Tveir nýir Grímseyingar komu í heiminn á dögunum. Það er seint hægt að segja að íbúafjöldi sé hár í Grímsey og með tilkomu barnanna tveggja tók sá fjöldi óvæntan kipp.
Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að þann 19.maí síðastliðinn hafi tveir nýir Grímseyingar litið dagsins ljós: drengur og stúlka. Drengurinn var 15 merkur og eru foreldrar hans þau Júlía Ósk Ólafsdóttir og Kristófer Sindri Pétursson. Síðar þennan sama dag eignuðust þau Rannveig Vilhjálmsdóttir og Bjarni Gylfason einnig barn; 14 marka stúlku en um er að ræða fimmta barn parsins.
Þá kemur fram á vefnum að Grímseyingar hafi fram að þessu verið 66 talsins en séu nú 68 talsins. Því hafi orðið þriggja prósenta fjölgun íbúa – á aðeins einum sólarhring.