Hildur Yeoman fatahönnuður opnar sýningu ásamt hópi listafólks
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur notið vaxandi velgengni á síðustu misserum. Nýverið hlaut hún tilnefningu til Grímunnar fyrir búninga sem hún vann fyrir sýningu Íslenska dansflokksins, og föstudaginn 3. júní opnar hún sýningu í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi.
Hildur er að vonum spennt fyrir sýningunni, en blaðakona náði tali af henni í miðjum önnum á lokametrunum fyrir opnunina.
Transcendence er samstarfsverkefni Hildar, hljómsveitarinnar Samaris, Valgerðar Rúnarsdóttur og fleiri listamanna. „Ég sýni nýja línu byggða á mörkunum milli draums og veruleika en á sama tíma erum við að prufa okkur áfram með mörkin milli listgreinanna. Auk tónlistarinnar og dansins munum við sýna vídeóverk eftir Mána Sigfússon, sem hann vann fyrir línuna, og ljósmyndir sem Saga Sig tók af henni.“
Hildur segir náttúruna úti á Nesi spila stórt hlutverk í því að Læknasafnið var valið undir sýninguna. „Það eru mikil tengsl við náttúruna í munstrunum á flíkunum og þetta er svo ótrúlega falleg bygging, sem ég vona innilega að verði safn í framtíðinni.“
Viðtökur á fötum Hildar hafa verið frábærar, en hún selur þau meðal annars í Kiosk á Laugavegi 65. En hver ætli galdurinn sé á bak við velgengnina? „Ég vanda mig og vinn þetta frá hjartanu, ætli það sé ekki galdurinn,“ segir hönnuðurinn.
Hildur segir ferðamenn duglega að heimsækja Kiosk svo að föt hönnuðanna sem reka saman verslunina eru farin að ferðast út um allan heim. Föt Hildar eru fáanleg í London auk Íslands. Hún segir kúnnahóp sinn vera breiðan. „Ég er svo heppin með að mjög margar flottar konur sem ég lít upp til klæðast fötunum mínum, mér finnst það æðislegt.“
Fyrir utan sýninguna er ýmislegt á döfinni hjá Hildi Yeoman á næstunni. Sumarlínan er væntanleg í Kiosk og hún er að vonum kát með tilnefninguna til Grímuverðlaunanna. „Það lítur út fyrir talsvert sumarpartístand og svo er ég víst að fara að gifta mig. Það verður æðislega gaman!“
Sýningin Transcendence hefst klukkan 20.00 föstudaginn 3. júní, í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Opnunargjörningurinn mun standa í 40 mínútur en gert er ráð fyrir að gestir gangi beint inn í gjörninginn.