Æfir dans og er öflug í hestamennsku
„Það verður skrítið í sumar vera ekki í neinum skóla,“ segir Aþena Eir Jónsdóttir en hún útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi. Aþena er án efa með þeim yngstu sem lokið hafa stúdentsprófi hér á landi en hún er aðeins 17 ára gömul.
Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta en við útskriftina fékk Aþena verðlaun fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og félagsfræði. Aþena vinnur í sumar á Hertz bílaleigunni og hefur að eigin sögn alltaf fundist mjög gaman í skóla.
Hún lauk grunnskólaprófi 15 ára gömul en hún sleppti 8. bekk og var því ári á undan jafnöldrum sínum. Hún segir námið til stúdentsprófs ekki hafa verið strembið, enda eigi hún auðvelt með að læra. „Eina önnina tók ég 27 einingar en það var ekkert erfitt, ég náði þessu einhvern veginn. Eitt sumarið tók ég svo tvo áfanga svo að ég var með fáar einingar og gat tekið því rólega síðasta árið.“
Stærðfræðin liggur einkar vel fyrir Aþenu og hefur hún sett stefnuna á kennaranám í haust, með það fyrir augum að verða stærðfræðikennari. Þá hefur hún verið að æfa og kenna dans hjá Danskompaníi auk þess að vera öflugu í hestaíþróttinni.