Lobbi fagnar áratuga edrúmennsku
Guðmundur Ólafsson, Lobbi, á 40 ára edrúafmæli í dag, föstudaginn 20. maí. Hann fór í fyrstu meðferðina sem boðið var upp á hérlendis eftir svokölluðu Minnesota-módeli. „Reyndar var þessi tiltekna aðferð fundin upp í Rússlandi. Þeir áttu svo mikið af fyllerísbílstjórum og sendu þá á námskeið til að læra um alkóhólismann og drykkjuna,“ segir Lobbi í samtali við DV. „Það sýndi sig að þetta virkaði. Meðferðin var svo þróuð á Hazelden í Minnesota, og þangað komu Betty Ford og alls konar fínt fólk.“
Hazelden-stofnunin, sem í dag heitir Hazelden-Betty Ford stofnunin, var sett á laggirnar árið 1949, en fram að þeim tíma voru úrræði fyrir alkóhólista í Bandaríkjunum léleg og fá. Þarna var í fyrsta sinn komin meðferðarstofnun, sérsniðin fyrir alkóhólista, þar sem mannleg reisn var höfð í hávegum. Fram að því höfðu margir sem þjáðust af sjúkdómnum lent í fangelsum, heimilisleysi eða inni á lokuðum geðdeildum.
Á Íslandi var Minnesota-módelið tekið í notkun á Vífilsstöðum. Þangað fór Lobbi, frelsaðist frá drykkju og hefur að sögn ekki orðið misdægurt síðan.
Lobbi getur ekki sagt að hann hafi langað í sopa þessa fjóra áratugi síðan hann sagði endanlega bless við Bakkus. „Ég hitti vini reglulega og við ræðum þessi mál. Þannig fær maður spegilmynd af sjálfum sér og nær að ráða við andann. Þetta snýst nefnilega um að hafa yfirhöndina andlega.“