Það er eins og gerst hafi í gær … en það eru liðin 25 ár frá því að Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson stóðu á sviði í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og fluttu Draum um Nínu. Keppnin var það árið haldin á Ítalíu, enda hafði enginn annar en ítalski hjartaknúsarinn Toto Cutugno hreppt hnossið árið áður með laginu Insieme 1992. Grjótharðir aðdáendur keppninnar muna kannski eftir laginu, en aðrir ekki. Lagið var mikill ástaróður til sameinaðrar Evrópu, en Nína er eins og allir vita ástarjátning Eyfa og Stebba til Nínu, konunnar sem birtist þeim í draumi.
Haldið var upp á aldarfjórðungsafmæli Nínu í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið, en þar stigu Stebbi og Eyfi á svið og fluttu dagskrá til heiðurs draumakonunni.