nei. Upplifunin var rosaleg til að byrja með. Skyndilega hafði ég svo mikla framkvæmdaorku og gat skipulagt mig. Ég hengdi upp jólaseríur, vaskaði upp og skúraði sem aldrei fyrr og náði að gera allt rosalega vel. Svo með tímanum dvínuðu áhrifin. Ég finn samt að ef ég sleppi lyfjunum í einhvern tíma fer þeytispjaldið í höfðinu í gang aftur og ég næ ekki að festa fókus á neitt. Persónuleikinn breytist heldur ekki á því að taka pillur. Ég er sama manneskja og hef ekkert gaman af því að opna póst og vaska upp. Ef ég þarf að sitja við eitthvað og halda mig að verki gera lyfin heilmikið.“

Hún prófaði líka á tímabili að vera hjá markþjálfa. „Það gerði mikið gagn. Ég fékk hjálp við að búa til kerfi utan um lífið og koma hlutum í verk. Annars er mín besta meðferð fólgin í listfluginu, fyrir utan lyfin.“ Með því á Sigga við að listflugið veitir henni hugarró sem hún finnur ekki annars staðar. „Kosturinn við allt sem kemur adrenalíninu í líkamanum af stað er að maður neyðist til að vera í núinu. Ég er ekki að hugsa um uppvaskið á 300 kílómetra hraða lóðrétt niður á jörð. Það er bara á svoleiðis augnablikum sem ég get stundað það sem menn kalla núvitund. Flugið er tilraun mín til hugleiðslu, mitt jóga. Bara miklu skemmtilegra. Margir lýsa þessu sama, sérstaklega fólk sem er svipað innréttað og ég. Það róar svo hugann að fá þennan gríðarlega fókus. Mig grunar að margir af vinum mínum sem hafa sama áhugamál þyrftu ekki að stoppa lengi inni hjá geðlækni til að fá greiningu. Líklega er þetta einhvers konar tilraun til að ráða við ástandið. Ég ætti að gefa út sjálfshjálparbókina Hvernig á að öðlast innri ró á 300 km hraða í kollsteypu. Hún yrði líklega metsölubók. Svo er þetta meinhollt fyrir líkamann líka. Listflug setur alls konar álag á blóðrásina og vöðvana og stundum hef ég stigið út úr flugvélinni með harðsperrur. Þetta er jóga fyrir fólk sem nennir ekki í jóga.“

Sumir eru hissa á áhugamáli Siggu og kalla hana áhættusækinn spennufíkil. „Margir halda að þetta sé stórhættulegt og að ég beri innra með mér einhvers konar dauðaósk. Það er samt ekkert hættulegt við það að fljúga á hvolfi, ef maður snýr vélinni aftur við fyrir lendingu. Í fluginu er fólk með hugann við það sem það er að gera, og búið að hugsa allt fyrirfram. Það er frekar áhættuhegðun að sitja í Yarisnum sínum og keyra á 100 á einbreiðum vegi og tala í símann á meðan. Ég er temmilega bílhrædd og það er fullkomlega rökréttur ótti. Fólk er í mun meiri hættu í sínu daglega lífi en í listfluginu, eins og sannaðist heldur betur þegar ég fótbrotnaði í eldhúsinu hjá mömmu.“

Gerir sitt besta

Sigga segist ekki mundu vilja búa með sjálfri sér, og dregur ekki dul á að ADHD hafi mikil áhrif á fjölskyldulífið. „Kannski er þetta eins og að búa með unglingi eða krakka. Maðurinn minn kemur kannski heim úr nokkurra daga vinnuferð, og mér finnst ég hafa verið virkilega dugleg í að halda heimilinu hreinu. En í raun er ástandið eins og eftir kjarnorkusprengju. Ég er samt öll af vilja gerð og reyni. Svo er ég léleg í að halda sambandi við fólk, muna að hringja til baka og svoleiðis. Ég þyrfti eiginlega að koma mér í þá stöðu að hafa ritara og húshjálp, þá fengi ég aldeilis að njóta mín. Þetta var kannski besta við að byrja á lyfjunum, að þau skyldu ekki breyta meiru fyrir daglega lífið. Ég er með símann fullan af öllum skipulagsforritum sem hafa verið gefin út frá upphafi mannkyns og þau virka ekki. Það fer óratími í að setja upplýsingar inn í þau, og þegar því er lokið er þolinmæðin á þrotum. Utanumhald og skipulag og allt þetta sem maður þarf að gera í lífinu er erfiðast fyrir mig. Ég hata tölvupóst eins og pestina og man aldrei að skila bókum á bókasafnið eða fara með bílinn í skoðun. Það myndi breyta heilmiklu fyrir mig að einhver sæi bara um þetta. Maður getur víst ekki verið góður í öllu, verst að það er kannski fátt eftir sem ég er góð í. En í alvöru talað þá er álagið á fjölskylduna mikið. Allir þessir brandarar um hvað karlar eru ömurlegir í að setja klósettsetuna niður og vaska upp eru í raun um mig. Á mínu heimili er ég karlinn sem er ekki húsum hæfur. Svo þarf ég að eiga mjög þolinmóða vini, og sem betur fer á ég þá. Ef ég segi til dæmis við Sigga úti á flugvelli að ég ætli að skreppa í 10 mínútur gerir hann sér grein fyrir að ég gæti horfið hálfan daginn. Ég er afskaplega þakklát þessu þolinmóða fólki sem sýnir konunni með taugaþroskunarröskunina þennan mikla skilning, annars væri ég vinalaus úti í skógi.“

Það er gaman að sitja og spjalla við Siggu. Hún er svo lifandi og innblásin og ótrúlega sjarmerandi. Líklega er það þess vegna sem vinirnir fyrirgefa henni að mæta stundum sólarhring of seint á fundi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Í gær

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni