„Það hefur haft mikil andleg áhrif á mig að lenda tvisvar í þessu“
„Maður getur ekki alltaf hugsað um dauðann. Maður fer ekki langt á því. Hugsunin um hvað geti farið úrskeiðis má ekki taka yfir,“ segir Ingólfur Axelsson í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Ingólfur segist í viðtalinu telja miklar líkur á að hann reyni að klífa Everest-fjall á næsta ári. Hann og Vilborg Arna Gissurardóttir voru stödd á fjallinu tvö ár í röð þegar hamfarir riðu yfir í fyrra og árið þar á undan. Nítján létust í snjóflóði á síðasta ári og árið 2014 varð snjóflóð sextán Sérpum að bana. Í vikunni hafa fimm göngumenn látist á fjallinu.
„Maður veit auðvitað ekki almennilega hvað gerðist, en það er alltaf sorglegt þegar einhver deyr á fjallinu og það er alveg sama hvernig það vill til,“ segir Ingólfur í viðtalinu um þau dauðsföll sem hafa orðið í vikunni.
Ingólfur segist sem fyrr segir miklar líkur vera á að hann reyni að komast á topp Everest á næsta ári en Vilborg Arna, sem einnig er rætt við, segist ekki hafa tekið ákvörðun.
„Það hefur haft mikil andleg áhrif á mig að lenda tvisvar í þessu. Hjá mér snýst þetta þó að einhverju leyti um að skilja ekki við fjallið svona. Maður lendir í hörmungum tvö ár í röð en á hinn bóginn langar mig að klífa fjallið. Það þarf að gera í sátt við Nepala og fjallið sjálft. Maður þarf að sýna fortíðinni þá virðingu að fara þarna á réttum forsendum og vera vel undirbúinn. Bæði andlega og líkamlega,“ segir Ingólfur sem kveðst ætla að hefja undirbúning á næstu mánuðum.