Forsetaframbjóðandanum Guðna Th. Jóhannessyni urðu á þau mistök í gær að segja Ísland einu Norðurlandaþjóðina í úrslitum Evrópumeistaramótsins í fótbolta karla sem fer fram í Frakklandi í sumar. Guðni ritar játningu þess efnis á Facebook-síðu sinni og biðst forláts fyrir að hafa steingleymt Svíum, þeirri miklu íþróttaþjóð. Í færslunni minnist hann sænskra íþróttahetja úr uppvextinum, eins og „Svíagrýlunnar“ í handboltanum, Ingemars Stenmark og Björns Borg.
Gárungarnir voru ekki lengi að bregðast við og birta ýmiss konar athugasemdir við færslu Guðna. Þar bar meðal annars á góma að mannlegt væri að skjátlast, en aðrir ræddu um millilandakrísur og að sagnfræðingur ætti nú að hafa þessa hluti á hreinu.