Amber Heard sækir um skilnað frá Johnny Depp
Amber Heard hefur sótt um skilnað frá leikaranum góðkunna Johnny Depp. Aðeins eru fimmtán mánuðir síðan Amber og Johnny gengu í hjónaband.
Að því er slúðurpressan greinir frá sótti Amber um skilnaðinn á mánudagskvöld og mun ástæðan vera ágreiningur þeirra á milli sem ekki hefur tekist að leysa úr.
Að því er TMZ greinir frá hafði verið grunnt á því góða milli Amber og Johnny um nokkurt skeið og segir heimildarmaður slúðurmiðilsins að móðir Depp, Betty Sue Palmer, sem lést á dögunum, hafi „hatað“ Amber. Það hafi verið skoðun Betty að Amber hafi gengið í hjónaband með Johnny til þess eins að græða á því fjárhagslega og koma sér á framfæri í hörðum heimi Hollywood.
Svo virðist vera sem það hafi farið illa með hjónabandið þegar Depp ákvað að leyfa móður sinni að dvelja á heimili þeirra í kjölfar veikinda Betty. Betty lést á föstudag í síðustu viku og sótti Amber um skilnaðinn örfáum dögum síðar.
Amber mun hafa krafist þess þegar hún sótti um skilnaðinn að eignum þeirra yrði skipt á milli. Auðæfi Depps, sem hefur verið í hópi launahæstu leikara heims undanfarin ár, eru metin á 400 milljónir Bandaríkjadala, 50 milljarða króna. Að því er TMZ greinir frá gerðu hjónin ekki með sér kaupmála þegar þau gengu í hjónaband.
Frægðarsól Amber, sem varð þrítug á dögunum, hefur risið hratt undanfarin misseri og mun hún leika eitt af aðalhlutverkunum í nýjustu mynd Zack Snyder, The Justice League: Part One, sem verður frumsýnd á næsta ári.