Það þarf hvorki rándýran hlaupabúnað né líkamsræktarkort til að komast í form
Fyrir tveimur árum tók Jóhanna Valdís Torfadóttir ákvörðun sem umbreytti lífi hennar. Hún einfaldlega tók ákvörðun um að fara út að hlaupa í 30 mínútur í dag. Samhliða því hætti hún að drekka gos. Fimm mánuðum síðar var hún búin að léttast um 20 kíló.
Jóhanna, sem er 33 ára, segir í samtali við DV að hún hafi tekið ákvörðun um að gera eitthvað í sínum málum þegar hún sá myndir af sér í gæsunar-myndbandi fyrir mágkonu sína vorið 2014.
„Ég vissi að ég þyrfti að byrja að hreyfa mig en var strax kom með allar afsakanirnar í bókinni upp í hausinn á mér. Ég hafði margoft reynt að takast á við aukakílóin en aldrei gert neitt almennilegt í málunum.“
Jóhann er rútubílstjóri og er því mikið úti á landi á sumrin. Eitt kvöldið ákvað hún þó að fara út og hlaupa í 30 mínútur. Hún hljóp í 15 mínútur frá hótelinu sem hún dvaldi á og sneri þá við. Þetta gerði hún á hverjum degi þá daga sem hún gisti á landsbyggðinni. Jóhanna kveðst hafa tekið fyrstu tvær vikurnar á þrjóskunni en eftir fyrsta mánuðinn var ekki aftur snúið.
„Ég byrjaði að hlaupa á kvöldin eftir að vera búin að koma hópnum mínum á hótel. Eina markmiðið var að hlaupa í 30 mínútur á dag. Ég hafði bara þann háttinn á að hlaupa í 15 mínútur í burtu frá hótelinu og snúa svo við,“ segir Jóhanna og bætir við.
„Eftir fjórar vikur mældi ég ummálið yfir magann og tók eftir að það var búið að minnka um fjóra sentímetra. Sömuleiðis var ég búin að missa fjögur kíló. Þrátt fyrir að árangurinn væri ekki sjáanlegur á þessum tímapunkti þá fann ég muninn. Ég var öll miklu léttari á mér og glaðari.“
Á þessum tímapunkti tók Jóhanna ákvörðun um að byrja líka að hlaupa í 30 mínútur þá daga sem hún var heima hjá sér. „Þetta komst bara smátt og smátt upp í vana og núna er ég viðþolslaus þá daga sem ég kemst ekki út að hlaupa. Þetta er einfaldlega orðinn hluti af deginum.“
Þolið jókst að sama skapi með hverri vikunni og í lok sumarsins 2014 var Jóhanna farin að hlaupa fjóra kílómetra á 30 mínútum. Á gamlársdag 2014 hljóp hún svo í fyrsta skipti hálfmaraþon.
Nú er þriðja hlaupasumar Jóhönnu komið vel af stað. Í setti hún fram samanburð á árangrinum á milli ára á hvatningarsíðu á Facebook. Þar greinir hún frá því að í júní 2014, á þriðja hlaupadegi sínum frá upphafi, hafi hún sokkað og gengið 3 kílómetra á 30 mínútum frá Hótel Hallormsstað á Austfjörðum. Ári síðar, í júní 2015, hljóp hún 4 kílómetra frá sama hóteli en þá skokkaði hún alla leið án þess að stoppa eða ganga. Í gærkvöldi var hún aftur stödd á Hótel Hallormsstað en þá hljóp hún 5 kílómetra á 30 mínútum.
Jóhanna er að vonum ánægð með árangurinn og segir að það hafi komið sjálfri sér mest á óvart hversu einfalt þetta er. Það þurfi engan rándýran búnað eða líkamsræktarkort til að halda sér í formi. Það eina sem þarf eru 30 mínútur og hlaupaskór.