Segir fáfræði og fordóma ennþá ríkja gagnvart ADHD – „Sökina er að finna hjá okkur foreldrum“
„Nýlega gerðist það að litli fallegi og góði strákurinn minn var glaður. Honum var boðið í Lasertag-afmælisveislu bekkjarfélaga síns. Langt er síðan nokkur bekkjarfélagi hafði haft samband, þannig að hann hlakkaði afskaplega mikið til.“ Þannig lýsir Píratinn Hákon Helgi Leifsson atviki úr lífi 11 ára sonar síns, í einlægum pistli sem birtist á vef Kvennablaðsins. Umrædd saga endar ekki vel en sonur Hákonar er greindur með ADHD og fylgja því miklir félagslegir erfiðleikar. Hefur hann því orðið fyrir stöðugu aðkasti skólafélaga sinna. Hákon segir að enn í dag ríki fordómar og fáfræði gagnvart röskuninni og sé því mikilvægt að opna umræðuna. Þá sé ekki síður mikilvægt að foreldrar ræði við börn sín um gildi og samkennd, og skilning á því sem er öðruvísi.
Í umræddum pistli lýsir Hákon lífsbaráttu sonar síns sem hann segir ætíð hafa verið mikinn prakkara og hvatvís, en einnig hvers manns hugljúfi og með afskaplega gott hjartlag. Félagslegir erfiðleikar komu í ljós í leikskóla og í kjölfarið var drengurinn greindur með ADHD. Í grunnskóla fór að halla verulega undan fæti:
„Einn dag, á leið heim úr skóla, veittust að honum tveir strákar, kýldu og hræktu á litla, fallega, góða en sorgmædda strákinn minn. Við foreldrar vorum ráðþrota. Ég greip til þess ráðs að upplýsa alla foreldra bekkjarfélaga hans hvað ADHD væri, hvernig það virkar, hvernig strákurinn minn gæti mögulega hagað sér, í þeirri von að foreldrar myndu tala við börnin sín og þá, kannski, myndu bekkjafélagarnir í það minnsta hafa skilning á litla, góða, fallega en sorgmædda stráknum mínum,“
ritar Hákon og bætir við að ástandið hafi skánað um tíma en síðan hafi allt farið í sama farið og leið næstum heilt ár án þess að spurt væri eftir syni hans að leika. Drengurinn hans hefur þó lag á því að segja aldrei frá ef eitthvað bjátar á, heldur byrgir hann tilfinningar sínar inni.
Þá rifjar Hákon upp ofangreint atvik, þegar drengnum hans var boðið í Lasertag afmælisveislu bekkjarfélaga síns. „Klukkutíma síðar fengum við símtal. Þá hafði það gerst að strákarnir tóku sig allir saman og stríddu honum. Hann hafði verið að spila þythokkí við annan. Strákarnir hópuðust að þythokkíborðinu, kölluðu hvatningarorðum til mótherjans en þegar strákurinn minn vann sigur úr býtum, þá vann hann ekki í raun og veru, samkvæmt þeim. Örlitlu síðar brást strákurinn minn rangt við þessu mótlæti og tók „pökkinn“. Þá veittist hópurinn að honum, einn greip um hann og hrinti, hótaði síðan barsmíðum á meðan allir strákarnir fylgdust með. Þangað til foreldri skarst í leikinn og stöðvaði uppákomuna.“
Hákon er sjálfur greindur með ADHD og varð fyrir grófu einelti í æsku, sem hann segist hafa lifað af „en með djúp ör á sálinni.“ Í pistlinum lýsir hann því hvernig hann rifjaði eineltið upp fyrir syni sínum. Það tók svo sannarlega á.
„Þarna fór litli, fallegi, góði og glaði strákurinn minn að gráta hástöfum. Hann grét eins og öll uppsöfnuð sorg og uppsafnað óréttlæti hafi fengið útrás á sama tíma. Ég grét líka, faðmaði hann að mér og hugsaði: „Hvað hafið þið gert litla, fallega, góða, grátandi stráknum mínum?“
Hann segir sökina ekki liggja hjá skólafélögum sonar síns. „Sökina er hins vegar að finna hjá okkur foreldrum. Það er á okkar ábyrgð að kenna börnum okkar gildi. Hvað er rétt og hvað er rangt. Það er á okkar ábyrgð að kenna börnum okkar að setja sig í spor annarra. Án þessara gilda verður einelti, eins og ég varð fyrir og litli, fallegi, góði strákurinn minn er að verða fyrir, alltaf vandamál. Viðvarandi vandamál. Foreldar takið ábyrgð, talið við börnin ykkar.“