fbpx
Föstudagur 06.september 2024
Fókus

Unglingatískan hefur innreið sína – Þótti „snargeggjuð“ hugmynd

Karnabær verður stórveldi í verslun

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 16. maí 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sérstakur klæðnaður fyrir unglinga á sér ekki langa sögu, en slík tískubylgja reið yfir heiminn á sjöunda áratug síðustu aldar og barst einnig til Íslands.

Ekkert bólar á „bítlafötunum“

Guðlaugur Bergmann (jafnan kallaður Gulli) rak á þessum árum litla saumastofu og heildverslun í félagi við Björn Pétursson. Snemma árið 1966 var Guðlaugur að blaða í ensku tímariti og sér þar grein um að til stæði að opna verslun í gömlum bar á Carnaby Street í Lundúnum, en þar átti einungis að selja svokallaðan „bítlafatnað“.

Guðlaugur setti sig í samband við heildsalann úti sem kvaðst ekki geta afgreitt neinar vörur fyrr en eftir tvo mánuði. Guðlaugur notaði tímann til að undirbúa markaðinn og fengust Herradeild P&Ó við Austurvöll, Faco á Laugavegi og JMJ á Akureyri til að kaupa nokkuð af þessum fatnaði. Dráttur varð þó á afgreiðslu fatanna og kaupmönnum tók að leiðast þófið. Einn góðan veðurdag frétti Jón Baldursson, félagi Guðlaugs, að þeir Jón M. Jónsson, kaupmaður á Akureyri, Pétur Arason í Faco og Vilhjálmur Vilhjálmsson heildsali væru sjálfir á förum til Lundúna til að verða sér úti um „bítlafötin“ þar sem þeir nenntu ekki að bíða lengur. Guðlaugur og Jón ákváðu sjálfir í skyndingu að halda til Lundúna.

Ævintýri í Lundúnum

Á þeim árum bjuggu flestir Íslendingar á Hotel Regent Palace við Piccadilly Circus. Þeir Jón M., Pétur og Vilhjálmur munu hafa orðið undirleitir er þeir hittu Guðlaug og Jón Baldursson í morgunverðarsalnum. Þeir þremenningar höfðu þá kannað markaðinn og reyndist varan ekki tilbúin til afhendingar fyrr en seint og um síðir og verðið alltof hátt – það væri ekki viðlit að spá frekar í þetta. Guðlaugur kvað þá bara ekki hafa réttu samböndin – það þýddi ekkert fyrir þá að rjúka svona til útlanda. Síðan var fastmælum bundið að þeir hittust seinna um daginn og þá yrði Guðlaugur með þetta allt á hreinu.

Því fór fjarri að Guðlaugur hefði nein sambönd til að útvega umræddan fatnað, en nú voru nokkrir klukkutímar til stefnu að finna þau. Fyrir tilviljun rákust þeir félagar á fyrirtækið Baker Warbourg Division, grunlausir um að þetta var einn helsti heildsali svokallaðs „bítlafatnaðar“ og stórfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða. Gengið var frá einkaumboði á staðnum og vörur pantaðar fyrir tíu þúsund ensk pund, en aldrei hafði verið gerður stærri samningur um kaup á tískufatnaði hingað til lands.

Guðlaugur og Jón hittu þremenningana á veitingastað íslenska ríkisins „Icelandic Food Center“ síðar um daginn og höfðu meðferðis sýnishorn af vörunum, sem kostuðu lítið miðað við það sem þeir höfðu skoðað. Gengið var frá pöntunum á staðnum.

Karnabær verður til

Þegar til kom drógu íslensku verslanirnar mjög úr pöntunum og þá voru góð ráð dýr. Guðlaugur fékk þá hugmynd að opna verslun og umsvifalaust hófst leit að plássi í miðbænum eða Laugavegi, en hvergi var autt pláss að fá á þeim tíma. Aftur á móti var autt verslunarpláss á horni Týsgötu og Skólavörðustígs og þar var ákveðið að setja upp verslun, sem var í upphafi í eigu þeirra þremenninga, Guðlaugs, Jóns Baldurssonar og Björns Péturssonar. Hugmyndin um verslun á Týsgötu með „bítlavörur“ þótti að sögn Guðlaugs „snargeggjuð“. Sjálfur orðaði hann þetta svona: „Kjarkmenn verða að koma við sögu á öllum vígstöðvum þegar innleiða á nýjungar í atvinnulífinu. Það gerist aldrei neitt nema til komi léttgeggjað fólk með léttgeggjaðar hugmyndir.“

Næsta mál á dagskrá var að halda á fund bankastjóra, Höskuldar Ólafssonar í Verslunarbankanum. Höskuldi fannst hugmyndin góð og úr varð að Verslunarbankinn lánaði 150 þúsund krónur til framtaksins, sem þótti í meira lagi áhættusamt.

En hvað skyldi búðin heita? Guðlaugur vildi að hún héti Carnaby, eins og fræga tískuvörugatan í Lundúnum. Hann hafði samband við fræðimenn í Háskólanum og spurði þá um þýðingu orðsins Carnaby og þeir voru fljótir til svars með hljóðlíkinguna „Karnabær“. Daginn fyrir opnunina var auglýst í Morgunblaðinu: „Carnaby-Street hefur innreið sína til Íslands. Tíska unga fólksins í London, sem þegar er orðinn miðdepill tískunnar ykkar í hinum vestræna heimi.“ Og í auglýsingunni sagði líka: „„Allt fyrir unga fólkið í fatnaði“ er stefna okkar! Nýjar vörur í hverri viku.“ Opnunarhóf verslunarinnar var allt annað en menn höfðu áður séð hér á landi. Tónlistin glumdi út á strætið. Það var tónlist unga fólksins og búðin auglýsti „tónlistin ykkar“ og „tískan ykkar“. Þetta hitti allt beint í mark og á fyrsta söludegi 16. maí 1966 seldist meira en helmingurinn af vörunum í búðinni. Þeir Jón og Guðlaugur héldu út samdægurs að sækja meiri fatnað.

