Það var óvíst að Hjörtur Pálmi Guðmundsson myndi vakna úr dái. Hann var að keyra í Kömbunum. Alltof hratt miðað við aðstæður. Það var verið að breikka veginn og Hjörtur missti stjórn á bílnum í lausamöl þegar hann var að taka framúr. „Ég var að keyra eins og vitleysingur,“ segir Hjörtur og bætir við: „Mér varð það til lífs að séra Hjálmar Jónsson varð vitni að slysinu og kom þar fyrstur að eftir að ég hafði flogið út í móa, lá á grúfu og andaði ekki.“
Hjörtur tjáir sig um hið alvarlega slys í samtali við Morgunblaðið.. Honum var haldið sofandi í tvær vikur á gjörgæslu. Þá tók við endurhæfing. Þegar hún hófst gat hann ekki setið, haldið höfði, kyngt og var kvalinn af taugaverkjum. Tveimur mánuðum síðar eftir stífa endurhæfingu var hann farinn að ganga á ný. Nú er hann farinn að hlaupa tvisvar til þrisvar í viku.
Hjörtur ætlar að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu og þá fyrir Hugarfar sem er félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið. Segir Hjörtur að hann hlaupi til að reyna laga heilann og fá hjartað til að pumpa blóði og blóðflæði heilans.
Það eru þó nokkrar afleiðingar sem hann glímir við vegna slyssins. Hann hlaut taugaskaða og missti mátt í hægri öxl og í hönd við úlnlið. Hann neyðist því til að hlaupa með höndina í fatla. Þá finnur hann fyrir minnistapi en smám saman eru hinar og þessar minningar að rifjast upp. Skammtímaminnið er þó enn slæmt og langtímaminnið ekki uppá sitt besta.
„Jafnvægið fór til dæmis allt úr skorðum, ég hélt ekki höfði og gat ekki gengið eða setið. Ég nota hvert tækifæri til að æfa jafnvægið, til dæmis með því að standa á öðrum fæti á meðan ég bíð eftir strætó.“
Hér má lesa ítarlegt viðtal við Hjört eða hjálpa honum hér.