Óskar Steinn um hryðjuverkin í Orlando – „Við megum aldrei leyfa byssuóðum brjálæðingum að þvinga okkur aftur inn í skápinn“
„Þessi mynd er mitt svar við voðaverkunum í Orlando,“ segir hinn 21 árs gamli Óskar Steinn Jónínu Ómarsson. Facebook-færsla Óskars sem hann birti í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli og verið deilt víða á Facebook.
Þar birtir Óskar, sem er samkynhneigður, mynd af sér og kærasta sínum, Sigurgeiri Inga, að kyssast. Í færslunni, sem hefur verið deilt tæplega fimm hundruð sinnum og fengið rúmlega þrjú þúsund og fimm hundruð „like“, segir Óskar:
„Í nótt fór brjálæðingur inn á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando, Florida, og myrti 50 saklausar manneskjur. Þær höfðu það eitt til saka unnið að vera hinsegin. Fréttir herma að brjálæðingurinn hafi séð tvo karlmenn kyssast og fyllst viðbjóði.
Þessi mynd er mitt svar við voðaverkunum í Orlando. Við megum aldrei leyfa byssuóðum brjálæðingum að þvinga okkur aftur inn í skápinn. Við verðum háværari en nokkru sinni fyrr í baráttunni fyrir jöfnum réttindum. Okkar svar verður að vera meiri ást, meira stolt og meiri læti. Í dag syrgjum við þá látnu en á morgun höldum við ótrauð áfram,“ segir Óskar.