„Á fyrsta söludegi 16. maí 1966 seldist meira en helmingurinn af vörunum í búðinni.“
Guðlaugur (Gulli) Bergmann og Sævar Baldursson „Á fyrsta söludegi 16. maí 1966 seldist meira en helmingurinn af vörunum í búðinni.“

Siðgæðisverðir ósáttir

Siðgæðisverðir samfélagsins voru ekki allir jafnhrifnir af hinni nýju unglingamenningu. Rakarameistarar héldu því fram að síðu hári á karlmönnum fylgdi óþrifnaður og lús. Því var jafnvel haldið fram að lúsafaraldur geisaði af þessum sökum. Í Karnabæ fengust barmmerki með alls konar slagorðum á ensku á borð við „Make love not war“ og „Applepie makes me sterile“. Eitt barmmerkið olli blaðadeilum, en þar sagði „I´m an £SD addict“. Þarna var á ferðinni orðaleikur, en £ stendur fyrir pund, S fyrir shillinga og D fyrir pence. Var undan því kvartað að verið væri að hvetja ungt fólk til eiturlyfjanotkunar.

Andspænis Karnabæ á Skólavörðustígnum var Þjóðviljinn til húsa og þar á bæ sögðu menn hið nýja fyrirtæki tákn um „spillingu auðvaldsins“ þar sem unga fólkið væri afvegaleitt. Bentu þeir á að „karni“ merkti hór í fornu máli og þetta væri því „hórbær“. Á næstu árum geisaði stríð á milli blaðsins og Karnabæjar og reglulegar voru birtar myndir af því í blaðinu hvernig þeir Karnabæjarmenn lögðu bílum sínum og svo framvegis.

Stórveldi í verslun

Sumarið 1967 stækkaði Karnabæjarveldið til muna, þegar komið var á fót skóverslun og snyrtivöruverslun á Klapparstíg 37, en snyrtivörurnar voru um tíma framleiddar hér á landi undir vörumerkinu „Mary Quant“. Önnur fataverslun var opnuð árið 1971 á Laugavegi 20 og árið 1973 eignaðist fyrirtækið hið sögufræga hús Austurstræti 22, þar sem Haraldarbúð var áður. Ekki leið á löngu uns Karnabær opnaði verslun þar og víðar um bæinn. Síðar voru opnaðar verslanir á Akureyri, Akranesi, Ísafirði, í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og í Keflavík.

Á tíu ára afmæli fyrirtækisins voru starfsmenn um eitt hundrað talsins í verslunum og fataframleiðslu.

Nýstárlegt fyrirtæki

Karnabær var nýstárlegt fyrirtæki um margt. Þar var til að mynda komið upp verðlaunakerfi. Verðlaun hlaut besti sölumaðurinn, best klæddi starfsmaðurinn, besta sölubúðin, besta útstillingin og svo framvegis. Þessar verðlaunaafhendingar fóru fram á gamlársdag í sérstöku hófi. Samkeppnin milli starfsmanna og deilda fyrirtækisins hafði góð áhrif á reksturinn og umsvifin jukust ár frá ári.

Þeir sem rekið hafa verslanir vita að góðir sölumenn eru ekki á hverju strái. Guðlaugur sagði eitt sinn þá sögu að Rolf Johansen heildsali hefði haft samband við sig fyrir ein jólin og beðið sig um að leyfa fjórtán ára dóttur sinni að fylgjast með sölunni í versluninni, en stúlkan væri alveg forfallin í tískunni. Stúlkan var sett í kjóladeildina, en til voru yfir tvö hundruð kjólar á lager, sem erfitt hafði reynst að selja. Gefum Guðlaugi orðið: „Litla dýrið seldi, seldi, seldi og seldi. Ég hef aldrei vitað aðra eins sölumannshæfileika í verslun.“ Umrædd dóttir Rolfs heitir Svava og er umsvifamesti fatakaupmaður landsins nú um stundir. Verðugur arftaki Guðlaugs Bergmanns.

Heimildir: Umfjallanir blaðanna og bók Óskars Guðmundssonar: „Og náttúran hrópar og kallar“.

Björn Jón Bragason skrifar / birtist áður í DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ljósbrot valin á BFI London Film Festival

Ljósbrot valin á BFI London Film Festival
Fókus
Í gær

Setur spurningarmerki við háttsemi læknisins sem sagði að hún gæti ekki eignast börn – Á von á sínu öðru barni

Setur spurningarmerki við háttsemi læknisins sem sagði að hún gæti ekki eignast börn – Á von á sínu öðru barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kevin myndaði eldgosið og átti ekki von á þessu – „Ekki vera þessi manneskja“

Kevin myndaði eldgosið og átti ekki von á þessu – „Ekki vera þessi manneskja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Konan mín fór í háloftaklúbbinn með öðrum en mér

Konan mín fór í háloftaklúbbinn með öðrum en mér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fékk nóg af Hollywood eftir að Matthew Perry dó

Fékk nóg af Hollywood eftir að Matthew Perry dó
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ofurfyrirsætan hefur glímt við krabbamein í sjö ár – Fór mjög umdeilda leið í átt að bata

Ofurfyrirsætan hefur glímt við krabbamein í sjö ár – Fór mjög umdeilda leið í átt að bata
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu