Var á tíðum óvinnufær vegna endómetríósu – „Ég lá skjálfandi og kófsveitt þar til þessu var lokið“
Aníta Estíva á erfitt með að muna eftir unglingsárum sínum og segir þau í hálfgerðri þoku vegna verkja og hormónarugls. Hún rifjar upp að hafa fengið á sig „aumingjastimpil“ sökum þess að hún var óvinnufær vegna tíðaverkja. Seinna átti hún eftir að greinast með endómetríósu, krónískan og sársaukafullan sem talinn er hrjá allt að 10 prósent kvenna. Hún segist hafa mætt algjöru skilningsleysi vegna sjúkdómsins og telur mikilvægt að opna umræðuna.
„Það er ekki mikið talað um þetta og konur þurfa í raun að afla ser upplýsinga um þetta sjálfar. Það eru ekki margir sem þekkja þennan sjúkdóm og hann er því ekki mikið í umræðu,“ segir Aníta í samtali við blaðamann en hún er gift Óttari Már Ingólfssyni og eiga þau tvö börn; þau Kristófer Vopna 2 ára og Viktoríu Fanney 1 árs. Hún tjáði sig um baráttu sína við sjúkdóminn- og fylgifiska hans í einlægri færslu á vefsíðunni Öskubuska þar sem hún lýsir því hvernig hún leið vítiskvalir í hverjum mánuði eftir að hún byrjaði að hafa blæðingar 14 ára gömul.
Á heimasíðu samtaka um endómetríósu kemur meðal annars fram:
Legslímuflakk eða endómetríósa (e. endometriosis) er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu.
Legslímuflakk getur valdið miklum sársauka, blöðru- og þarmavandamálum auk ófrjósemi. Einkenni eru mismikil milli einstaklinga. Talið er að um 10% stúlkna og kvenna séu með legslímuflakk. Sýnt hefur verið fram á að erfðir koma við sögu í legslímuflakki sem ein af hugsanlegum orsökum legslímuflakks.
„Ég kveið þessum mánaðarlega tíma svo mikið þar sem að tveir til fjórir sólarhringar fóru í að liggja á baðherbergisgólfinu ælandi af sársauka. Það leið yfir mig nánast í hvert einasta skipti sem ég var á blæðingum og ég lá skjálfandi og kófsveitt þar til þessu var lokið.“
Hún bætir því við að hún hafi tekið upp á því að innbyrða verkjalyf alla daga mánaðarins þar sem hún vissi aldrei hvenær verkirnir myndu láta á sér kræla með tilheyrandi kvöldum. Loks gat maginn ekki meir og hún kastaði töflunum upp. Hún segir algengt að fólk hafi gert lítið úr verkjum hennar og ekki skilið hvers vegna hún gat ekki bara harkað „þessa smá verki“ af sér:
„Ég man sérstaklega eftir einu tilfelli þar sem ég var í vinnunni og hafði þurft að fara einu sinni til þess að kasta upp vegna verkja og var svo í svitabaði að reyna að sinna starfinu þegar ég bað yfirmann minn um að fá að fara heim þar sem ég gæti bara einfaldlega ekki staðið vegna verkja. Mér var hleypt heim á þeim forsendum að ég skyldi aldrei aftur vera „veik“ út af túrverkjum. Auðvitað vissi yfirmaður minn ekki neitt um minn sjúkdóm þar sem ég vissi heldur ekki neitt og því héldu allir að ég væri bara svona mikill „aumingi“ að geta ekki harkað þessa smá verki af mér.“
Aníta minnist einnig á að sjúkdómur hennar geti orsakað ófrjósemi og um tíma leit út fyrir að það yrði ómögulegt fyrir þau hjón að eignast barn nema án aðstoðar læknisvísindanna. Það er erfitt og dýrt ferli en segir Aníta að þau hjón hafi verið ein af þeim heppnu þar sem hún var ófrísk að syni þeirra áður en þau hófu frjósemismeðferð. 15 mánuðum eftir að sonur þeirra fæddist kom síðan dóttir þeirra í heiminn.
Hún hvetur aðrar konur til að leita sér hiklaust aðstoðar ef þær telja eitthvað vera ekki í lagi. „Ég hefði viljað fá aðstoð og svör mikið fyrr en það hefði hjálpað mér helling að vita að þetta væri ekki eðlilegt ástand og ég væri ekki ein.“
Grein Anítu má lesa í heild sinni á Öskubuska.is