Útilistaverkið Kvika eftir Ólöfu Nordal stendur í fjörunni við Norðurströnd í Gróttu. Um er að ræða fótbaðs- eða vaðlaug þar sem gestir og gangandi geta dýft fæti í volgt vatnið. Sigurður Geirsson átti leið hjá vaðlauginni fyrir skömmu og náði þá myndum af ferðamönnum sem höfðu klætt sig úr hverri spjör og lagst í laugina. Pressan greinir frá.
Þar er haft eftir Sigurði að hann hafi gefið sig á tal við ferðamennina en hann telur að parið sé frá Bandaríkjunum eða Kanada.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferðamenn leggjast naktir í vaðlaugina. Eiríkur Jónsson greindi frá því í febrúar að annað par hefði hvílt lúin bein í lauginni. Þar sagði Eiríkur að túristar hefðu fengið röng skilaboð um notkun fótabaðsins.
„Þarna á fólk að sitja og lauga fætur sína en ekki afklæðast öllu og skella sér á kaf.“