Segir Bubba orðin heyrnarlausan – Framboðsfundur eða tónleikar?
Sigurður Hlöðversson, betur þekktur sem Siggi Hlö stóð upp í Hörpu á afmælistónleikum Bubba í gærkvöldi og púaði á kónginn sjálfan á sextugsafmæli hans. Ástæðan var að Bubbi hélt ræðu þar sem hann greindi frá því að Andri Snær Magnason væri hans maður í forsetakosningunum sem fara fram eftir átján daga. Bubbi hefur nú svarað Sigga Hlö en útvarpsmaðurinn góðkunni gerir grein fyrir á Vísi af hverju honum var misboðið á tónleikunum.
„Ég kunni bara illa við þetta og fannst þetta algjörlega óviðeigandi og taktlaust. Þetta átti bara ekkert við í sextugs afmæli, að vera með framboðsfund. Ég púaði því nokkuð hressilega á hann og það voru nokkrir þarna í kringum mig sem störðu hreinlega á mig.“
Þá bætir Siggi Hlö við að hann hafi ekki fengið nein viðbrögð frá Bubba. Bubbi sé orðinn hálf heyrnarlaus og kominn með heyrnartæki. Að öðru leyti hrósar Siggi Hlö tónleikunum.
Bubbi svarar Sigga Hlö undir fréttinni og segist hafa tekið fram að þetta væri hans skoðun. Hann hafi ekki verið að biðja gesti um að kjósa Andra Snæ.
„Ég sagði margt í gær. Þetta var eitt af því,“ segir Bubbi og bætir við að hann voni að kvöldið hafi verið ánægjulegt hjá Sigurði.
„Honum var boðið í mat, á tónleika og svo fékk hann fallega afmælisgjöf.“
Þess má geta að Bubbi gaf ásamt styrktaraðilum öllum gestum í Hörpu pakka, þar sem var að finna plötu með tíu lögum og bók með ýmsum úrklippum frá ferli hans. Bubbi segir að endingu: „Ég vona að þetta góða boð hafi ekki sett líf hans á hliðina.“