„Eðlilegur tími er í kringum 20. maí“
Söngvarinn Bubbi Morthens greindi frá því á Facebook síðu sinni í morgun að fyrsti laxinn hafi sést í Laxá í Kjós í morgun.
„Nei, ég bý nú þarna upp frá og sá fyrsta laxinn þarna bara,“ segir Bubbi í samtali við DV aðspurður hvort stefnan hafi verið tekin á að fara að veiða í morgun. Aðspurður segir Bubbi þetta vera í fyrra fallinu sem laxarnir láti sjá sig, „Eðlilegur tími er í kringum 20. maí,“ segir hann og bætir við: „Þetta er vorboði!“
„Ég bæði veiði mikið og hef skrifað veiðibækur,“ svarar Bubbi aðspurður hvort hann veiði mikið. Hann lét fylgja með að lokum, léttur í bragði, að blaðamanni væri vorkunn ef hann hefði ekki heyrt af því.