„Fordómar og hatur gangvart hinsegin fólki er eitthvað sem ennþá er til í dag og því verður ekki eytt nema með fræðslu og sýnileika,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, útvarpsmaður á K100.5 og fjölmiðlafræðingur,einnig þekktur sem Siggi Gunnars, en hann er þekktur fyrir hressilega og opinskáa framkomu í útvarpsþætti sínum á K100.5. Hann segir hryðjuverkaárásirnar sem áttu sér stað í Orlando augljóst merki um það að fordómar og hatur í garð samkynhneigðra þrífist enn í dag.
Skemmst er að minnast þegar Siggi og félagar hans á K100 breyttu nafni stöðvarinnar tímabundið í GAY100 í tilefni af Gleðigöngunni sumarið 2014 og var öll dagskráin miðuð að réttindabaráttu hinsegin fólks. Ljóst er að málaflokkurinn er Sigga hugleikin. Í opinni færslu á fésbók kveðst hann vera „sorgmæddur“ yfir þeim skelfilegu fréttum sem borist hafa af hryðjuverkaárásunum í Orlando í Bandaríkjunum. Hann segir ennþá vera langt í land þegar kemur að réttindabaráttu samkynhneigðra, andstætt við það sem margir halda.
„Oft hef ég heyrt því fleygt að „baráttan sé búin“ og allt tal um að koma út úr skápnum, að berjast fyrir sýnileika hinseginfólks og fleira í þeim dúr sé eitthvað sem ekki eigi við í dag því það eru engir fordómar og við höfum það svo gott – þú veist til dæmis „hvaða homma glenn er þetta í þér“ orðræðan.
Svo vöknum við upp við þær fréttir í morgun að minnsta kosti 50 einstaklingar hafi verið skotnir til bana fyrir það eitt að vera eins og þeir eru, á vinsælum ferðamannastað í Bandaríkjunum – ferðmannastað sem Íslendingar sækja töluvert.“
Siggi bætir við að auk þess hafi maður verið handtekinn í Los Angeles í dag, en hann ætlaði að ráðast gegn gleðigöngu hinsegin fólks þar í borg.
„Fordómar og hatur gangvart hinseginfólki er eitthvað sem ennþá er til í dag og því verður ekki eytt nema með fræðslu og sýnileika… ásamt helling af ást – ég heiti því að ég mun til síðasta dags berjast fyrir því að öllum geti liðið vel í sínu skinni án þess að þurfa að líða fyrir það – ég mun áfram vera eins og ég er, alltaf, allstaðar, sama hvað hver segir,“ segir Siggi og bætir við að ef það geti hjálpað einni manneskju að hann sé sá sem hann er í útvarpsþætti sínum, þá sé takmarkinu náð.
„Í dag syrgjum við bræður og systur sem féllu í Orlando í nótt og vonandi sameinumst að berjast fyrir mannréttindum og mannlegum fjölbreytileika,“ ritar Siggi jafnframt með ástar og friðarkveðju.