Tónlistin er stærsta lífsfylling borgarstjórans fyrrverandi
„Ég ætla að gefa út tíu laga plötu í sumar með lögum eftir mig. Platan mun heita Ég elska lífið eftir titillagi hennar,“ segir Ólafur F. Magnússon læknir, tónlistarmaður og fyrrverandi borgarstjóri.
Ólafur hefur síðustu vikur og mánuði tekið upp fjögur myndbönd við lög af plötunni og birt þau á Youtube. Nýjasta lagið, Gott og göfugt hjarta, fór á vefinn í byrjun vikunnar. DV barst ábending um að Ólafur hefði sést við Gálgahraun í Garðabæ, ásamt myndatökumanni, um síðustu helgi en þar var hann staddur til að taka upp tónlistarmyndband við titillagið.
„Lagið er tilbúið en við erum nú að taka upp myndefni úti í náttúrunni því það verður nú að vera lífrænt og fallegt í myndbandi við lag sem heitir Ég elska lífið. Ég hef verið að fást við, í vaxandi mæli síðustu þrjú árin, að semja lög og ljóðin sem ég sjálfur við þau. Páll Rósinkranz hefur sungið fimm lög fyrir mig. Nokkur þeirra sendi ég í Eurovision en meira svona í gamni því þetta eru melódíur meira en rokklög. Þessi lög sem Páll söng verða ásamt fimm öðrum á nýju plötunni,“ segir Ólafur.
Nú er ég farinn að syngja og tónlistin orðin mín langstærsta lífsfylling.
Borgarstjórinn fyrrverandi tekur fram að hann ætli sér einungis að gefa út plötu en ekki mynddisk. Hann gerir sér ekki vonir um að platan seljist vel.
„Ég hef lagt mikið í þessi lög og ég veit að plötur seljast mjög lítið. Ég er meira að gefa þetta út málefnisins vegna og skrá lögin þannig að þau fái spilun. Ég er ekki að gera mér neinar vonir um að selja eitthvað. Fyrir mig persónulega er þessi listsköpun andlegur fjársjóður en ekki veraldlegur,“ segir Ólafur.
„Ég vissi ekki að ég gæti eitthvað í tónlist. Þegar ég hætti í pólitík 2012 var ég mjög veikur í heilt ár og var við dauðans dyr út af miklu þunglyndi og öllu eineltinu sem ég hef orðið fyrir. Svo smám saman sneri ég aftur til lífsins og það sem kom mér á flug aftur var að ég fór að semja ljóð og lög. Nú er ég farinn að syngja og tónlistin orðin mín langstærsta lífsfylling. Það er nú oft þannig að þegar fólk lendir í miklum erfiðleikum en kemst yfir þá sprettur upp nýr og betri maður. Ég held ég geti sagt það um mig að ég sé miklu skemmtilegri og afslappaðri persóna en ég var þegar ég var í pólitíkinni,“ segir Ólafur.